mánudagur, febrúar 21, 2005

DC.

Ég er í fagi uppí háskóla sem heitir Fjölmiðlafræði: Kenningar og rannsóknir. Ein eining í því fagi felst í vikuferð til Washington DC, þar sem allir helstu fjölmiðlar, fjölmiðladeildir innan háskóla, ráðuneyti og fleiri staðir verða heimsóttir. Það eru u.þ.b. 15 nemendur sem ætla að að nýta sér þann kost. Ferðin kostar heil ósköp, eða allavega á minn mælikvarða sem á ekki einu sinni bíl. Og núna er ég sem sagt í vandræðum, ég get ekki tekið ákvörðun um hvort ég eigi að fara út eða vera heima. Ég talaði við minn andlega ráðgjafa í gær og sagði henni allar staðreyndir málsins, síðan bað ég hana að taka ákvörðun fyrir mig. Hún vildi það ekki. Allt í lagi, nú ætla ég að leggja þetta upp fyrir ykkur og nú vil ég að einhver taki á skarið og segi mér hvað ég á að gera.

Jákvæða viðhorfið:
Ég hef aldrei komið til DC og það er víst borg sem allir ættu að skoða.
Ég fæ kannski aldrei aftur tækifæri til að skoða þessa fjölmiðlafyrirtæki og háskólana.
Það eru frábærir krakkar í þessum hóp sem verður gaman að kynnast betur.
Það er ekki mikið mál að fá yfirdrátt í banka, eða jafnvel kreditkort.
Ég hef gott af smá fríi.
Það er mjög mikilvægt að lifa og njóta alls þess sem lífið hefur uppá að bjóða, og það að ferðast er mjög skemmtilegt.
Þetta er ein eining.
Ég á 4 ára afmæli daginn eftir en það er flogið út.
Ég get keypt I-pod fyrir Auja, og kannski mig líka.
Það er svo langt síðan að ég fór síðast til útlanda, og svo er Barcelona allt annað.
Þetta verður án efa skemmtileg vika.

Neikvæða viðhorfið:
Það er frekar kalt á þessum árstíma í DC og ekki víst að ég nenni að skoða borgina, og hvað þá með þessum hóp.
Afhverju ætti mig að langa til að skoða þessi fjölmiðlafyrirtæki, og það er MJÖG ólíklegt að ég fari í framhaldsnám til Bandaríkjanna.
Þessir krakkar eru flest nokkuð yngri en ég og eiga eftir að vera full allan tíman.
Það eru háir vextir á yfirdrætti, og það er ástæða fyrir því að ég sagði skilið við kreditkort fyrir fimm árum. Svo er ég líka að fara til Barcelona í júní.
Ég þyrfti að fá frí uppá ruv eitt kvöld sem er bæði kostnaðarsamt og leiðinlegt.
Dóttir mín mun sakna mín, eða kannski frekar ég mun sakna hennar.
Það er mjög mikilvægt að taka ábyrgð á framtíðinni og eyða ekki um efni fram, þrátt fyrir að lifa einn dag í einu.
Þessi ferð er bara ein eining, og tekur tíma frá öðrum fögum.
Ég á 4 ára afmæli daginn eftir að við komum út og ætti því frekar að vera á ráðstefnunni og halda jafnvel afmælispartý.
Ég þarf að kaupa I-pod fyrir Auja, og enda örugglega með því að kaupa einn fyrir mig.
Það er svo stutt síðan að ég fór síðast til útlandi, svo er ég að fara til Barcelona í vor.
Ég verð sprengt uppí loft af illgjörnum hryðjuverkamönnum.