miðvikudagur, október 26, 2005

Húmor

Húmor er spes fyrirbæri. Þetta er mér sérstaklega ofarlega í huga vegna þess að í gær fór ég á leiksýningu sem að flestum leiksýningargestum þótti mjög svo fyndið. Ég fór með nokkrum stelpum sem einmitt öllum fannst þetta mjög spaugilegt allt saman, nema mér. Jú jú, ég brosti rétt aðeins tvisvar held ég í þennan 1 og hálfan klukkutíma sem sýningin var. Mér fannst leikkonan fín, Edda Björgvins, og svo voru spiluð ágætis lög af og til í sýningunni en fyndið fannst mér þetta ekki. Ekkert alvarlegt í gangi hér, þessar stelpur sem fóru með mér í Borgarleikhúsið eru skemmtilegar og góðar stelpur þrátt fyrir að hafa ólíkan húmor en ég. Alveg brilliant skilnaður fjallar um konu sem situr ein eftir með hundinum sínum þegar eiginmaður hennar skilur við hana og dóttir hennar flytur í eigin húsnæði. Konan þarf að takast á við verkefni sem hún hefur aldrei þurft að gera áður, eins og að versla sér titrara. Já titrarar eru rosa fyndnir.

Þessi sýning minnti mig á það þegar ég og Magga H. sáum Napoleon Dynamite á kvikmyndahátíð. Öllum í salnum fannst mjög svo fyndið þegar Napoleon t.d. datt á hjólinu sínu, en ekki mér og Möggu. Í þeirri mynd er reyndar eitt atriði sem var frekar spaugilegt, tvær mínútur af u.þ.b. 100.

Mér finnst hins vegar þátturinn American Next Top Model mjög fyndin, sérstaklega þótti mér fyndið þegar Tyra fékk kast í síðasta þætti þegar ein af fyrirsætustúlkunum sýndi henni ekki viðeigandi virðingu. Tyra setti svo stút á varirnar og sagði frá því að hún hefði nú lifað tímanna tvenna, þá hló ég. Mér finnst líka bachelorþátturinn fyndinn. Já og reyndar Sjáumst með Silvíu Nótt er fyndin, en það er einmitt grínþáttur.