þriðjudagur, apríl 05, 2005

Viðeigandi fyrirsögn.

Yfirleitt finnst mér fínt að vera ég. En það er reyndar eitt atriði sem mér finnst erfitt við að vera ég en ekki einhver önnur/annar. Málið er að ég hef ýmsar skoðanir á flestum málum. Lítið brot af því sem ég hef skoðun á er(ekki í röð eftir mikilvægi); innflutningur á Bobby Fisher, klæðnaður á flestu fólki, sjónvarpsdagskráin, þjónustan í 10-11, af hverju Bush er forseti Bandaríkjanna en ekki John Kerry, hvað má bæta í Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, hvernig var staðið að málum í ráðningu fréttastjóra Ruv, hvort selja eigi Ruv, á raunverulegum mun kynjanna, hvaða fólk er leiðinlegt osfr. Þetta er bara brot af því sem ég hef skoðun á.
Þetta er allt gott og blessað nema hvað að þessar skoðanir mínar skipta engu máli. Þeir sem hafa tök á því að heyra um mínar skoðanir eru ekki margir. Það hefur t.d. aldrei verið hringt í mig og ég spurð af því hver mín skoðun sé á fordómum Íslendinga á innflytjendum. Mér hefur aldrei verið boðið að koma fram í Kastljósinu og beðin að segja hverja ég telji vera besta lausnin í baráttu kynjanna. Þannig að stundum langar mig að vera manneskjan sem er hringt í.
Sem sagt þá finn ég af og til fyrir þörf til að láta skoðun mína í ljós en virðist eiga erfitt með að mynda mér skoðun á því hver sé besti vettvangurinn til þess. Ég geri mér líka grein fyrir því að sumar skoðanir þarf engin að fá sérstaklega að vita um, eins og eitt dæmi hér. Þá er stelpa með mér í skólanum sem er svakalega brún, alltaf. Það er ekkert normal að vera rosa brún í desember á Íslandi. Þannig að ég sagði við hana; mikið rosalega ertu brún. Þá sagði hún takk. Sko, þarna var ég að reyna að koma þeirri skoðun minni á framfæri að mér þætti asnalegt að vera svona brún að vetrarlagi og hún heldur í dag að mér finnist það smart. Þetta er dæmi um skoðun sem ég hefði t.d. alls ekkert þurft að reyna að koma á framfæri til hennar.
Kannski þarf ég bara að fara að stunda sund og borða hollan mat. Er ekki alveg viss.

Dóttir mín sagði við mig í dag að hún vildi að hún væri ég, greinilegt að hún er bara sex ára.