fimmtudagur, mars 30, 2006

Ömurlegt blogg en ágætis líf samt.

Ég er alveg hreint ömurlegur bloggari.

Ef einhver vill mótmæla, og segja til dæmis; nei Magga þú ert frábær, þá er hægt að gera það í komment.

miðvikudagur, mars 22, 2006

Djöfullinn festir klær sínar í fallega fólkið.

Já enn og aftur er það staðfest að fíkniefnadjöfullinn sýnir enga miskun. Mikið er það sorglegt að svona fallegur og prúður drengur, eins og fyrrverandi Hr. Ísland er, hafi orðið fórnarlamb djöfulsins.

þriðjudagur, mars 14, 2006

Kynþokkafulla þulan

Það ætti nú varla að hafa farið framhjá nokkrum manni sem að horfir á Ríkissjónvarpið að hjá þeim er starfandi þula með mjög svo kynþokkafulla rödd. Ég hef nú stundum kveikt á sjónvarpinu án þess að vera beint að horfa á það, kannski að bíða eftir fréttum eða einhverju óvæntum spennandi þætti, og það bara bregst ekki að þegar þulan byrjar að þylja upp dagskránna þá verð ég bara að hætta að gera það sem ég er að gera. Ég get ekki vaskað upp, eldað kvöldmat eða sett á mig maska þegar ég heyri þessa rödd. Ég verð að stoppa og hlusta. Ég veit samt aldrei hvað er á dagskrá því ég er bara að hlusta á það hvernig konan beitir röddinni. Þrátt fyrir að ég hafi lesið um það í bókum að einhver hafi sagt eitthvað með sinni seiðandi rödd þá hafði ég aldrei í raun vitað nákvæmlega hvernig seiðandi rödd hljómaði áður en ég heyrði í seiðandi þulunni. Ég velti því stundum fyrir mér hvort að hún væri búin að æfa sig mikið, eða hvort að hún hefði fengið einhverja sérstaka þjálfun í seiðingi. Það skemmtilegasta sem að gerðist í mínu lífi í dag var að ég hitti þessa seiðandi þulu. Eða ég kannski ekki beint hitti hana, eins og að hitta einhvern í kaffi, ég meira svona bara stóð við hliðin á henni í búningsklefanum í ræktinni. Í búningsklefanum var önnur sjónvarpskona, þær þekkjast víst allar, sem seiðandi þulan fór að spjalla við. Seiðandi þulan talar svona í alvöru, ALLTAF. Eða allavega í sjónvarpinu og í ræktinni. Þetta finnst mér stórmerkilegt.

mánudagur, mars 13, 2006

Yndislega yndislegt

Já það er nú bara aldeilis fínt að vera til, ef ég á að segja alveg eins og er. Ég upplifði svo fallegan og skemmtilegan dag í gær að það er frekar erfitt að ætla að vera eitthvað súr í dag. Enda er það ekkert smart. Konur á mínum aldri eiga að reyna að vera svolítið glaðar, annars fáum við bara hrukkur. Hvað er verra en hrukkur? Alls ekki neitt. Gærdeginum eyddi ég með mikið af yndislegu og fallegu fólki. Nú hljóma ég eins og Bergþóra vinkona mín, hún er einmitt yndisleg og það sem betra er að henni finnst svo margt yndislegt. Hún er kannski betur tengt svona tilfinningalega heldur en ég. Ég roðna ennþá þegar ég tala um hvað fólk sé yndislegt og fallegt. Ég á aðra yndislega og fallega vinkona sem heitir Gunný. Hún er í sérstöku uppáhaldi hjá mér í dag vegna þess að í gær lánaði hún mér húsið sitt svo ég gæti haldið almennilegt brunch partý og boðið öllu yndislega og fallega fólkinu sem að ég þekki. Sem ég gerði, og það var alveg hreint yndislegt. Yndislega fólkið mætti á svæðið í gær og borðaði með mér yndislegar veitingar, sem var alveg hreint yndislegt. Þessi yndislegi sunnudagur endaði svo alveg hreint yndislega. Æji, eru þessi yndislegu skrif ekki bara orðin púkó? Kannski ef ég held aðeins áfram og geng alveg yfir strikið nær þetta að verða spaugilegt, og hvað er yndislegra en að fá einhvern til að brosa? Í gærkvöldi bauð yndislegasti og fallegasti maður sem ég þekki mér á alveg hreint yndislega tónleika. Við fórum á Nasa og hlustuðum á band sem að heitir The Bad Plus sem er yndislegt jazzband sem spilar mjög svo yndislega tónlist, alveg hreint mjög svo smart og yndislegir tónleikar. Já dagurinn í gær var svo sannarlega yndislegur.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Nýjustu fréttir af mér

Í dag er sko alls ekki sjón að sjá mig. Eða þannig. Ég er í raun að vara alla við sem eiga eftir að þurfa að líta mig augum næstu daga.

