föstudagur, apríl 29, 2005

Hressa stelpan.

Ég virði skoðanir annarra, svo lengi sem þær stangast ekki á við mínar.

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Bjórbannið.

Ég er núna að lesa um félagsfræði laga. Er búin að vera lesa heilmikið um bjórbannið, og alla lagasetningu í kringum það. Mér finnst þetta mikil skemmtilesning. Bjórbannið stóð frá 1934-1989. Nokkrum sinnum á þessu tímabili komu tillögur á þingi um að aflétta bjórbanninu. En andstæðingar bjórsins stóðu fast á sínu, og alltaf voru tillögurnar felldar eða þ.t. 1989. Mig langar að birta hér brot af þeim ummælum sem bjórandstæðingar létu hafa eftir sér á þingi;

„Og ég gæti ætlað og hef orðið þess var, að þessi áróður um ágæti 3.5% áfenga ölsins sé þegar farinn að grípa um sig í hugum unglinga og barna. Ég heyrði það fyrir nokkrum dögum að 13 ára skóladrengur hélt því fram að þeir krakkarnir þyrftu endilega að fara að fá þetta áfenga öl, það væri munur að hafa svona drykki til þess að rífa sig upp á morgnana, áður en þau færu í skólann og ennfremur væri þetta hentugt fyrir heimilin líka. Það væri ólíkt handhægara að grípa til ölsins ... en þurfa að fara að hita og búa til kaffi eða te.“

„Er flutningsmanni alveg ókunnugt um það að allar verksmiðjur og skipasmíðastöðvar í Bretlandi loka verkafólkið inni um vinnutímann og gæta þess alveg sérstaklega að hleypa engum út, fyrr en ölkrárnar eru allar komnar örugglega undir lás og loku?“

„...geti verið handlægt fyrir verkamenn að grípa til áfengs bjórs sér til hressingar, ekki síst ef honum er haldið að þeim með því, að hann sé þeim heilnæmur, vítamínríkur og hollur drykkur.“

„Mér þykir sennilegt að persónulegar þrár flutningsmanna liggi að baki tillögunnar. Líklega eru þeir þyrstir, og trúlega haldnir minnimáttarkennd vegna þess líkamlega vaxtarlag þeirra sé öðruvísi en þeir vilja hafa það. Þeir búast við að verða betur metnir af samtíðarfólki, ef þeir verða gildari um miðjuna, hafa heyrt, að öldrykkju fylgdu stærri magar, svonefndar bjórvambir, og telja þær eftirsóknarverðar....“

Þessi málflutningur varð til þess að tillögur um að leyfa bjór á Íslandi voru alltaf felldar. Okkur þykir þetta kannski fyndið í dag, en eiga börnin/barnabörnin okkar ekki eftir að hlægja af þeim málflutningi sem er oft í gangi á þingi í dag?

sunnudagur, apríl 24, 2005

Dagbókarfærsla.

Djöfullinn hefur tekið sér bólfestu í tölvunni minni. Ég þarf ekki á þessu að halda ákkúrat núna. Í dag kom upp einhver vitleysa og ég reyndi mitt besta að redda málunum, skanna og strauja og það sem er ætlast til að maður geri þegar maður er að díla við tölvur. Tölvan mín lét samt eins og kjáni. Þegar ég var búin að restarta gerði ég mér grein fyrir að hún hafði ekki vistað skjalið sem ég var að vinna í. Svona ca fimm tíma vinna farin í vaskinn. Ég blótaði og var svo næstum farin að gráta. Undir öllum öðrum kringumstæðum blóta ég hvorki né græt, það er ekki minn stíll. Bergþóra nágranni benti mér á að hringja í tölvustrákana. Siggi svaraði ekki þannig að ég hringdi í G. Ragnar. Hann var í nágrenni við mig þannig að hann kom. Hann gerði eitthvað sem virtist ekki flókið og gat restorað skjalinu. Núna ber ég virðingu fyrir G. Ragnari.
Sonja átti afmæli í dag, hún er orðin 30 ára. En vegna heimaprófsins og vinnu komst ég því miður ekki til að fagna með henni. Ég hefði hvort sem er verið frekar leiðinleg í þessu partýi. Ég hefði bara gert eitthvað grín og reynt að leyna gremju minni yfir því að ég skuli löngu vera búin að halda uppá mitt þrítugs afmæli. Mér finnst ömurlegt að vera orðin gömul kerling. Sonja er rosa sæt, en ég var líka sæt þegar ég var á hennar aldri.
Á morgun á Magga St. afmæli. Hún er líka eldgömul. Ef ég fer að sofa núna get ég kannski vaknað í tæka tíð fyrir veisluna hennar. Konur á mínum aldri þurfa góðan nætursvefn.

