Þá er enn föstudagurinn liðinn, eða hér um bil. Síðasti dagurinn hjá Rannsóknastofnuninni í gær og fyrsti skóladagurinn í dag. Fyrsti tíminn sem ég átti að fara í sem MA nemi féll niður, en tíminn minn sem kennari var samkvæmt stundaskrá. Mér lýst bara vel á þetta allt saman, og hlakka til vetrarins. Við fyrstu kynni tel ég að allflestir, ef ekki bara allir, nemendurnir séu fyrirmyndar fólk. Það hló reyndar enginn af þessum eina brandara sem ég laumaði inn í litla fyrirlesturinn minn. Sá möguleiki er vel fyrir hendi að þetta hafi alls ekki verið neitt fyndið. Ég á erfitt með að dæma það. Ég kannski hringi í Bergþóu og fæ hennar mat.
Ég fór líka í starfsmannakokteilboð sem var ansi hressandi. Þar var boðið uppá léttar veitingar sem er alltaf gaman. Svona kokteilboð er víst haldið á hverju hausti. Mér var ekki boðið í fyrra. Þegar ég var að háma í mig ost og vínber heyrði ég konu tala um það að hún ætlaði að detta í það og gera skandal. Hún sagði að það væru aldrei skandalar í þessum boðum, og hún væri tilbúin að taka það að sér. Ég var á leiðinni út en snarhætti við. Ekki vil ég missa af því þegar einhver missir sig í settlegu boði. Ég hef aldrei áður verið í starfsmannaboði með fyrrverandi ráðherra, pólitíkusum og fullt af fólki með Dr. fyrir framan nafnið sitt, ég veit ekki hvernig slíkt fólk bregst við skandölum. Því miður þá hætti konan við, hún lagði frá sér glasið og sagði: æji ég er hætt við að detta í það. Ég fór því bara heim.
Ég veit hreinlega ekki af hverju ég er að blogga þetta. Kannski til þess að monta mig á mínu spennandi kokteilboða lífi. Mér er einmitt boðið í annað svona hóf í næstu viku útaf hinni vinnunni minni, hjá annarri rannsókastofnun. Ríkisstarfsmenn eru víst gefnir fyrir hóf, nei ég veit ekkert um það. Ég veit bara að ég er alltaf hrókur alls fagnaðar í svona boðum, ég var fædd til að míngla.