mánudagur, febrúar 14, 2005

Valentínus

Skólavinkona mín sagði mér að það væri dagur elskenda í dag. Ég vorkenni öllu fólki sem gerði eitthvað sérstakt í tilefni dagsins, oj.

Mér varð hugsað til þess tíma þegar ég bjó í Bandaríkjunum fyrir ca 14 árum. Ég og strákur sem ég sá stundum þegar ég fór í heimsókn til vinarfólks míns tókum þá ákvörðun að vera kærustupar eftir að hann sagði mér að honum fyndist ég sæt. Hann vildi samt ekki heilsa mér í frímínútum í skólanum, enda ég útlendingur með hreim og ekki í sömu klíku og hann, það hefði orðið honum að bana félagslega að sjást eitthvað hanga utan í mér. Hann nikkaði til mín stundum, sem mér fannst alveg nóg. Ég fór ekki fram á meira frá foringja klíkunnar og einum mesta töffara skólans. En á Valentínusardag kom hann heim til mín(sem hafði aldrei gerst áður) með gel í hárinu og hjartalagaðan konfektkassa, á kortinu sem hann lét fylgja með stóð á; Love You, Yours Forever Gabríel. Ég varð fyrir smá menningarsjokki og roðnaði og sagði, með hreim, að ég hefði gleymd að kaupa konfekt fyrir hann. Í stað þess að brosa og segja að það væri sko allt í lagi að því að ég væri svo sæt, varð hann fúll. Hann var ekki til í að segja hæ við mig í skólanum en upplifði höfnun þegar ég var ekki með eitthvað nammi fyrir hann. Ég veit, kannski hefði ég átt að kynna mér hefðir þjóðarinnar betur og kaupa súkkulaði, þá kannski væri ég frú Carcía í dag og hann farinn að segja hæ.