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Í pásu.

Á minni fyrstu önn í háskólanum var farið yfir það í einu námskeiði hvernig væri best að haga sér í prófum, og þegar prófundirbúningur stendur yfir. Man ekki allt sem var sagt en ég man mjög vel að það var mælt með því að maður myndir ekki hætta að „lifa“, taka sér pásu reglulega. Ég stend mig ágætlega, er að fylgja leiðbeiningum. Í hádeginu hitt ég alveg óvart nokkrar vinkonur mínar og fór þá með þeim að borða mat, drekka kaffi og gera það sem vinkonur gera. Begga kennari á afmæli í dag, það eru fimm ár síðan að hún endurfæddist. Ég fór aðeins að rifja upp mín fyrstu kynni af Beggu, það var fyrir ja ca. 8 árum. Þá var Begga ansi hress, eiginlega of hress fyrir minn smekk.
Ég fór á kvikmyndahátíð í gær, ætla að reyna að sjá þær nokkrar. Ég var eitthvað ringluð, þannig að við vorum of seinar á Hitler og fórum þá á 9 Songs. Ef þig hefur alltaf dreymt um að fá að vera áhorfandi þegar fólk er að stytta sér stundir fyrir svefnin þá er þetta mynd fyrir þig. Já og svo eru líka góðir rokk tónleikar í myndinni. Sumir gengu út í miðri mynd. En ekki ég og Magga H., við létum okkar hafa það. Magga fór eitthvað að stynja í miðri mynd sem mér fannst svoltið óþæginlegt.
Ég var að horfa á fréttirnar og hef nú fengið svarið við ráðgátunni miklu. Það var verið að segja frá niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem benda til þess að þeir sem leggi aðra í einelti eigi það á hættu að lenda í rugli síðar í lífinu. Þess vegna er mælt með því að foreldrar reyni að koma í veg fyrir að börn sín leggi önnur í einelti vegna orsakasambandsins þarna á milli. Ef ég man rétt þá átti ég það nú til að haga mér svolítið kjánalega sem krakki, einu sinni kallaði ég bekkjarfélaga minn vitleysing af því að hann vissi ekki að England væri hluti af Bretlandi. Enda hef ég stunduð verið í rugli, alveg rugluð. En gæti verið að þrátt fyrir samband þá sé þetta ekki orsakasamband? Nei segi nú bara svona. Núna ætla ég að fara að snúa mér að Aðferðarfræðinni.

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Vor.

Núna er ég í heimaprófi, reyndar er ég í tveimur heimaprófum. Fyrst þegar mér var sagt frá heimaprófum datt mér svindl strax í hug. Veit ekki afhverju, kannski af gömlum vana. Nei ég er engin svindlari þannig. Ég svindlaði samt stundum í grunnskóla, og á einu þýskuprófi í framhaldsskóla. Ég kann enga þýsku í dag. Það er ekkert hægt að svindla í þessum háskóla, og ekki á þessu heimaprófi. Ég veit ekki, kannski ég hringi í mömmu og spyr hana hvað hún hafi að segja um Menningarlega heimsvaldarstefnu. Eða ekki, því ég hef svo hátt siðferði. Ég er svo siðferðislega góð eitthvað, full eiginlega af góðu siðferði.
Þrátt fyrir að vera í prófi þá er ég samt hér, og er að fara í bíó.

Hressir krakkar.

