sunnudagur, mars 27, 2005

Páskar.

Ég er eiginlega eitthvað fáranlega hamingjusöm. Ekkert samt sem ég hef einhverjar stórar áhyggjur af. Þetta er allt innan svona skynsamra marka, eins og einhver myndi kannski orða það.

Í gær var ég líka mjög glöð, það var rosa gaman að vera til og ég fór að velta fyrir mér hvort að ég ætti að hafa samviskubit yfir því að vera svona glöð á föstudaginn langa. Er það við hæfi? Kannski að hið æðra fyrirgefi mér þar sem ég hef verið súr svo marga aðra daga á árinu, veit ekki hvernig þetta virkar nákvæmlega. Í gær fór ég í matarboð, á afmælishátíð, á tónleika í heimahúsi, í partý og á dansiball. Allt var þetta stórfínt. Nema partýið var svoltið súrt reyndar, en það var í rosa fínu húsi. Þegar ég var spurð að því hvers vegna ég væri svona róleg og ekki hressari áttaði ég mig á því að líklega ætti ég að vera einhvers staðar annars staðar en í þessu partýi(enda haldið uppí Breiðholti), ég fór því.

Stundum hef ég velt því fyrir mér hvernig standi á því að mér sé ekki boðið á stefnumót oftar, mér er eiginlega aldrei boðið á stefnumót. Mér hefur þótt líklegt að það sé vegna þess að ég daðra ekki. En svo var mér boðið á stefnumót í gær, og það var bara ekkert sérstakt. Gerði í raun ekkert sérstakt fyrir egoið, ekki eins og ég hafði búist við allavega. Mér fannst bara óþæginlegt að segja nei. Það er allavega alltaf verið að bjóða Beggu G. á stefnumót og hún virðist mjög hress. Auðvitað fer ég ekki á eitthvað stefnumót með einhverjum manni þar sem flestir karlmenn eru svín. Það er svona í mesta lagi einn sem er ekki svín, og það var ekki hann sem bauð mér á stefnumótið. Nei nei auðvitað eru karlmenn ekkert einhver svín. Svín eru bara svín að því að þau eru svín, og þá er allt í lagi að vera svín þ.a.s. ef maður/svín er svín. Þetta var bara svona grín sem rímar við svín. Frekar barnalegt kannski, en þar sem mér skylst að það sé einhver æskudýrkun í gangi hlýtur að vera í lagi að vera barnalegur stundum. Dóttir mín hefur gaman af svona rími, enda er hún mjög barnaleg.

Mér finnst smart að blikka. Eða, þegar einhverjum lýst vel á einhvern finnst mér að viðkomandi ætti að blikka. Ég er allavega svona kona sem fellur fyrir manni sem blikkar.

Hulda vinkona mín kom til mín í dag með páskaliljur. Mér finnst hún frekar frábær, hún er svona buisness kona sem veit rosa mikið. Stundum segir hún mér eitthvað sem er gott að vita.