laugardagur, ágúst 27, 2005

Haust.

Ég er svona kona sem þrífst illa í óreglu. Óregla virðist oft leita mig uppi, en mér líkar hún ekki. Það er hægt að líkja óreglunni við gamla vinkonu. Stelpu sem ég hékk rosa mikið með á mínum yngri árum. Þrátt fyrir að við höfum þroskast í sitthvora áttina, og mér finnist hún ekkert skemmtileg lengur, þá heldur hún samt áfram að koma af og til í heimsókn.

Núna eru bjartir tímar framundan, það er komið haust. Dóttir mín er byrjuð aftur í skólanum, við farnar að vakna klukkan sjö, ég farin að hlaupa aftur og aðrir hlutir komnir í fastar skorður. Skólinn minn fer líka að hefjast bráðlega. Það verður nóg að gera í vetur, sem er gott. Ég hafði áhyggjur af því í smá tíma að ég myndi ekki hafa nóg að gera í vetur, sem hefði þýtt að ég hefði þurft að takmarka búðarferðir mínar við eina verslun, Bónus. En nú lítur þetta allt betur út. Ég hef fengið nóg að gera uppí Háskóla, bæði við aðstoðarkennslu og að aðstoða við mjög svo spennandi afbrotafræði rannsókn. Þannig að kannski ég geti heimsótt Nonnabúð af og til í vetur, og haldið áfram að klæða mig eins og unglingur í uppreisn.