þriðjudagur, júní 28, 2005

Hér og nú..

Ja hérna hér, eru það nú lætin.
Fólk alveg brjálað yfir fréttaflutning Hér og nú og DV hvað varðar Bubba. Það eina sem gildir er að versla ekki blöðin, ekkert annað skiptir neinu máli, jú auðvitað að versla ekki auglýsingu í blöðin.
Mér finnst algerlega út í hött að hlusta á fólk sem hefur tekið þátt í þessu með því að kaupa blöðin og jafnvel veita þeim viðtal lýsa því núna yfir hversu mikil sorprit þetta séu og hneikslast eitthvað yfir því að blaðamennirnir fari yfir strikið. Þessir blaðamenn, Eiríkur Jónsson t.d., hefur alltaf farið yfir strikið. Það er ekkert nýtt að gerast í dag. Það verða ekki gerðar neina breytingar á meðan að fólk heldur áfram að kaupa þessi blöð. Ef að þú kaupir t.d. Dv og finnst fréttaflutningur blaðsins í lagi þá fínt, ég nenni bara ekki að hlusta á ykkur kvarta sem kaupið þetta. Og auðvitað er fullt af fólki sem gerir það.

fimmtudagur, júní 23, 2005

Auja

Ég sá hana Auju vinkonu mína í sjónvarpinu í fyrradag. Hún var að greina frá rannsókn sem hún var að vinna fyrir Ríkislögreglustjóra. Hluti af hennar mastersritgerð. Í dag má eiginlega segja að Auja sé sérfræðingur hvað varðar rán á Íslandi. Ef ég þekki Auju rétt þá var hún reyndar mikið inní ránum áður en hún byrjaði á þessari rannsókn. Mér finnst mikið til hennar Auðbjargar koma núna, finnst hún aðeins meiri kona í dag. Þið sem hafið áhuga á að fræðast um rán, aðferðir og réttlætingar, getið lesið rannsóknina hennar Auju á vef Ríkislögreglustjóra http://www.logreglan.is/displayer.asp?cat_id=952. Ég hjó eftir því þegar Auja var að segja frá niðurstöðum sínum að, þegar hún sagði frá því að stór hluti af þeim sem hún hafði tekið viðtal við höfðu aðeins notað það sem afsökun að þeir hefðu verið hræddir við handrukkara og þess vegna framið rán, hún hefði aðeins talað við 13 ræningja og þessar niðurstöður ættu við þetta úrtak en að hún gæti ekkert alhæft yfir á alla ræningja útfrá þessu úrtaki. Íslenskir fræðimenn og annað fólk sem er að skýra frá niðurstöðum rannsókna sinna í fjölmiðlum ættu að taka Auju til fyrirmyndar.

þriðjudagur, júní 21, 2005

Konur fá kosningarétt.

Til hamingju með 19. júní konur og karlar. Ég er ennþá femínisti.
Sá viðtal við tvær hressar í Ísland í dag í gær. Sigríður lögfræðingur talaði um það væri nær engin (ca 6%, er þó hærri skv. flestum rannsóknum) kynbundin launamunur á Íslandi þegar búið er að leiðrétta fyrir hitt og þetta. Mér finnst súrt þegar fólk fattar ekki að launamunur er raunverulegur þegar hann er án þess að leiðrétt sé fyrir hitt og þetta. Þegar ekki er búið að leiðrétta fyrir “hitt og þetta” þá eru konur sem eru meirihluti Íslendinga með 60% af þeim launum sem karlar eru með. Það er einmitt málið af hverju þarf að leiðrétta fyrir vinnutíma, fyrir tegund starfa og fleira. Af hverju eru konur frekar í hlutastarfi, af hverju vinna karlar frekar yfirvinnu og af hverju eru þau störf sem karlar kjósa frekar að starfa við talin skipta meira máli en þau störf sem konur velja frekar? Hljóta þau ekki að teljast mikilvægari þegar þau eru betur launuð? Ég veit að ég er ekki að spyrja af nýjum spurningum, eða að koma með neitt nýtt inní þessa umræðu. Bara aðeins að láta í ljós gremju mína á allri þessari umræðu um leiðrétt hitt og þetta.
Í nánast öllum rannsóknum er hægt að leiðrétta fyrir svo mikið að nánast allur tölfræðilegur munur á tveimur hópum hverfur.
Eitt dæmi er afbrotatíðni á milli ríkja í Bandaríkjunum, sem er umtalsverður. Ef ég geri rannsókn og fæ út mikinn mun á tíðni á milli Californiu og Utah en leiðrétti svo fyrir fjölda fólks, tekjum, menntun, hlutfalls fólks af sama litarhætti, fjölda einstæðra foreldra, veðurfari, fjölda þeirra sem fara í kirkju og fjölda lögregluþjóna þá kemur út að það er alls engin tölfræðilegur munur á tíðni afbrota. Get ég þá fullyrt að það sé engin raunverulegur munur á afbrotatíðni í Californiu og Utah, og þess vegna ekkert hættulegra að vera einn á ferli í Californiu?

Gufur og fleira.

Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifin af því að fara í gufu. Mér hefur í raun ekki þótt það að sitja inní alltof heitum klefa eitthvað sérstaklega eftirsóknarvert, og hef aldrei fyllilega skilið þetta dæmi. Ég hef ekki haft heldur neina sérstaka trú á því að þetta geri mikið fyrir húð eða önnur líffæri. En nú hef ég séð ljósið, eða eitthvað svoleiðis.

