laugardagur, febrúar 11, 2006

Create a vision

Eini sinni fyrir langa löngu var ég að vinna með manni með stórar fætur. Þessi maður sagði oft við mig; “Magga það eru ekki til nein vandamál, engin vandræði, bara verkefni. Við þurfum bara svo að finna lausnir á þessum verkefnum”. Þessi maður var gangandi sjálfshjálpar bæklingur. Hann sagði líka einu sinni; “Magga, ef að þú ert með annan fótinn í fortíðinni og hin í framtíðinni þá pissar þú á nútíðina”. Svo var hann líka alltaf að tala um að setja sér markmið og annað slíkt. Stundum fannst mér hann mikill viskubrunnur, stundum fannst mér hann bara kjánalegur og stundum botnaði ég ekkert í honum. En allavega þá er ástæða fyrir því að mér varð hugsað til hans.

Málið er að ég er í miklum vandræðum, svo miklum vandræðum að ég geng um gólf og er búin að borða heilan poka af gulrótum. Þegar ég var að hugsa hversu stórt og erfitt þetta mál er þá spurði ég sjálfa mig; hvað myndi Stórfótur gera? Ég hreinlega veit það ekki, og veit ekkert hvað hann er að gera í dag. Málið er að ég er búin að leita um alla íbúð og finn hvergi dagbókina mína. Þetta er ekki svona dagbók þar sem að ég skrifa niður hvernig mér líður eða hvern ég hitti í dag eða neitt svoleiðis, enda væri það of sóðalegt fyrir minn smekk. Þetta er svona venjuleg dagbók þar sem ég skrifa niður öll þau verkefni sem að ég þarf að leysa, og tímasetningar á öllum þeim fundum sem ég þarf að mæta á. Núna hreinlega veit ég ekkert hvað ég á að gera, ég man óljóst að ég á pantaðan tíma hjá tannlækni í næstu viku. Það gæti verið á mánudag en gæti líka verið á miðvikudaginn. Þetta er agalegt, en ég veit að Stórfótur myndi segja mér að þetta væri bara alls ekkert agalegt, heldur bara allt í lagi og mæla svo með því að ég fengi mér smá hvítvín til að slaka betur á. Ég ætla ekki að fá mér hvítvín í dag. Kannski að einhver finni hana og komi henni til skila. Hún er svört, nafnið mitt stendur framan á henni, og í dálknum undir 4. febrúar stendur; Verkefni dagsins; hætta að reykja.