miðvikudagur, september 27, 2006

MSN

Hvað segir maður við 8 ára barn sem nánast á hverjum degi biður um MSN. Dóttir mín var mjög hamingjusöm með afmælispakkan sem hún fékk frá mér en hún hefði samt heldur viljað MSN. Hún heldur að MSN sé eitthvað sem við förum útí búð og kaupum. Greinilega ekki með þessar tækninýjungar á hreinu, eins og mamma sín. Í gær sat hún dreymin og spurði: hvað á ég að heita þegar ég fæ MSN? Þegar ég stakk uppá því að hún myndi áfram heita María leit hún á mig eins og ég væri rauðhærður dvergur, sem ég er ekki. Ég finn eitthvað út úr þessu. Ég þarf allavega að klára þessi GSM mál áður en ég fer í MSN málin. Þar sem ég er fátækur námsmaður, eða svona næstum því, þá borgar sig örugglega að flytja til Danmerkur áður en hún fær GSM síma. Þjónustan hjá símafyrirtækjum á Íslandi er fimm sinnum dýrari hér en þar, merkilegt. Bless.



laugardagur, september 23, 2006

Myndavél fyrir nútímakonur

Loksins myndavél sem grennir:

http://www.hp.com/united-states/consumer
/digital_photography/tours/slimming/index_f.html

Fann þetta á síðunni hennar Auðar í London. Hún er kona sem er með puttann á púlsinum.
http://www.pappirus.blogspot.com/

fimmtudagur, september 21, 2006

Spennandi

mánudagur, september 18, 2006

Nick Cave

Það er fátt betra í þessu lífi en öfund. Það er samt betra að vera öfunduð en að öfunda. Ég finn mikla gleði í mínu hjarta þessa dagana yfir öfund vinkvenna minna á stefnumóti mínu við Nick Cave um helgina. Á föstudaginn fór ég að sjá Proposition. Nick Cave skrifaði einmitt handritið að þeirri frábæru mynd. Þar var ég bara eitthvað að kaupa súkkulaði með Mögguh, og þar var Nick bara eitthvað að standa. Ég horfði á hann og hann á mig. Af því að þetta var hann þá var mér alveg sama að ég væri eins og 12 ára með störu. Á laugardagskvöldið fór ég svo á tónleikana. Þar var ég eitthvað að syngja með og hann að syngja líka með uppá sviði, og spila á píanó og stundum á gítar. Alveg hreint magnað allt.

föstudagur, september 15, 2006

Lífið í dag

Ég geri mér grein fyrir því að það þykir ekki fínt að vilja vera einhver annar en maður sjálfur. Þar sem ég er úr Breiðholti og kann ekki að skammast mín þá finnst mér bara í fínu lagi að viðurkenna þennan ósið. Mig langar oft að vera einhver annar en ég. Á tímabili langaði mig ekkert heitara en að vera http://siggisiggibangbang.com/. Það tímabil leið hjá. Siggi er ok og allt það en hann er bara aðeins of pure fyrir minn smekk. Eða, ég skal reyna að útskýra þetta betur. Ég held að það sé ekkert sérlega gaman að vera Siggi í dag þrátt fyrir að það sé án efa gaman að vera í samskiptum við hann. Hvernig getur líf án eitthvers konar fíknar verið þess virði að lifa. Siggi er, eða það er allavega orðið á götunni, hreinni en sjálfur Jesú kristur var á sínum tíma. Ég hins vegar var að fá mér súkkulaðibita og geri ekki ráð fyrir öðru en að hann kalli á fleiri bita. Þetta endar svo allt í mikilli niðursveiflu og ég lofa sjálfri mér að borða aldrei aftur súkkulaði. Ég veit samt innst inni að um leið og ég er búin að jafna mig byrja ég aftur að borða súkkulaði.

En allavega þá langar mig að vera hluti af Kort fjölskyldunni í dag. Ég veit samt ekki alveg hvort mig langar að vera Hr. eða Frú Kort, mig langar ekkert sérlega að vera litli Kort (því hann er svo lítill). http://www.kortarinn.blogspot.com//

fimmtudagur, september 14, 2006

Ótrúlegar tilviljanir

Mér bregður alltaf jafn mikið þegar ég sé mann sitja inní minni gömlu stofu. Hann er bara eitthvað að vinna á sína tölvu við sitt eldhúsborð. Ég er flutt í næstu íbúð og maðurinn sem flutti í mína gömlu hefur ekki fengið sér gartínur. Ég er samt ekkert alltaf eitthvað að glápa. Hann er mjög oft í hlýrabol. Fyndið ég var einmitt stundum í hlýrabol þegar ég bjó í hans íbúð.

