fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Whitesnake

Já hvað getur maður sagt. Allý spyr hvort ég hafi verið í rugli á mínum unglingsárum, hvort það sé ástæða þess að ég vilji helst ekki muna eftir þeim. Þrátt fyrir að þessi spurning sé varla svaraverð þá ætla ég samt að svara henni. Auðvitað var ég ekki í rugli á mínum unglingsárum, ekkert frekar en í dag. Ég hef alltaf verið til fyrirmyndar. Alveg frá blautu barnsbeini hef ég kunnað mér hóf í öllu sem einu, ég hef verið kurteis og prúð. Þannig er ég bara. Ástæða þess að ég vil helst ekki muna eftir mínum unglingsárum er einföld. Herðapúðar, Millet úlpa, götóttar gallabuxur og WhiteSnake!

Annars þarf ég að fara að sofa og má ekki vera að því að standa í þessu. Samt hef ég ljótan grun um að ég eigi eftir að eiga erfitt með svefn vegna tilhlökkunar. Það hefur bitnað á mínum nætursvefni alveg frá því í byrjun októbermánaðar hvað ég er mikil jólastúlka. Þessi tilhlökkun á kannski eftir að valda mér magasári. Núna er tilhlökkunin meiri en venjulega þar sem það er einum degi færri til jóla en var í gær, og svo bætist tilhlökkun vegna Rokkklúbbs næstkomandi föstudagskvöld ofaná allt saman. Á næsta föstudag fáum við nýjan meðlim í klúbbinn. Það hefur farið ansi mikill tími undanfarna daga í að undirbúa viðeigandi vígslu fyrir hana Allý. Ég vona bara að hún muni koma til með að meta þetta allt saman. Já ástandið á mér síðustu daga hefur ekki verið uppá marga fiska. Ég hef samt haldið mig frá svefntöflum og drukkið mikið af Sleepytime tei. Teið virkar ágætlega þangað til að ég vakna með fulla þvagblöðru. En nóg um það í bili.