Að slá í gegn.
Ég hreinlega elska svona sunnudagsmorgna. Engin dagskrá, bara rólegheit. Ég er búin að borða morgunmat, lesa blaðið, lesa kafla í bókinni Fyrst ég gat hætt þá getur þú það líka og hlusta á krúttlegan karl á tölvunni minni. Hann heitir Eckhart Tolle, hann Siggi sendi mér þetta. Tolle er frekar merkilegur karl. Hann er meðal annars að fjalla um leit fólks af sjálfu sér. Hver er ég? Hvenær er ég búin að meika það? Er ég búin að meika það þegar ég fæ rétta starfið, klára réttu menntunina, giftist rétta makanum, eignast réttu börnin, húsið, bílinn, kemst í réttu þyngdina, veit réttu hlutina, þekki rétta fólkið, kaupi mér réttu fötin eða eitthvað því um líkt. Hvað sem er sem að fólk telur að geri það að því sem það er. Þessi krúttlegi karl tekur skemmtileg dæmi um hvernig fólk reynir að stækka sjálft sig, gera sig að fyllri manneskju, þá sérstaklega í augum annarra. Mér finnst einmitt alltaf pínulítið spaugilegt þegar fólk fer að name droppa í samtölum, koma því að hvaða mikilvægu og smart fólk það þekkir. Þessi hugsun; ef að hann/hún veit að ég þekki t.d. Baltasar, hef verið í partýum með Björgólfi, er vinkona vinkonu Ingibjargar P. eða betra er ættingi Vigdísar Finnboga þá kannski finnst henni/honum ég aðeins merkilegri pappír. Já pínu kjánalegt, en svona erum við mennirnir, sumir meira en aðrir, og ég hef örugglega gerst sök um að name droppa pínu. Man samt ekki eftir því, enda er ég fullkomin. Já ég er fullkomin, en ég ætla samt að klára bókina Fyrst ég gat hætt þá getur þú það líka og í kjölfarið hætta að reykja, enda mjög sjoppulegt að reykja, þyngjast kannski um tvö til þrjú kíló, fara að spara peninga, uppfæra ferilsskránna mína og fara í að gera umsóknirnar fyrir framhaldsnámið, ein þeirra fer í Harward. Þegar það er allt saman komið verð ég væntanlega meira fullkomin.
<< Home