miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Cause after all he´s just a man

Ég hef tekið þá ákvörðun að stíga út úr þægindahringnum og gera eitthvað sem að ég hef aldrei gert áður, en hefur langað að gera lengi. Ég ætla að semja texta við lag, það verður að vera kántrýlag. Ekki get ég samið pönklag, ég er ekki anarkisti, ég er ekkert sérstaklega á móti ríkisstjórninni (þrátt fyrir að ég myndi sjálf taka á annan hátt á sumum málefnum, en ég geri það þá bara þegar ég fer sjálf í pólitík). Ég get engan vegið samið rapp, því að mig dreymir ekki um peninga og stóra rassa alla daga. Ég er of hamingjusöm til þess að semja blús, ég er of strait til að semja rokk og ég kann ekki á jass tónlist. En þar sem að líf mitt getur verið mjög dramatískt, eða svona stundum finnst mér það, er viðeigandi að ég reyni að semja kántrýlag. Ég hef reyndar ekki komið að bestu vinkonu minni í rúminu með kærastanum mínum, sem myndi hjálpa við textasmíðar. Ég veit hreinlega ekki til þess að það hafi verið haldið framhjá mér síðan að ég hætti með fyrsta kærastanum mínum. Ég byrjaði með honum fjórtán og hætti með honum sextán ára. Hann var nú meiri kallinn. Hann fór í sleik við bekkjarsystur mína, og ég hætti með honum. Eftir um það bil tvo daga kom hann grátandi og sagði mér að hann elskaði enga nema mig og að ég þyrfti hreinlega að fyrirgefa honum því annars myndi hann deyja. Ég vildi ekki hafa dauða hans á samviskunni þannig að ég fyrirgaf, svo hafði líka Tammy Wynette fyrirgefið svo það hlaut að eiga að vera þannig. Já einmitt, það sem að ég lærði af þessu sambandi var að fyrirgefningar eru bara fyrir kjána. Áður en ég vissi af var fyrsta ástin mín búinn að fara í sleik við allar stelpurnar í bekknum, og hann grét í hvert skipti. Ég get reyndar ekki samið texta um þessa reynslu því að sárið sem að myndaðist á hjarta mínu á unglingsárunum er svo löngu gróið. Kannski að ég semji um hvernig það er að horfa uppá vinkonu sína mynda ástarsamband með fyrirverandi kærasta, nei þar sem að mér er nokk sama þá eru nú ekki miklar tilfinningar þar. Kannski að ég semji texta um það hvernig það er að vera miðaldra kona að reyna að ganga í augun á ungum dreng sem keyrir um á mótórhljóli og spilar á trommur. Nei, það er of pervertískt fyrir kántrý.

Æji, ég finn eitthvað út úr þessu.