fimmtudagur, september 29, 2005

Málþing

Þar sem ég tel að fréttir dagblaða á Íslandi séu skekktar(eins og Fréttablaðið hefur gefið ágætis dæmi um undanfarna daga) tel ég að margir hefðu gagn og gaman af þessu;

Félagsfræðingafélag Íslands og meistaranámið í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands bjóða til málþings um opinbera stefnu í fjölmiðlamálum föstudaginn 30. september í stofu 101 í Odda v/Suðurgötu milli kl. 12.00 - 15.00.

Fljótlega eftir að skýrsla nefndar menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla var gefin út fyrr á þessu ári lognaðist umræðan um stefnu í fjölmiðlamálum, efni skýrslunnar og tillögur nefndarinnar út af. Málþingið er hugsað sem umræðuvettvangur fyrir fjölmiðlafólk, fræðimenn, nemendur og allan almenning sem hafa áhuga á íslenskum fjölmiðlum. Málþingið er öllum opið og er aðgangur ókeypis.
Á málþinginu verða flutt fimm erindi og að þeim loknum verða pallborðsumræður þar sem fjölmiðlafólk situr fyrir svörum.

DAGSKRÁ:
Herdís Þorgeirsdóttir, lagaprófessor við viðskiptaháskólann á Bifröst flytur opnunarávarp

Ragnar Karlsson, fjölmiðlafræðingur og sérfræðingur á Hagstofu Íslands: Ys og þys út af engu? Skiptir eignarhald fjölmiðla máli?

Elfa Ýr Gylfadóttir, fjölmiðlafræðingur: Flutningsréttur og flutningsskylda. Er það mál yfirvalda hverjir fá að horfa á enska boltann?

Guðbjörg Hildur Kolbeins, fjölmiðlafræðingur: Eru áhrif fjölmiðla ofmetin?

Björg Eva Erlendsdóttir, formaður Félags fréttamanna: Óviss framtíð Ríkisútvarpsins

Þorbjörn Broddason, prófessor er fundarstjóri

Í pallborði verða Brynhildur Ólafsdóttir, Jón Ásgeir Sigurðsson, Karl Blöndal og Ólafur Teitur Guðnason.

Pallborði stýrir Helgi Gunnlaugsson, prófessor.

þriðjudagur, september 27, 2005

Kvöldfréttir Stöðvar 2

2 milljarða króna afgangur af rekstri ríkissjóðs í fyrra; lengd fréttar=ca 30 sek.

Skór ekki sóttir úr viðgerð; lengd fréttar=ca 4 min.

laugardagur, september 24, 2005

Piparsveinar

Hvar var ég þegar skráning í Piparsveina þáttinn á Skjá einum fór fram? Mér er bara spurn!

sunnudagur, september 18, 2005

Smart heimildaskrá.

Sá í fyrsta skipti í dag skýrslu sem notar skýrslu eftir mig(og Auju) sem heimild. Mér fannst það smart.
http://pdf.mutual-learning-employment.net/pdf/netherlands05/NL%2005%20Iceland.pdf

föstudagur, september 16, 2005

Ragna Fróða.

Hún Ragna Fróða er að halda uppá afmælið sitt í kvöld, mig langar að fara en get bara ekki rifið mig uppúr sofanum til þess að klæða mig í skó. Jú jú, ég var bara að klára að halda uppá afmælisveislu dóttur minnar og líður eins og ég hafi verið að vinna verkamannavinnu í 16 klukkutíma án pásu. Það er ekkert grín að baka kökur, og sjá svo um að skemmta 24 7 ára krökkum í rúmlega tvo tíma. Ég óska bara Rögnu til hamingju með afmælið. Svo er líka 24 Hour Party People í sjónvarpinu í kvöld.

fimmtudagur, september 15, 2005

Natural Born Killers

Í dag kláraði ég að horfa á myndinna Natural Born Killers óklippta og heimildarmynd um gerð myndarinnar. Ég s.s. sá atriði sem höfðu verið klippt úr myndinni. Þessi mynd var í miklu uppáhaldi þegar ég sá hana fyrst og í dag finnst mér hún enn betri. Ég er ekkert sérstaklega hrifin af ofbeldi, en þessi mynd er listaverk.

MICKEY;Everybody thought I'd gone crazy. The cops, my mom, everybody. But you see,they all missed the point of the story. I wasn't crazy. But when I was holdingthe shotgun, it all became clear. I realized for the first time my one true calling in life.
I'm a natural born killer.

