Ég rétt náði að bjarga tæplega ellefu ára dreng í gær frá því að eyða lífi sínu í villu, í karlrembu. Hann var að spjalla við mig, eins og hann gerir stundum, þegar hann sagði við mig að honum finnist skrítið að mamma hans myndi sjá bletti á buxunum sínum sem hann sjálfur sér aldrei. Hann sagði mér að pabbi sinn myndi heldur aldrei sjá þessa bletti, þannig að hann væri viss um að þetta væri þannig að konur myndu frekar sjá bletti á buxum frekar en karlar og þess vegna væru konur alltaf að þvo þvott. Ég sagði við hann að þetta þyrftum við að ræða betur. Ég útskýrði fyrir honum að vissulega væru sumar konur með betri sjón en sumir karlar. Svo útskýrði ég fyrir honum að það væri ekki líffræðilegur munur á sjón karla og kvenna, að ég t.d., sem er kona, myndi ekki sjá neina bletti á buxunum hans og ég myndi þvo þvott svona í mesta lagi tvisvar í viku. Þegar við vorum búin að ræða þetta í pínu stund þá sagði hann “frábært þá get ég alltaf komið í skítugum buxum til þín”. Ég spurði hann af hverju hann héldi að buxurnar hans væru skítugar þegar sæi enga bletti og hann útskýrði að auðvitað sæi hann bletti en honum væri bara alveg sama, og pabba hans líka. Hann hafði bara heyrt talað um það að konur myndu frekar sjá bletti á buxum en karlar, einmitt (þetta heitir félagsmótun). Ég var fljót að segja honum að mér væri í raun líka alveg sama þrátt fyrir að það væri einn og einn blettur á buxunum hans, og að þetta hefði í raun ekkert að gera með það hvort að maður væri karl eða kona að fólk væri bara svo misjafnt.
Ok, ég efast um að karlremba sé rétta orðið á því sem ég er að lýsa hér að ofan. Ég er ekki með íslenska orðabók við höndina.
Ef að við trúum því að það sé konum líffræðilega frekar eðlislægt að sjá um þrifin inná heimilinu, af hverju ættu þá konur ekki frekar að sjá um heimilisþrifin? Ef að kona vinnur meira inná heimilinu(ólaunað starf) af hverju ættu þá konur ekki frekar að vera í hlutastarfi? Ef að konur eru frekar í hlutastarfi þá er ólíklegra að þær verði gerðar að forstjóra fyrirtækisins sem að þær vinna hjá.
Konur og karlar eru jafn hæf eða óhæf til þess að sinna heimilisverkum, þrifnaðarstig þeirra er einnig misjafnt, fer eftir persónunni en ekki kyninu. Þegar ég flutti fyrst að heiman kunni ég ekkert á þvottavél, ég hafði aldrei þurft að þvo þvott. Ég hef eyðilagt margar fallegar flíkur með því að þvo þær á vitlausu hitastigi, með því að blanda hvítum þvotti með lituðum o.s.fr. En með tímanum hef ég lært, enda ágætis leiðbeiningar með öllum þvottavélum sem ég hef keypt. Ég hef mikla trú á karlkyninu og tel að þeir séu jafn hæfir og ég til þess að læra að þvo þvott. Ég hef líka mikla trú á kvenkyninu og tel að þær geti orðið frábærir verkfræðingar.
Um daginn var ég að spjalla við þrjár ágætis vinkonur mínar um bíómyndir, ég hef frekar ólíkan smekk á kvikmyndum en þær. Eitt dæmi þá finnst mér Reservoir Dogs frábær mynd en þeim finnst hún frekar ömurleg. Ein af þessum ágætu vinkonum mínum sagði að ég væri með strákasmekk á bíómyndum, henni finnst hugljúfar myndir eins og Titanic skemmtilegar en mér ekki. Hún sagði að ég væri svona strákastelpa, en var alls ekkert að reyna að móðga mig. Ég er alls engin strákastelpa, ég er stelpustelpa. Ég hef líka heyrt þetta varðandi val mitt á tónlist, þ.a.s. að ég sé með strákasmekk. En málið er að við erum öll svo ólík, með ólíkan smekk á hinu og þessu, minn smekkur er ekkert endilega betri en hennar bara öðruvísi. Mér finnst þessi vinkona mín frábær stelpa, ég bara nenni ekki með henni í bíó og fæ ekki lánaða hjá henni geisladiska.