sunnudagur, júlí 31, 2005

Bjútí bolla.

Gleðilega Verslunarmannahelgi.
Ég er að hugsa um að skella mér niðrí bæ á sopafyllerí.

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Mars og Venus

Ég rétt náði að bjarga tæplega ellefu ára dreng í gær frá því að eyða lífi sínu í villu, í karlrembu. Hann var að spjalla við mig, eins og hann gerir stundum, þegar hann sagði við mig að honum finnist skrítið að mamma hans myndi sjá bletti á buxunum sínum sem hann sjálfur sér aldrei. Hann sagði mér að pabbi sinn myndi heldur aldrei sjá þessa bletti, þannig að hann væri viss um að þetta væri þannig að konur myndu frekar sjá bletti á buxum frekar en karlar og þess vegna væru konur alltaf að þvo þvott. Ég sagði við hann að þetta þyrftum við að ræða betur. Ég útskýrði fyrir honum að vissulega væru sumar konur með betri sjón en sumir karlar. Svo útskýrði ég fyrir honum að það væri ekki líffræðilegur munur á sjón karla og kvenna, að ég t.d., sem er kona, myndi ekki sjá neina bletti á buxunum hans og ég myndi þvo þvott svona í mesta lagi tvisvar í viku. Þegar við vorum búin að ræða þetta í pínu stund þá sagði hann “frábært þá get ég alltaf komið í skítugum buxum til þín”. Ég spurði hann af hverju hann héldi að buxurnar hans væru skítugar þegar sæi enga bletti og hann útskýrði að auðvitað sæi hann bletti en honum væri bara alveg sama, og pabba hans líka. Hann hafði bara heyrt talað um það að konur myndu frekar sjá bletti á buxum en karlar, einmitt (þetta heitir félagsmótun). Ég var fljót að segja honum að mér væri í raun líka alveg sama þrátt fyrir að það væri einn og einn blettur á buxunum hans, og að þetta hefði í raun ekkert að gera með það hvort að maður væri karl eða kona að fólk væri bara svo misjafnt.

Ok, ég efast um að karlremba sé rétta orðið á því sem ég er að lýsa hér að ofan. Ég er ekki með íslenska orðabók við höndina.

Ef að við trúum því að það sé konum líffræðilega frekar eðlislægt að sjá um þrifin inná heimilinu, af hverju ættu þá konur ekki frekar að sjá um heimilisþrifin? Ef að kona vinnur meira inná heimilinu(ólaunað starf) af hverju ættu þá konur ekki frekar að vera í hlutastarfi? Ef að konur eru frekar í hlutastarfi þá er ólíklegra að þær verði gerðar að forstjóra fyrirtækisins sem að þær vinna hjá.

Konur og karlar eru jafn hæf eða óhæf til þess að sinna heimilisverkum, þrifnaðarstig þeirra er einnig misjafnt, fer eftir persónunni en ekki kyninu. Þegar ég flutti fyrst að heiman kunni ég ekkert á þvottavél, ég hafði aldrei þurft að þvo þvott. Ég hef eyðilagt margar fallegar flíkur með því að þvo þær á vitlausu hitastigi, með því að blanda hvítum þvotti með lituðum o.s.fr. En með tímanum hef ég lært, enda ágætis leiðbeiningar með öllum þvottavélum sem ég hef keypt. Ég hef mikla trú á karlkyninu og tel að þeir séu jafn hæfir og ég til þess að læra að þvo þvott. Ég hef líka mikla trú á kvenkyninu og tel að þær geti orðið frábærir verkfræðingar.

Um daginn var ég að spjalla við þrjár ágætis vinkonur mínar um bíómyndir, ég hef frekar ólíkan smekk á kvikmyndum en þær. Eitt dæmi þá finnst mér Reservoir Dogs frábær mynd en þeim finnst hún frekar ömurleg. Ein af þessum ágætu vinkonum mínum sagði að ég væri með strákasmekk á bíómyndum, henni finnst hugljúfar myndir eins og Titanic skemmtilegar en mér ekki. Hún sagði að ég væri svona strákastelpa, en var alls ekkert að reyna að móðga mig. Ég er alls engin strákastelpa, ég er stelpustelpa. Ég hef líka heyrt þetta varðandi val mitt á tónlist, þ.a.s. að ég sé með strákasmekk. En málið er að við erum öll svo ólík, með ólíkan smekk á hinu og þessu, minn smekkur er ekkert endilega betri en hennar bara öðruvísi. Mér finnst þessi vinkona mín frábær stelpa, ég bara nenni ekki með henni í bíó og fæ ekki lánaða hjá henni geisladiska.

þriðjudagur, júlí 26, 2005

Miami Vice.

Ég var að koma heim, er komin í náttföt og hlakka til að leggjast uppí rúm og fara að sofa. Ég fór í langan göngutúr um Reykjvíkurborg, sem er gott fyrir lungun og sálina. Við Magga H(in/ugrún) áttum líka ágætis samtal á meðan við gengum rólega og rösklega til skiptis. Mér þykir nefnilega gaman að vera úti á kvöldin þegar það er hlýtt í veðri. Mér þykir reyndar ekki eins skemmtilegt að vera úti á daginn þegar sólin skýn eins og hún gerði í dag.

