Bobby Fischer.
Ég styð mannúðarstefnur, ég styð það þegar fólk lætur gott af sér leiða til þess að reyna að koma öðru fólki til hjálpar. Mér finnst að við Íslendingar ættum að gera meira af því, og hjálpa fólki sem meira segja kann ekki mannganginn í skák. Við gætum t.d. reynt að byrja á að koma betur fram við þá nýbúa(innflytjendur) sem þegar búa hér. Ég sá viðtal í sjónvarpinu í gær við fólk sem gat ekki leynt fórdómum sínum gagnvart nýbúum. Ung kona sagði t.d. alltaf "þetta" þegar hún var að tala um nýbúa, sagði eitthvað á þessa leið; já það er kannski allt í lagi að þetta sé hér en þetta verður þá líka að samlagast okkar menningu og læra tungumálið okkar, en þetta hangir bara svo oft saman og vill ekki vera hluti af okkur hinum.
Bobby Fischer hefur verið haldið án dóms og laga, sem er ekkert sérlega fallegt, og þá er allt í lagi að við gerum það sem við getum gert til að hjálpa. En að koma fram við manninn eins og einhverja stór stjörnu sem við höfum verið að bíða eftir að fá að hitta finnst mér frekar fáranlegt.
Fischer hefur skoðanir sem þykja ekki pólitískt réttar. En ég veit ekki, ættum við að vilja aðstoða fólk aðeins svo framarlega sem það hefur sömu skoðanir og við? Hvað er verið að draga kallinn í öll þessi viðtöl? Ég nenni ekki að heyra hvað hann hefur að segja um gyðinga. Það sem mér þykir einna mest athugarvert við það sem ég hef heyrt um hans mál undanfarið er að íslenskir stjórnmálamenn, m.a. Steingrímur J., afgreiða hann strax sem sjúkan mann. Getur verið að allt fólk sem hefur skoðanir sem okkur hinum finnst fáranlegar sé bara veikt? Næst þegar einhver er ekki sammála mér ætla ég að benda þeirri manneskju á það að hún sé veik og þess vegna sé ekki að marka eitt einasta orð sem frá henni kemur.