þriðjudagur, júlí 27, 2004

Strákar

Ég ætla að láta þann orðróm berast að ég sé mjög lauslát og sjá hvort að fólk byrji þá að tala öðruvísi við mig. Þetta er rannsóknarvinna.
Annars er búið að vera fínt í vinnunni í dag, Auja samt með eitthvað vesen útaf nýja saumaklúbbnum. Ég hefði svo sem getað sagt mér þetta, og gerði reyndar. Sko í gær hringdi ég strax í Möggu Steingríms því hún er svo skemmtileg og saumaklúbbsleg. Við settum á blað skemmtilegust stelpur sem okkur datt í hug, þetta verður ekkert smá gaman.


Saumaklúbburinn.

Sko, samstarfskona mín heitir Auja. Hún er ekki yfirmaður minn þrátt fyrir að hún sé alltaf eitthvað að reyna að stjórna öllu. Hún er líka yngri en ég, og þess vegna fékk hún lægri laun síðast sem mér fannst áhugavert.  Hún er góð stelpa og allt það, en hún er alltaf eitthvað að monta sig af saumaklúbbnum sínum. Hvað þær séu skemmtilegar og svona, og að þær séu að búa til góða braurétti og svona. Þær sem eru í þessum saumaklúbb eru Barbara, Sigrún Sif, Allý, Beta, Hrefna, Begga rauð, Sara (held ég) og ég held ekki fleiri. Allavega þá er þeirra kjánalegi saumaklúbbur þannig að áður en nýrri er boðið með þarf að koma umsókn sem er síðan farið sérstaklega yfir. Í staðin fyrir að sækja um inngöngu og eiga það á hættu að vera hafnað þá hef ég ákveðið að gera annað sem er miklu betra og það er að stofna minn eigin. Í honum verða svo rosalega skemmtilegar stelpur að allar hinar eiga eftir að vilja skipta. Þær eiga eftir að gráta í mér, einhver þeirra á eftir að verða það örvætingafull að hún mun fara að reyna að hóta mér einhverju fáránlega asnalegu. Ég mun þá horfa á hana, án þess þó að horfa og segja;  "ég skal alveg leggja þetta fyrir í næsta klúbbi, og jafnvel reyna að hafa einhver áhrif, en auðvitað get ég engu lofað". Ég er svo glöð að mér datt þetta í hug.




María Rós

Dótti mín heitir María Rós og er yndislegasta barn sem ég hef kynnst. Hún er í ferðalagi með pabba sínum. Hún hringdi í mig í morgun til að segja mér að hún hafi misst sína fyrstu tönn í morgun, og hún vildi fá að vita hvað ég héldi að tannálfurinn myndi gefa henni. Hún man að bróðir hennar fékk fullt af peningum, dollurum (við vorum í útlöndum þá) þegar hann missti tönn. Hún var eitthvað að spá í hvort hún fengi venjulega peninga eða dollara líka. Svo sagði hún mér að hún hlakkaði til að koma heim til mín, að hún saknaði mín og elskar mig. Ég er svo hamingjusöm mamma. Við erum svo góðar vinkonur núna, þá þarf ég ekkert annað.

sunnudagur, júlí 25, 2004

Dagur 1.

Ég er pínulítið feimin. Eða sko, þetta er dagur eitt i þessari dagbók. Einhverntíman lýsti ég því yfir að mér fynntist hégómlegt af fólki að blogga. Málið var kannski frekar að ég vildi ekki gera það því þá gæti einhver tekið eftir því að ég geri stundum stafsetningavillur. Þú veist, hópur af fólki útí bæ að hlæja af stafsetningavillunum mínum, ömurlegt. Talandi um hégóma.