Ég hélt í þó nokkur ár að það væri eitthvað verulegt að mér, jafnvel að það væri merki um þunglyndi á háu stigi, fyrir að finnast sólin ekkert spes. Ég á t.d. erfitt með að skilja afhverju fólk borgar fullt af peningum til þess að fljúga til Portúgals eða Costa Del Sol til þess eins að gista á lélegu hóteli, liggja á óþæginlegum sólarbekk, maka sig í sólarvörn og drekka kók. Ef tilgangurinn er að verða sólbrúnn þá eru til ágætis brúnkukrem í öllum betri apótekum. Mér finnst fínt að fara í sund, það er hollt að synda og svo er ég bara með sturtu heima þannig að mér finnst fínt að mýkja þreyttar axlir í heitu vatni í pottunum. En að fara í sund til þess að liggja bara og verða brún finnst mér bæði tilgangslaust og leiðinlegt.

Ég eyddi deginum í dag í húsdýragarðinum með dóttur minni og Nikolai(sem er bróðir hennar en ekki sonur minn(eiginl. fyrirverandi fóstursonur(hann á þó nýja fósturmömmu í dag sem er þá líka fóstumamma dóttur minnar eða reyndar meira svona stjúpmamma), og ef ég hætti að vera svona neikvæð þá eignast dóttir mín kannski nýjan fóstupabba(karlmenn falla fyrir konum í blómakjól með hlýrum og bros á vör ))(ekki halda að þessir svigar séu broskarlar(þeir finnst mér ömurlegir)). Ég reyndi eftir fremsta megni að forðast sólina en það var eiginlega ómögulegt. Þannig að núna svíður mér í andlitið og klæjar í handleggina, sem er ekkert gaman.

Það sem er reyndar jákvætt og gott við svona sólar daga er hvað allir aðrir verða glaðir, sem gerir mig glaða. Auðvitað finnst fólki gaman að fá tækifæri til þess að klæðast léttum fötum og borða ís, ég skil það alveg. Ég reyndar klæðist léttum fötum heima og borða oft ís, en kannski er það félagsskapurinn allir eitthvað saman kátir í bænum með sólgleraugu(það er nefnilega rosa ömurlegt að fá sólina í augun).

Á morgun ætla ég að láta mig hafa það og fara með dóttur minni og Nikolai í sund, því þrátt fyrir að ég sé með ofnæmi fyrir sól eru þau það ekki.

föstudagur, júlí 22, 2005

Sumar og sól.

Ég er ekkert sérstaklega dugleg að blogga. Ég hef verið frekar upptekin undanfarið við það að njóta þess að það sé sumar. Ég hef verið að gera margt sem ég hef ekki tíma til að gera á veturnar þegar ég er að einbeita mér að námi. Ég fór í Go-kart í síðustu viku sem var skemmtilegt þrátt fyrir að ég hafi tapað í keppninni sem ég fór í. Ég keyrði á rosa hraða en fólkið sem ég keppti við hægði ekki á sér í beygjum sem mér fannst frekar furðulegt. Á sunnudaginn fór ég í stelpuferð, vorum að halda uppá 10 ára afmæli Gunnýjar. Við fórum í Rafting niður Hvítá, fórum í pottin og gufuna á Laugavatni og fengum okkur svo að borða á Eyrarbakka. Þetta var frábær ferð, og við stelpurnar höfum ákeðið að gera meira af því að fara í svona ferðir. Við fórum því í spa ferð niður í Laugar á miðvikudaginn. Þrátt fyrir að það sé notalegt að borða saman amerískar pönnukökur á sunnudögum, sem við gerum alltaf reglulega, þá finnst mér nauðsynlegt að koma blóðflæðinu á einhverja hreyfingu og gera eitthvað. Ég mæli hér með River rafting, fín skemmtun.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Félagsmótun

Það eru allskonar óskrifaðar reglur í hverju samfélagi, reglur sem hafa ekkert með lögin í landinu að gera. Þegar einhver brýtur reglur samfélagsins er refsingin misþung eftir því hvert brotið er. Refsingin við því að segja ókunnugu fólki hvað þig dreymdi í nótt er t.d. skrítið augnaráð og að þegar viðkomandi manneskja(sem veit þá hvað þig dreymdi) sér þig aftur mun hún alltaf segja við samferðarfólk sitt “sjáðu þennan þarna, þú skalt passa þig á honum því hann er geðveikur”. Allavega þá er ég ekki alveg viss um hverjar reglurnar eru varðandi fullorðið fólk að versla bland í poka. Ég fór í sjoppu áðan og þar var maður á svipuðum aldri og ég á undan mér í röðinni. Þegar kom að honum sagði hann sjoppu stúlkunni að hann ætlaði að fá bland í poka fyrir 400 krónur, svo þegar stelpan byrjaði að moka í pokan varð hann rosa afskipatasamur og sagðist ekki vilja svona mikið súrt. Hann vildi meira gúmmí og pínu sterkt, og í mesta lagi eitt egg og tvær krítar.
Þegar ég fylgtist með manninum velja blandið sitt áttaði ég mig á því að mér finnst það sjúklega púkalegt af fullorðnu fólki að fá sér bland í poka í hádeginu á þriðjudegi. Er ekki örugglega einhver regla í íslensku samfélagi sem bannar svona kaup?

