föstudagur, október 28, 2005

Afbrot og eftirlit.

Ég eyddi stórum hluta dagsins í að sitja á ráðstefnu sem haldin var á vegum Félagsvísindastofnunnar Háskóla Íslands. Ég valdi mér fyrirlestra í flokknum afbrot og eftirlit, enda það mitt áhugasvið þessa dagana. Þetta var verulega áhugavert.

Fjallað var m.a. um réttlætingar ríkisstjórnar til að skerða persónufrelsi einstaklinga, undanfarin ár hafa réttlætingarnar falist í því að það sé verið að sjá fyrir þjóðaröryggi. Þessi réttlæting hefur ekki verið gagnrýnd mikið, þá sérstaklega ekki eftir 11.sept. Eins og einhver sagði því hræddara sem fólk er því auðveldara er að stjórna því. Skemmtileg samlíking kom fram á því sem er að gerast í dag og gerðist á valdatíma Hitlers. Eftirlitisrannsóknin verður gefin út, man ekki hvenær hún er væntanleg en hún er væntanleg, höfundar rannsóknarinnar eru Dr. Guðbjörg Linda og Lára Rún.

Afbrotafræðingarnir Helgi Gunnlaugs og Rannveig greindu frá fórnarlamba rannsókn sem þau hafa verið að gera undanfarið. Bornar voru saman opinber gögn yfir tíðni afbrota og svo þær tölur sem koma úr könnun þeirra. Megin niðurstöður; tíðni afbrota er mun hærri en opinber gögn segja til um, kynferðisbrot eru þau brot sem eru hvað mest vanmetin í opinberum gögnum. Þetta kemur svo sem ekki á óvart því sambærilegar rannsóknir erlendis hafa sýnt fram á þetta sama. Aðrar niðurstöður voru einnig áhugaverðar, og mun ég án efa kaupa bókina þegar hún kemur úr eftir u.þ.b. mánuð.

Einnig var greint frá rannsókn á stimplun. Það var Dr. Jón Gunnar sem sagði frá áframhaldandi rannsókn á doktorsritgerð sinni. Þetta var virkilega áhugaverður fyrirlestur. Jón Gunnar sagði frá því hvernig það að hafa einhver afskipti af lögreglu á yngri árum hefði neikvæð áhrif á lífsgæði á fullorðinsárum. Hann hafði þá stjórnað fyrir ýmsum þáttum, eins og t.d. afbrotaferli á unglisárum. Þannig að sá sem hefur brotið af sér og er handtekin fer að lifa sig inní hlutverk afbrotamanns, og aðrir upplifa hann sem slíkan. Á meðan annar aðili brýtur lögin en er ekki handtekin er mun líklegri til að leggja niður feril sinn sem afbrotamaður þegar hann verður fullorðin og þarf að takast á við ábyrgð. Basicly var þetta málið.

Vona að ykkur finnist þetta jafn spennandi og mér. Eitt varðandi þetta allt, eins og sumir vita þá ólst ég upp í Breiðholti og hef þ.a.l. mikla innsýn inní heim glæpa og frávika, því eins og allir vita þá eru ekkert nema frávikar í Breiðholti, ég finn þess vegna stundum fyrir löngun til að koma því á framfæri þegar ég er að hlusta á svona fyrirlestra. Ég var t.d. næstum búin að segja upphátt í dag; já nákvæmlega, ég get nú sagt ykkur nokkrar sögur af unglings árum mínum. Ég gat þó hamið mig. Þar sem ég er að vinna fyrir einn af þessum félags-afbrotafræðingum þá kem ég því kannski eitthvern tíman að.