þriðjudagur, júlí 05, 2005

Músík.

Í síðustu viku sá ég Duran Duran og Leaves á tónleikum. Það var fín stemning í höllinni, fullt af gömlum hamingjusömum Duran aðdáendur komnir saman til þess að skemmta sér. Ég hlustaði aðeins á Duran Duran sem unglingur, eða þegar ég var svona 12 og 13 ára. Þegar 14 ára aldri var náð fór Duran Duran aldrei á plötuspilarann í neinum af þeim partýum sem mér var boðið í. Nei þá var hlustað á Talking Heads, The Clash, Guns ´N Roses, U2, Iron Maiden og stundum Bubba. Við vorum svo flippuð þarna uppí Breiðholti. Ég á engan geisladisk með Duran Duran lögum, og hef aldrei átt, en skemmti mér samt ágætlega og söng með lögum á borð við Girls on Film. Svo var Simon líka í svo fínum jakkafötum.

Í kvöld var svo kvöld númer tvö í Reykjavík Rocks festivalinu. Í kvöld voru Mínus, Queens of the Stone Age og Foo Fighters að spila. Þegar við Magga Hugrún mættum á svæðið var QOTSA byrjuð að spila sem mér fannst rosa súrt. En ég gat ekki verið súr mjög lengi þar sem hljómsveitin var gjörsamlega frábær. Ég smeygði mér eins framalega og ég komst og upplifði mikla sælu við að finna fyrir músíkinni, og já að sjá Josh Homme (http://www.qotsa.com/flash.html) svona nálægt var frekar geðveikt, en hann er einmitt mesti töffari sem ég hef á ævi minni séð. Hann er rauðhærður og Magga Hugrún segir að ég sé með fetish fyrir rauðhærðum gaurum. Fetish petish! Þegar Foo Fighers byrjaði mjög vel og stemningin varð frekar góð. Greinilegt að Foo Fighers áttu fleiri aðdáendur í Egilshöll, kannski að ekki eins margir þekkja QOTSA. Dave Grohl er búin að læra einhverja íslensku, hann sagði “syngið með” þegar þeir byrjuðu á Times Like These. Það er auðvitað ekkert hægt að líkja tónleikunum í kvöld saman við DD tónleikana, allt annað í gangi auðvitað. DD tónleikarnir voru bara svona einhver hressandi stemning og fullt af fólki á mínum aldri, tónleikarnir í kvöld(þar sem ég var án efa elsti tónleikagesturinn, allavega kvenkyns) voru magnaðir.

Alla vega þá fer ég hamingjusöm í rúmið í kvöld, með smá hálsríg samt. Það er frábært að fara á tónleika með góðu bandi. Nú ætla ég bara að láta mig dreyma um að Kári fari að komast í samband við Jack og Meg White. Ég væri til í að sjá White Stripes á Íslandi. Nýja White Stripes platan er yndisleg, alveg mögnuð. Hún heitir Get Behind Me Saten, ég er sérstaklega hrifin af laginu My Doorbell.