miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Viðeigandi S&H fyrirsögn

Þrátt fyrir að ég hafi búið í Vesturbænum síðastliðin 13 ár þá er sú staðreynd að ég ólst upp í Breiðholti enn að hafa áhrif á mitt líf. Ég var að keyra heim rétt í þessu þegar ég tók eftir því að bíllinn sem keyrði við hliðina á mér var lögreglubíll og inní honum voru tveir lögregluþjónar. Ég fór strax að vanda mig í því að vera venjuleg á svipinn, hugsaði með sjálfri mér; Magga vera róleg, láta eins og ekkert sé, bara brosa smá en ekki of mikið. En þá tók ég eftir því að annar lögregluþjóninn (sá í farþegasætinu) var að horfa inní bílinn minn, og án þess að fá nokkuð við það ráðið fann ég hvernig ég byrjaði að svitna pínu lítið, mér leið illa í maganum og varð þurr í muninum. Ég reyndi að sannfæra sjálfa mig um það að löggan væri bara að horfa á mig af því að ég er svo sæt, en það virkaði ekki. Mér þykir þetta stór furðulegt. Ég hef ekki stundað ólöglega starfsemi í fleiri ár, er meira að segja eiginlega alltaf farin að keyra á löglegum hraða, stoppa alltaf á stöðvunarskyldu og gef stefnuljós.

Ég heyrði einu sinni um hund sem fékk alltaf að borða eftir að hringt var á bjöllu, eftir vissan tíma byrjaði hann alltaf að slefa þegar hann heyrði í bjöllunni hvort sem hann fékk að borða eða ekki. Ég er svolítið eins og þessi hundur, nema að ég er manneskja.