Á síðastliðinn laugardag fór ég með Möggu H. í nudd í Laugum, við vorum að lyfta okkur upp. Eftir nuddið fórum við í þetta marg umrædda Spa og eyddum þar alveg þó nokkrum tíma. Þarna er hægt að fara í heitan nudd pott, prófa mis heitar gufur með allskonar ilmum, liggja í hægindastól við arineld og fá sér gott að borða í leiðinni. Fyrir þá sem vilja er líka hægt að fá sér hvítvín með í pottinn, við Magga fundum þó ekkert hvítvín sem var nógu þurrt fyrir okkar smekk og létum við það því vera. Þetta var virkilega notalegt allt saman og við höfum yngst um allavega tíu ár og erum varla þekkjanlegar lengur. Ég mæli því alveg hiklaust með þessu. Mér skilst að ríka og fína fólkið lyfti sér svona upp nær daglega. Ég vildi að ég væri rík og fín.

Fyrir utan öll þæginlegheitin hittum við líka hot gaura. Já eða þannig. Þetta voru svona hot gaurar sem voru einmitt að drekka hvítvín með sólgleraugu í pottinum. Mjög smart. Einn af þessum gaurum spurði hvort að ég væri ekki örugglega Magga. Fyrst hélt ég að ég væri kannski frægari en ég gerði mér grein fyrir. En svo er ekki. Hot gaurinn sagði mér að hann hefði verið ástfanginn af mér fyrir átta árum. Ég náði að rifja upp hver gaurinn er, fyrir átta árum fannst mér hann furðulegur gaur með störu. Núna er hann ekkert furðulegur. Núna er hann leikari sem býr í London og kemur í heimsókn til Íslands og fer þá í Spa og fær sér hvítvín. Ég reyndi eins og ég gat að gefa í skyn að ég væri alveg eins flippuð og hress og ég var fyrir átta árum, ég held að hann hafi ekki náð því. Held að honum hafi bara fundist ég vera orðin kelling. Hann ætti að sjá mig í dag með húð sem lítur ekki út fyrir að vera deginum eldri en 22 ára.

fimmtudagur, júní 16, 2005

Nýtt hár, sama sál.

Á mánudaginn síðasta lét ég í fyrsta skipti lita á mér hárið. Ég er núna með svart hár. Ég minni helst á Elvis Presley sem er gott, Elvis þótti kynþokkafullur og þykir það reyndar enn. Ég velti því fyrir mér í 30 sek. í dag hvort að ég ætti ekki að ganga lengra og láta breyta aðeins nefinu á mér. En svo varð mér hugsað til Rutar og hætti að spá í því.

Ég er í mjög áhugaverðu og skemmtilegu starfi núnu. Ég er að vinna með stúlku sem er að klára sálfræði í Háskólanum. Hún er bæði góð og skemmtileg. Þetta er í raun mikil tilbreyting frá því að starfa með Auðbjörgu allt síðasta sumar, því þrátt fyrir að Auja sé skemmtileg getur hún verið mjög svo taugatrekkjandi. Ég er á styrk frá Nýsköpunarsjóði við að hanna heimasíðu. Við Edda erum með aðstöðu í Pósthússtræti sem er frekar frábært.

Á morgun er 17. júní og við vinkonu hópurinn ætlum að hittast niðrí bæ, kaupa okkur Candyflos og lúður og fara svo í skrúðgöngu. Ég hlakka til og vona að ég eigi eftir að kynnast nýju spennandi fólki. Svo fer ég líka í brúðkaup á morgun. Ég ætla að reyna að fara ekki að gráta.

Á sunnudaginn ætla ég ásamt Möggu H. og fleiri konum á Þingvöll að fagna Kvennadeginum.

Í dag heyrði ég mann opna hjarta sitt og segja frá reynslu sinni, hann sagðist alltaf hafa verið að reyna að flýja sjálfan sig með því að flytja, skipta um kærustu, kaupa sér ný föt og láta lita á sér hárið. Greyið, ég fann til með gaurnum. Hann hlýtur að hafa lifað hræðilegu lífi.

föstudagur, júní 10, 2005

Stór dagur.

Til hamingju með daginn!
Í dag er félagið okkar Aftur til Afríku eða AA 70 ára.

Sígarettufíkn.

Mér finnst sígarettufíkn frekar merkilegt fyrirbæri. Núna er ég hætt að reykja. Löngu áður en ég hætti fannst mér ógeðslegt að reykja. Það voru fullt fullt af góðum og gildum ástæðum fyrir því að ég hætti að reykja, en ég man bara ekki hverjar þær voru ákúrat núna. Ég ætla samt ekkert að fara út að leita af stubbum. Ég hef hætt að reykja svo rosalega oft að ég ætti að vera orðin frekar showuð í þessu. Mér finnst alltaf pínu fyndið þegar fólk er að gefa mér ráð hvernig sé best að hætta að reykja. Ég veit samt að fólk vill bara vel, og sjálf gef ég öðrum ráð.

mánudagur, júní 06, 2005

Sumar.

Nú er ég heldur betur komin í sumarskapið. Já þýðir ekkert annað! Ég er búin að kaupa mér sumarbuxur, sumarskó, sumarjakka og sumarhatt. Svo auðvitað stuttbuxur og bleikan varalit. Svo brosi ég eins og fífl alla daga og bið fólk endalaust um að koma með mér í laugarnar.

laugardagur, júní 04, 2005

...

Ég er ekki dáin, bara upptekin.