laugardagur, október 15, 2005

Searching for Angela Shelton

Ég var í dag að reyna að finna einhver fimm atriði sem myndu lýsa mér, hver ég er. Það var erfiðara en ég hefði búist við. Því hvernig ég er í dag er ekkert endilega hvernig ég verð á morgun eða var í gær. Eða ég veit samt ekki alveg, sumt breytist lítið en annað í mínu fari finnst mér breytast frá degi til dags. Ég var eitthvað að velta fyrir mér hvort ég væri feimin, óörugg eða rosa örugg og ófeimin, sem mér finnst mjög breytilegt.

Ég mætti í tölfræðitíma eins og ég geri alla föstudaga. Þegar u.þ.b. hálf tími var liðinn af kennslustundinni fór mér að líða frekar undarlega. Mér fannst allir vera að horfa á mig, og fór í pínu panic yfir því hvers vegna allir væru að horfa á mig. Var ég í ansalegum buxum? Hafði hárgreiðslan farið í eitthvað rugl í rokinu? Eftir að hafa velt fyrir mér nokkrum möguleikum komst ég að þeirri niðurstöðu að mér fannst allir vera að horfa á mig af því að allir voru að horfa á mig. Allir voru að horfa á mig vegna þess að ég var eina manneskjan í skólastofunni sem stóð og talaði, ég var líka eina manneskjan í stofunni sem var að skrifa á töfluna. Þegar ég áttaði mig á þessu leið mér aðeins betur og tók þá ákvörðun um að reyna að fækka kaffibollunum niður í fimm, allavega svona fyrir hádegi.