mánudagur, febrúar 06, 2006

Kæra dagbók,

Í dag vaknaði ég klukkan 07:15 eins og alla aðra morgna. Ég og dóttir mín fengum okkur morgunverð, hún ristað brauð og ég fuglafóður og kaffi. Eftir að hafa kysst dóttur mína bless og sent hana í skólabílinn las ég fréttablaðið og drakk meira kaffi. Ekki mikið nýtt að frétta í dag. Eftir að hafa unnið í nokkra klukkutíma setti ég æfingafötin í íþróttatöskuna og hélt af stað... Æji ég er bara að djóka. Glætan að ég ætli að fara að lýsa deginum hér eins og einhver fáviti. Ég er eitthvað pínu pirruð í skapi, ég ímynda mér að það sé vegna þeirra óþæginda sem að myndast í líkamanum þegar hann fær ekki allt í einu nikótín, eða kannski er það vegna þess að ég er ekki eins rík, falleg eða vel gefin eins og mig langar að vera. Ég veit að ég væri ekkert hamingjusamari þótt að ég væri ríkari eða fallegri, en ég gæti þá alla vega gert grín af ykkur hinum öllum og liðið vel með það.

Já, ég held að ég hafi ekkert meira um þetta að segja.