sunnudagur, október 29, 2006

Vondur vírus (V.V.)

Ég hafði planað að eyða þessum sunnudagsmorgni í lestur. Ég ætlaði að fræðast meira um lýðfræði. Lýðfræði er eitt af mínum nýju áhugamálum. Nema hvað, ég gerði þau mistök að kveikja á sjónvarpinu. Það var verið að endursýna þátt Jón Ólafs. Mér til nokkurrar undrunar gat ég ekki fengið mig til þess að teygja mig í fjarstýringuna til þess að slökkva. Skemmtilegur þáttur. Það er verið að fjallað um tækni í tónlist. Pétur viðmælandi Jóns ræddi meðal annars um blogg og sagði frá því að hann ætti erfitt með að fara að sofa án þess að setja inn eina færslu. Svona er þetta einmitt líka hjá mér. Mér finnst ég þannig skuldbundin mínum fjölmörgu lesendum að ég blogga á hverjum degi, stundum oft á dag. Nema hvað, ég hef tekið eftir því að hér er ekki allt með feldu. Það virðist vera þannig að ca ein af hverjum 20 færslum sem ég skrifa birtist á síðunni. Ég hef skoðað þetta nánar og komist að því að það er vírus í tölvunni minni sem eyðir út færslum. Þessar eyðslur eru ekki háðar tilviljun, nei mér sýnist allar færslur sem vírusinn eyðir eiga það sameiginlegt að þær gætu mögulega sært siðferðiskennd lesenda. Það er eins og vírusinn sé að hafa vit fyrir mér. Skrítið.

miðvikudagur, október 18, 2006

Útskrift

Á næsta laugardag er komið að útskrift. Ég mun þó halda útskriftarveislu aðeins seinna. Það tekur óratíma að undirbúa viðeigandi skemmtiatriði og varð ég því að fresta veislunni. Ekkert meira í bili. Það er samt alveg fullt að gerast í mínu lífi. Ég get þó ekkert sagt um öll herlegheitin hér, ekki strax.

þriðjudagur, október 10, 2006

Ævintýraferð

Í kvöld var ég á ferðalagi um netheima. Ég hef komist að því að nánast flestir sem ég þekki eða kannast við halda úti bloggsíðu. Það er misjafnlega skemmtilegt að lesa vangaveltur fólks. Skemmtilegast finnst mér þegar fólk gengur gjörsamlega yfir strikið í einlægni og skrifar um hluti sem ég myndi ekki einu sinni þora að tala um við sálfræðinginn minn. Ég er reyndar ekki að hitta sálfræðing þessa dagana. Varð bara að koma því að. Já og svo er Myspace. Það eru líka allir þar. Ekki bara öryrkjar og atvinnuleysingjar heldur bara venjulegt fólk, og reyndar líka mjög óvenjulegt fólk.

Jæja, ég ætla ekki að eyða meiri tíma í þetta. Eins og ég hef alltaf sagt; þú ert ekki til fyrr en þú ert til á internetinu.

Annars er ég að hugsa um að hætta þessu. Þetta er ekki ég.

sunnudagur, október 08, 2006


Lífið gæti varla verið mikið betra. Ég hef verið ansi afkastamikil þessa helgina og þess vegna líður mér vel. Ég hef skrifað skýrslu um lýðfræði Indlands, lesið nokkra kafla um neikvæð áhrif stimplunnar, lesið um mikilvægi tengsla í samfélaginu og nánast horft á heila seríu af Sex and the City.

Þessi góða kona sem er hér á myndinni að ofan er dealerinn minn á skemmtilegt sjónvarpsefni. Annars hef ég ekkert meira um þetta að segja, né nokkuð annað. Í bili að minsta kosti.


þriðjudagur, október 03, 2006

Ungur maður

Í nótt hitti ég ungan mann. Hann sagði "heyrðu, ég þarf að segja eitt við þig", þá hringdi vekjaraklukkan. Ég hef sjaldan verið eins súr yfir verkjaraklukkunni og í morgun. Núna er klukkan að verða 13 og ég er enn að velta því fyrir mér hvað maðurinn ætlaði að segja. Ég ætti samt kannski ekkert að vera að segja fólki frá því að ég sé í þessum vangaveltum mínum. Fólk gæti haldið að ég væri skrítin. En svona í alvöru samt hvað ætli hann hafi ætlað að segja?

sunnudagur, október 01, 2006

Dagskráin og klósettpappír

Mér finnst fólk sem ekki horfir á sjónvarp að vissu leyti aðdáunarvert. Ég horfi stundum á sjónvarp þrátt fyrir að finnast dagskráin alveg óstjórnlega leiðinleg. Áðan horfði á ég brot af Celebrity Cooking. Sá þáttur er leiðinlegur en samt ekki eins leiðinlegur og Jay Leno.

Já og ef ykkur vantar klósettpappír þá veit ég um góða konu sem er að selja eðal pappír á góðu verði> http://tanilu.blogspot.com/

Er annars nokkuð kát í dag, eða allavega eins kát og kona á mínum aldri getur leyft sér að vera. Fékk nokkrar hressar framakonur í brunch í dag. Ein þeirra er á leið í framboð. Það finnst mér fullorðins. Ég færi sjálf í pólitík ef ég ætti ekki svona skuggalega fortíð. Ég hef staðið fyrir konukvöldi á Brodway með tilheyrandi snyrtivörusýningum og þvíumlíku. Maður flýr ekki þannig fortíð.