þriðjudagur, janúar 31, 2006

Leitin heldur áfram

Getur verið að ég hafi alls engan persónuleika? Að ég haldi bara að ég hafi einhvern sérstakan persónuleika og hagi mér í samræmi við þann persónuleika sem að ég held að ég hafi? Kannski. Ég vona að þetta sé þannig. Því ef ég er í raun og veru persónleikalaus þá get ég búið til nýjan persónleika á hverri stundu. Í dag ætla ég að vera dularfull, en samt hlý, róleg, ráðagóð og brosmild. Fólk sem hittir mig í dag mun væntanlega segja, já hún Magga er rosa fín stelpa en ég þekki hana samt ekkert vel svona persónulega. Á morgun verð ég kannski frekar flippuð, og fólk mun segja; vá hvað hún Magga er flippuð stelpa, eitthvað svo frjáls og opin. Á fimmtudaginn verð ég rosalega barnaleg, jafnvel kjánaleg. Ég veit ekki hvað fólk mun segja þá, vondandi eitthvað á þessa leið; já Magga er pínu barnaleg en samt alltaf gaman að henni. Svo segir kannski enginn neitt, það er líka alltaf möguleiki á því.

Ætli það sem að mér dettur til dæmis fyrst í hug til að lýsa persónuleika vinkvenna minna sé í samræmi við þá sýn sem þær hafa á sér sjálfum? Ég ætla að prófa að finna þrjú lýsingarorð fyrir nokkrar af þeim, gaman að sjá hvort að þetta komi einhverjum rosalega á óvart.

Auja; skemmtileg, kaldhæðin og klár skólastelpa
Begga G; dugleg, drífandi og hávær.
Bergþóra; fyndin en öguð.
Gunný; skilningsrík, ráðagóð og frábær gestgjafi.
Inga Lára; hlý og viðkvæm, en samt hugrökk.
Magga H; flippuð, fyndin og góður penni.
Magga Steingríms; fyndin, félagslynd og dugleg að synda.

Svona þegar ég hugsa um það þá eru allar þessar stelpur frekar fyndnar, en vildi ekki virka eins og ég kynni bara eitt orð. Svo á ég reyndar fleiri vinkonur þarna úti sem að ég er ekki að skrifa neitt um, og vona svo innilega að þær upplifi ekki einhverja höfnun núna. Þessi síðasta setning hér held ég að sé merki um persónueinkenni sem að er stundum kallað meðvirkni. Að lokum verð ég að koma því að að orðið meðvirkni fer virkilega í taugarnar á mér (allavega í dag) því að það lýsir svo mörgu að það verður að engu.

Takk og bless.