Gaman að viðtalinu við Oliver í heimildarmyndinni. Ég vissi t.d. ekki að Oliver valdi Woody Harrelson í hlutverk Micky vegna þess að honum fannst hann sjá ofbeldi í honum. Woody bjó við ofbeldi sem barn og pabbi hans er núna í fangelsi fyrir morð.

Annars nenni ég ekkert að skrifa núna.

þriðjudagur, september 13, 2005

Ungfrú Krútt 2005

Bara þannig að það sé alveg á hreinu þá er Björk Guðmundsdóttir eina fullorðna manneskjan sem ég veit um sem kemst upp með það að vera eitthvað krúttleg.

Fullorðið fólk sem talar krúttlega, setur upp krúttlega andlitssvipi og hreyfir sig krúttlega(og er ekki Björk) er bara kjánalegt að mínu mati.

sunnudagur, september 11, 2005

New Orleans

Fallegt bréf frá Michael Moore til George W. Bush
http://www.michaelmoore.com/words/message/index.php?messageDate=2005-09-02

föstudagur, september 09, 2005

Viðeigandi fyrirsögn.

Dóttir mín byrjaði í karate í gær. Eitthvað sem hún valdi alveg sjálf. Ég, hennar feminíska móðir, var ekkert að reyna að pota henni í sport sem sumir telja að sé frekar strákasport. Ég verð þó að viðurkenna að ég varð frekar glöð þegar hún tilkynnti mér að hana langaði ekki í ballet að hún vildi bara fara í karate. Henni gekk mjög vel í fyrsta tímanum og fannst gaman, svo gaman að hún hefur ekki hætt að biðja mig um að kíla sig í magan síðan. Mér finnst það pínu óþæginlegt, en hún hefur þó alltaf náð að verja sig. Ég hef ákveðið að mæta sjálf í prufutíma í karate á morgun.

Í dag klæddi ég mig í gráa dragt, setti upp gleraugu og hélt af stað í kennslutíma. Í þetta skiptið var ég ekki á staðnum til að taka niður glósur heldur til þess að kenna. Það fannst mér gaman, og nú hef ég aðeins betri hugmynd um það hvað mig langar að verða þegar ég verð stór. Ég fór reyndar ekkert í gráa dragt.

mánudagur, september 05, 2005

Skæs eitthvað.

Það er frábært að leysa verkefni. Mér finnst það ekkert sjálfgefið neitt að mér takist að leysa öll verkefni sem ég fæ í hendurnar. En núna var ég að leysa verkefni sem mér fannst í fyrstu vera frekar flókið og mikið. En þegar ég var búin að skoða það aðeins þá vafðist það ekki fyrir mér lengur, þannig að ég gekk í málið og leysti það.

Það vefst samt mikið fyrir mér hvað ég á að hafa í matinn í kvöld.

Já og er skæs alvöru orð? Ég veit alveg í hvaða merkingu það er notað, ég bara hélt að allir væru algerlega hættir að nota þetta orð. Svo sé ég þetta oft notað í einhverju tískublaði, eða man ekki alveg hvaða blaði, þar sem tískukonur eru spurðar hvað þeim finnist skæs þessa stundina. Oft finnst þeim skæs að blanda saman gömlum og nýjum flíkum, öllum helstu tískustelpum finnst það. Svo er Sigurður líka farinn að segja að eitthvað sé skæs. http://this.is/promazin/

Allavega, ég vona svo innilega að ég sé skæs.

laugardagur, september 03, 2005

Strákarnir okkar.

Fór á frumsýningu myndarinnar Strákarnir okkar í kvöld.
Þessi mynd er alveg hreint ansi góð. Venjulega hef ég þurft að standa uppá stól og sækja myndbandsspólu í efstu hillu lengst inní skáp til þess að sjá jafn marga bera karlmanns rassa og ég sá í þessari mynd. Ég er engin sérstakur rassa pervert en hafði nú alveg gaman af þessu öllu saman. Fyrir utan alla þessa rassa er myndin fyndin, tónlistin góð og mér fannst allir leikararnir í myndinni góðir og skemmtilegir. Sérstaklega hafði ég gaman af honum Damon Younger.

fimmtudagur, september 01, 2005

Fyrsti skóladagurinn.

Jæja, nú er ég á leiðinni í fyrstu kennslustund á haustönn 2005. Fyrsta kennslustundin er í námskeiði sem heitir; Áhrif kláms og ofbeldi í myndmiðlum. Mjög spennandi.