Málið er það að fyrir tæplega ári síðan fékk ég þá hugmynd að lita á mér hárið í fyrsta sinn, þá hafði ég aldrei prófað neitt slíkt. Ég er náttúruleg ljóska og litaði á mér hárið svart. Það var bara fínt. En núna hafði ég fengið nóg af því að vera alltaf að lita það á þriggja vikna fresti, sem ég þurfti að gera af því að ég er með svo ljósa rót. Ég fór því til hárgreiðslu stráksins og bað um hvítt hár. Hann sagði að þetta væri nú eiginlega ekki hægt þar sem að ég væri undanfarið búin að vera að nota svona apótekaralit. Hann reyndir því að fá mig til þess að vilja að verða brúnhærð eða jafnvel rauðhærða, en það fannst mér fáranleg hugmynd. Þannig að hann aflitaði mig tvisvar og setti svo ljós hvítan lit í hárið á mér. Núna er ég ekki ljóshærð heldur gul-appelsínuhærð, sem er bara flippað. Hann getur kannski lagað þetta eftir sjö til tíu daga. Ég keypti mér derhúfu og ullarhúfu í dag.

Eins gott hvað ég er rosa hress og skemmtileg því ekki er ég neitt sérstaklega sæt svona orange.

laugardagur, mars 04, 2006

Tilgangur lífsins; svar.

Það er mitt mat að það sé tímabært að færa ykkur svarið. Þetta er auðvitað hið eina rétta svar.

Sannleikurinn er sá að það er enginn einn algildur tilgangur með þessu lífi. Nú gæti einhver spurt; er líf mitt þá tilgangslaust? Nei auðvitað ekki, ekki nema að þú veljir það sjálf/ur. Tilgangurinn í mínu lífi þarf ekki að endurspegla eða eiga neitt sameiginlegt með tilganginum í lífi næstu manneskju. Við þurfum ekki að fara á hugleiðslu námskeið, lesa heimsspekibækur, tala við andlega sinnað fólk eða annað slíkt. Það eina sem að við þurfum að gera er að taka ákvörðun, við þurfum sjálf að ákveða hver tilgangurinn í okkar lífi er. Það sem að er ennþá skemmtilegra er að við getum skipt um skoðun hvenær sem er. Tilgangurinn í lífi mínu í gær var allt annar en hann er í dag. Þannig að það eru margir tilgangar ekki bara tilgangur.

Þannig að það má eignlega segja að þrátt fyrir að engin lesandi bloggsíðu minnar hafi komið með rétt svar þá hafi í raun allir samt komið með rétt svar.

Þegar ég, í komment svörum mínum, sagði að ykkar ágiskanir væru ekki réttar var það auðvitað ekki í samræmi við þetta svar mitt. En það er góð og gild ástæða fyrir því, ég vildi að þið mynduð leita innávið og reyna að finna ykkar tilgang. Þannig að ykkar svör eru auðvitað öll fullkomlega rétt, fyrir ykkur.

Varðandi veglegu verðlaunin, þá eru þau einfaldlega sú að tilgangur lífs míns í dag er að vera góð við þá sem að verða á vegi mínum. Það eru bestu verðlaun sem að ég get veitt ykkur, öllum í alheiminum. Ef að einhverjum lesanda finnst þetta púkaleg verðlaun og vill eitthvað í formi einhvers hlutlægs þá segi ég bara við þann einstakling; æji þegiðu!

Mér þykir leiðinlegt að þurfa að vera sú sem að segir ykkur það að það er enginn að koma til þess að bjarga ykkur, þið verðið að gera það sjálf.

Ykkar að eilífu,
Margrét

miðvikudagur, mars 01, 2006

Hver er tilgangur lífsins?

Vegleg verðlaun í boði fyrir rétt svar.