Yndislega yndislegt
Já það er nú bara aldeilis fínt að vera til, ef ég á að segja alveg eins og er. Ég upplifði svo fallegan og skemmtilegan dag í gær að það er frekar erfitt að ætla að vera eitthvað súr í dag. Enda er það ekkert smart. Konur á mínum aldri eiga að reyna að vera svolítið glaðar, annars fáum við bara hrukkur. Hvað er verra en hrukkur? Alls ekki neitt. Gærdeginum eyddi ég með mikið af yndislegu og fallegu fólki. Nú hljóma ég eins og Bergþóra vinkona mín, hún er einmitt yndisleg og það sem betra er að henni finnst svo margt yndislegt. Hún er kannski betur tengt svona tilfinningalega heldur en ég. Ég roðna ennþá þegar ég tala um hvað fólk sé yndislegt og fallegt. Ég á aðra yndislega og fallega vinkona sem heitir Gunný. Hún er í sérstöku uppáhaldi hjá mér í dag vegna þess að í gær lánaði hún mér húsið sitt svo ég gæti haldið almennilegt brunch partý og boðið öllu yndislega og fallega fólkinu sem að ég þekki. Sem ég gerði, og það var alveg hreint yndislegt. Yndislega fólkið mætti á svæðið í gær og borðaði með mér yndislegar veitingar, sem var alveg hreint yndislegt. Þessi yndislegi sunnudagur endaði svo alveg hreint yndislega. Æji, eru þessi yndislegu skrif ekki bara orðin púkó? Kannski ef ég held aðeins áfram og geng alveg yfir strikið nær þetta að verða spaugilegt, og hvað er yndislegra en að fá einhvern til að brosa? Í gærkvöldi bauð yndislegasti og fallegasti maður sem ég þekki mér á alveg hreint yndislega tónleika. Við fórum á Nasa og hlustuðum á band sem að heitir The Bad Plus sem er yndislegt jazzband sem spilar mjög svo yndislega tónlist, alveg hreint mjög svo smart og yndislegir tónleikar. Já dagurinn í gær var svo sannarlega yndislegur.
<< Home