þriðjudagur, september 12, 2006

Vangaveltur

Shit. Ég er hætt að horfa á sjónvarp, hætt að fara í sleik, hætt að stara út um gluggann, hætt að borða mat sem tekur meira en fimmtán mínútur að elda, hætt að raka á mér labbirnar (sem Bergþóru finnst ógeð), hætt að slúðra í símann og nánast hætt að mæta á samkomur hjá leynifélaginu AH (allir hressir). Ég er samt varla að ná að komast yfir allt þetta lesefni sem gert er ráð fyrir að ég lesi í þessu MA námi. Hraðlestrarbókinn sem ég las er þó aðeins að hjálpa, en ekki nóg. Ég ætti kannski að hætta að fara í bað. Ég er samt að hugsa um að halda Rokkklúbb á næsta föstudag, svo þarf ég að fara á Nick Cave á laugardaginn og baka köku á sunnudaginn. Kannski þarf ég að skrá mig á tímastjórnunarnámskeið.

sunnudagur, september 10, 2006

Smart fyrirsögn

Þrátt fyrir mikla vinnu ætla ég að reyna að bregða ekki útaf vananum og sjá sem flestar myndir á kvikmyndahátíðinni. Mér finnst meiri stemning að fara í bíó á kvikmyndahátíð heldur en bara í svona normalt bíó. Ég mun seint gleyma því þegar ég og MaggaH sáum 9 Songs og MaggaH fór svo hjá sér að hún lét eins og fífl á meðan á myndinni stóð. Það var rosa erfitt fyrir mig. Ég lét mig þó hafa það, enda er ég þekkt fyrir að vera umburðarlynd og góð vinkona. Í kvöld fór ég með Elsu Maríu, einni af mínum fallegu vinkonum, á Factotum. Elsa lét ekkert eins og fífl. Ég hafði ansi gaman af þessari mynd. Hank nokkur Chinaski er aðalsöguhetja Factotum. Hank byrjar hvern dag á því kasta upp og fá sér síðan whisky (eða bjór) og sígó, það sem eftir er dags fer í meiri whisky (eða bjór) drykkju, reykingar og kvennafar. Eitt augnablik í kvöld þótti mér líf Hanks vera öfundsvert þrátt fyrir að það sé frekar súrt í alla staði. Reyndar langar mig ekkert á kvennafar.

miðvikudagur, september 06, 2006

Ég væri reyndar glaðari ef að teljarinn minn myndi haga sér eins og eðlilegir teljarar.
Þegar ég hélt að lífið gæti ekki orðið neitt betra, varð það betra. Það er sjúklega gaman að vera ég. Mér er það fyllilega ljóst að það er frekar púkó að vera rosalega hamingjusöm og jákvæð. Ég get bara ekkert af þessu gert.

laugardagur, september 02, 2006

QOTSA

RUV er að sýna tónleika með Queens of the Stone Age á morgun klukkan 15:00. Rokk og ról af mínu skapi.

föstudagur, september 01, 2006

Lífið er lotterí

Þá er enn föstudagurinn liðinn, eða hér um bil. Síðasti dagurinn hjá Rannsóknastofnuninni í gær og fyrsti skóladagurinn í dag. Fyrsti tíminn sem ég átti að fara í sem MA nemi féll niður, en tíminn minn sem kennari var samkvæmt stundaskrá. Mér lýst bara vel á þetta allt saman, og hlakka til vetrarins. Við fyrstu kynni tel ég að allflestir, ef ekki bara allir, nemendurnir séu fyrirmyndar fólk. Það hló reyndar enginn af þessum eina brandara sem ég laumaði inn í litla fyrirlesturinn minn. Sá möguleiki er vel fyrir hendi að þetta hafi alls ekki verið neitt fyndið. Ég á erfitt með að dæma það. Ég kannski hringi í Bergþóu og fæ hennar mat.

Ég fór líka í starfsmannakokteilboð sem var ansi hressandi. Þar var boðið uppá léttar veitingar sem er alltaf gaman. Svona kokteilboð er víst haldið á hverju hausti. Mér var ekki boðið í fyrra. Þegar ég var að háma í mig ost og vínber heyrði ég konu tala um það að hún ætlaði að detta í það og gera skandal. Hún sagði að það væru aldrei skandalar í þessum boðum, og hún væri tilbúin að taka það að sér. Ég var á leiðinni út en snarhætti við. Ekki vil ég missa af því þegar einhver missir sig í settlegu boði. Ég hef aldrei áður verið í starfsmannaboði með fyrrverandi ráðherra, pólitíkusum og fullt af fólki með Dr. fyrir framan nafnið sitt, ég veit ekki hvernig slíkt fólk bregst við skandölum. Því miður þá hætti konan við, hún lagði frá sér glasið og sagði: æji ég er hætt við að detta í það. Ég fór því bara heim.

Ég veit hreinlega ekki af hverju ég er að blogga þetta. Kannski til þess að monta mig á mínu spennandi kokteilboða lífi. Mér er einmitt boðið í annað svona hóf í næstu viku útaf hinni vinnunni minni, hjá annarri rannsókastofnun. Ríkisstarfsmenn eru víst gefnir fyrir hóf, nei ég veit ekkert um það. Ég veit bara að ég er alltaf hrókur alls fagnaðar í svona boðum, ég var fædd til að míngla.