laugardagur, júlí 09, 2005

The soap

She: “It´s been hard”
He: “It´s been hard for me too”
She: “I want us to be together again, but it has to be away from all this”
He: “You want us to leave our jobs?”
She: “People start over every day, if it´s important”
He: “You are asking me to leave everything and everyone I know?”
She: “Yes”
He: “Alright”
Kiss kiss mmmm

Ef þetta væri ekki samtal úr sjónvarpinu þá hefði þetta farið svona;

She: “It´s been hard”
He: “It´s been hard for me too”
She: “I want us to be together again, but it has to be away from all this”
He: “You want us to leave our jobs?”
She: “People start over every day, if it´s important”
He: “You are asking me to leave everything and everyone I know?”
She: “Yes”
He: “No I can´t do that”
Ok bæ.

miðvikudagur, júlí 06, 2005

Magga Hugrún.

Magga H. á afmæli í dag. Hún er 35 ára.

Mér finnst bara gaman að eiga svona gamla vinkonu, það er svoltið flippað. Mér líður líka eins og ég, unga konan, sé að láta gott af mér leiða þegar ég hangi með gömlu fólki.

þriðjudagur, júlí 05, 2005

Músík.

Í síðustu viku sá ég Duran Duran og Leaves á tónleikum. Það var fín stemning í höllinni, fullt af gömlum hamingjusömum Duran aðdáendur komnir saman til þess að skemmta sér. Ég hlustaði aðeins á Duran Duran sem unglingur, eða þegar ég var svona 12 og 13 ára. Þegar 14 ára aldri var náð fór Duran Duran aldrei á plötuspilarann í neinum af þeim partýum sem mér var boðið í. Nei þá var hlustað á Talking Heads, The Clash, Guns ´N Roses, U2, Iron Maiden og stundum Bubba. Við vorum svo flippuð þarna uppí Breiðholti. Ég á engan geisladisk með Duran Duran lögum, og hef aldrei átt, en skemmti mér samt ágætlega og söng með lögum á borð við Girls on Film. Svo var Simon líka í svo fínum jakkafötum.

Í kvöld var svo kvöld númer tvö í Reykjavík Rocks festivalinu. Í kvöld voru Mínus, Queens of the Stone Age og Foo Fighters að spila. Þegar við Magga Hugrún mættum á svæðið var QOTSA byrjuð að spila sem mér fannst rosa súrt. En ég gat ekki verið súr mjög lengi þar sem hljómsveitin var gjörsamlega frábær. Ég smeygði mér eins framalega og ég komst og upplifði mikla sælu við að finna fyrir músíkinni, og já að sjá Josh Homme (http://www.qotsa.com/flash.html) svona nálægt var frekar geðveikt, en hann er einmitt mesti töffari sem ég hef á ævi minni séð. Hann er rauðhærður og Magga Hugrún segir að ég sé með fetish fyrir rauðhærðum gaurum. Fetish petish! Þegar Foo Fighers byrjaði mjög vel og stemningin varð frekar góð. Greinilegt að Foo Fighers áttu fleiri aðdáendur í Egilshöll, kannski að ekki eins margir þekkja QOTSA. Dave Grohl er búin að læra einhverja íslensku, hann sagði “syngið með” þegar þeir byrjuðu á Times Like These. Það er auðvitað ekkert hægt að líkja tónleikunum í kvöld saman við DD tónleikana, allt annað í gangi auðvitað. DD tónleikarnir voru bara svona einhver hressandi stemning og fullt af fólki á mínum aldri, tónleikarnir í kvöld(þar sem ég var án efa elsti tónleikagesturinn, allavega kvenkyns) voru magnaðir.

Alla vega þá fer ég hamingjusöm í rúmið í kvöld, með smá hálsríg samt. Það er frábært að fara á tónleika með góðu bandi. Nú ætla ég bara að láta mig dreyma um að Kári fari að komast í samband við Jack og Meg White. Ég væri til í að sjá White Stripes á Íslandi. Nýja White Stripes platan er yndisleg, alveg mögnuð. Hún heitir Get Behind Me Saten, ég er sérstaklega hrifin af laginu My Doorbell.

laugardagur, júlí 02, 2005

Sin City!

Blóðug, brútal og brilliant! segir í auglýsingunni. Hljómar eins og mynd fyrir mig. Ég hlakka mikið til að sjá Sin City. Robert Rodriquez leikstýrði Sin City og mér þykir hann skemmtilegur. Ég hef gaman af blóðugum og svoltið brútal myndum, svo finnst mér líka fínt ef það er hellingur af brútal erótík með. Já ég passa ekki vel inní þessa stöðluðu mynd sem fólk hefur af litlum feminískum konum.