Ég átti erindi í Kringluna í dag. Já það er nú einmitt þannig að ég fer ekki í Kringluna nema að eiga þangað erindi. Ég vil ekki nefna nein nöfn hér en ég á vinkonur sem að dettur bara í hug að skella sér í Kringluna, bara til að skoða og kannski flippa pínu. Ég vil ekkert sérstaklega vera að dæma Kringluflipp annarra, en sjálf mun ég ekki taka þátt í því. Kringlan er reyndar skárri en Smáralindin. Ég er nokkuð viss um að það séu vondir andar í Smáralindinni, að minnsta kosti líður mér alltaf jafn undarlega þegar að ég er þar. Stundum svimar mér, eða á erfitt með andardrátt en yfirleitt verður mér þó bara pínu bumbult.
Allavega, í gær heyrði ég Kringlutónlistina, þessa sem að er spiluð í hátalarakerfi Kringlunnar á hverjum degi. Ég veit ekki hver gerði þennan safndisk, enda er það ekki megin atriði í þessari frásögn. Lögin sem að ég heyrði voru öll eitís ástarlög, eða reyndar eitís ástarsorgarlög. Hér má nefna sem dæmi; Suddenly, “live has no meaning to me” með Billy Ocean held ég, Heartache með Bonnie Tyler og fleiri af svipuðum toga. Þessi tónlist vakti upp gamlar minningar hjá mér, minningar af mér sem táning í ástarsorg.
Mér er það sérstaklega í minni þegar að ég horfði sorgmætt ofan í matardiskinn minn með kökkinn í hálsinum og sagði mömmu að ég gæti ekki borðað, að líklega gæti ég aldrei aftur borðað. Mamma reyndi að hugga mig og segja mér að þetta væri nú bara hvolpaást og að ég yrði örugglega búin að gleyma honum áður en skólaárinu myndi ljúka. Ég sagði ekkert en hugsaði með mér hvað það væri erfitt að eiga mömmu sem að skildi námkvæmlega ekkert. Ég man ekki hvort að ég var 12 eða 13, en ég man hvað ég var ástfangin, skrítið ég get engan vegin munað hvað gaurinn heitir og ekki heldur hvernig hann leit út. Ég man samt að hann var oft í blárri peysu. Ég sem sagt frétti í gegnum vinkonu mína sem að hafði frétt í gegnum vin sinn að strákurinn í bláu peysunni hefði kysst einhverja stelpu útí sjoppu. Ég hafði aldrei sagt honum að ég væri ástfangin af honum en ég hafði valið hann fyrstan í mitt lið þegar að við vorum í fótbolta í frímínútum. Það eitt hefði átt að segja allt sem segja þurfti því hann var ekkert spes í fótbolta. Þegar að strákurinn í bláu peysunni hafði brotið hjarta mitt lág ég uppí rúmi og hlustaði á ástarlög og grét, ég hlustaði á Love Hurts með Nazareth, og hugsaði; nákvæmlega! Ég hugsaði líka um það hvað mamma myndi segja þegar að ég kæmi í heimsókn til hennar eftir 20 ár, enn með kökkinn í hálsinum, þá myndi ég segja; hvolpa ást? Ég hugsaði líka um það hvað ég myndi segja við strákinn í bláu peysunni þegar að hann kæmi til mín grátandi. Auðvitað myndi hann gráta þegar að hann væri búinn að fatta hvað ég er rosalega og mest meiriháttar af öllum í heiminum og líka alveg sérstaklega einstök og að hann yrði aldrei hamningjusamur með annarri stelpu, en það væri of seint, af því að hann hefði gert hræðilegustu mistök sem að nokkur lifandi manneskja hefði gert. Ég myndi svo segja við hann; nei kallinn minn, hvað, viltu ekki bara fara út í sjoppu að kyssa einhverja stelpu, einhverja ljóta stelpu sem að er svo rosalega vitlaus að allir fara að hlæja þegar að hún segir eitthvað upphátt, og sem að er líka með hræðilegan smitsjúkdóm sem að allir sem fá deyja á kvalarfullan hátt, farðu að kysstu hana.
Í dag hef ég jafnað mig á stráknum í bláu peysunni. Ég reyndar jafnaði mig á stráknum í bláu peysunni bara daginn eftir, en þessi eina nótt var, held ég, sú versta sem að ég hef upplifað, eða mig minnir það. Núna er ég ástfangin af öðrum manni. Ég myndi velja hann fyrstan í mitt lið þó að hann myndi ekki einu sinni kunna reglurnar, já eða bara að segja honum það, en þó helst ekki upphátt, bara svona í hljóði.