þriðjudagur, mars 14, 2006

Kynþokkafulla þulan

Það ætti nú varla að hafa farið framhjá nokkrum manni sem að horfir á Ríkissjónvarpið að hjá þeim er starfandi þula með mjög svo kynþokkafulla rödd. Ég hef nú stundum kveikt á sjónvarpinu án þess að vera beint að horfa á það, kannski að bíða eftir fréttum eða einhverju óvæntum spennandi þætti, og það bara bregst ekki að þegar þulan byrjar að þylja upp dagskránna þá verð ég bara að hætta að gera það sem ég er að gera. Ég get ekki vaskað upp, eldað kvöldmat eða sett á mig maska þegar ég heyri þessa rödd. Ég verð að stoppa og hlusta. Ég veit samt aldrei hvað er á dagskrá því ég er bara að hlusta á það hvernig konan beitir röddinni. Þrátt fyrir að ég hafi lesið um það í bókum að einhver hafi sagt eitthvað með sinni seiðandi rödd þá hafði ég aldrei í raun vitað nákvæmlega hvernig seiðandi rödd hljómaði áður en ég heyrði í seiðandi þulunni. Ég velti því stundum fyrir mér hvort að hún væri búin að æfa sig mikið, eða hvort að hún hefði fengið einhverja sérstaka þjálfun í seiðingi. Það skemmtilegasta sem að gerðist í mínu lífi í dag var að ég hitti þessa seiðandi þulu. Eða ég kannski ekki beint hitti hana, eins og að hitta einhvern í kaffi, ég meira svona bara stóð við hliðin á henni í búningsklefanum í ræktinni. Í búningsklefanum var önnur sjónvarpskona, þær þekkjast víst allar, sem seiðandi þulan fór að spjalla við. Seiðandi þulan talar svona í alvöru, ALLTAF. Eða allavega í sjónvarpinu og í ræktinni. Þetta finnst mér stórmerkilegt.