Ég fór á bekkjaskemmtun hjá dóttur minni í gær. Börnin hafa verið að æfa Búkollu í einhverntíma núna og sýndu okkur afraksturinn af því. Svo sungu þau nokkur lög. Þetta var allt mjög fínt hjá þeim. Reyndar ekkert baul. Ég hjó eftir því að dóttur minni leiðist ekki athyglin, hún stóð fremst og söng hátt. Ég man einmitt eftir því hvað mér leið vel sem barn þegar fólk var að horfa á mig, og sérstaklega ef það var að tala um mig líka. Mamma sagði mér frá því að ég hefði oft byrjað að syngja inní einhverjum búðum sem ég þurfti að fara með henni í. Að ég hefði aldrei hætt fyrr en allir voru farnir að fylgjast með mér. Ég man líka oft eftir að hafa heyrt sagt þegar ég var krakki "hún Magga er sko ekki feimin, henni leiðist ekki athyglin", eða eitthvað svoleiðis. Ég held að ég hafi ekki breyst mikið, fer þó aðeins betur með þetta í dag. Ég er eiginlega alveg hætt að syngja í búðum.

sunnudagur, apríl 17, 2005


Magga Hugrún og Edda Ágústa komu í heimsókn í febrúar.  Posted by Hello

Siggi og Bergþóra eru ekki par, en þau eru gefin fyrir sopann. Posted by Hello

maría í stuði Posted by Hello

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Próf

Nú er próftörn að hefjast. Sem er bara gott, já ég segi bara loksins. Hún verður reyndar stutt þessi. Mikið á sama tíma og ég þess vegna búin 2.maí. Ég hélt að þetta yrði erfiðara eftir því sem ég kemst lengra áfram í þessu námi en svo er ekki. Síðasta árið mitt, sem er næsta ár, verður að öllum líkindum frekar rólegt. Ætli ég geti byrjað á masternum án þess að vera búin að klára BA? Þarf að kanna þetta.
Nokkur verkefni liggja fyrir í sumar en ekkert alvarlegt þannig að ég mun hafa tíma til að styrkja vináttusambönd og annað slíkt. Magga Hugrún hefur kvartað yfir því að við höfum ekkert náð að styrkja vináttusamband okkar. Hún er skemmtileg þannig að ég ætla að skrá það í dagbókina mína, 3.maí vináttustyrking.

sunnudagur, apríl 10, 2005

Tónlist.

Ísland er smart, þrátt fyrir smá vesen með Fisher. Allavega þá eru stórböndin til í að koma hingað og spila tónlist fyrir okkur. Næsta sumar lítur nokkuð vel út;

24. apríl - Robert Plant & The Strange Sensation. Laugardalshöll
5. maí - The Shadows. Kaplakriki
27. maí - Franz Ferdinand. Kaplakriki
7. júní - Iron Maiden. Egilshöll
30. júní - Duran Duran. Egilshöll
5. júlí - Foo Fighters + Queens of the Stone Age. Egilshöll
7. júlí. - Velvet Revolver
17. júlí - Snoop Dogg
13. ágúst - Alice Cooper. Kaplakriki
1. september - Joe Cocker. Laugardalshöll

Ég er að hugsa um að láta mig hafa það að þurfa að vera innan um fullt af öðru fólki og fara í Egilshöllina 5.júli. Queens of the Stone Age www.qotsa.com er í miklu uppáhaldi hjá mér, þetta er frábært band og er sögð vera mjög góð á tónleikum. Svo missti ég líka af Foo Fighters síðast og hef líka gaman af þeim, Dave Grohl er mikill snillingur. Einhverjar sögusagnir ganga um það að Radiohead eigi eftir að bætast í hóp Íslandsvina. Ef það verður að veruleika verður líka algerlega nauðsynlegt að taka þátt í því.

Ég er í Rokkklúbb en á samt ekki vona á því að allir meðlimir hans eigi eftir að vilja koma með í Egilshöllina 5.júlí, því í klúbbnum eru konur sem hlusta á eitthvað sem ég veit ekki hvað heitir en er spilað á tíðninni 95,7 í útvarpinu. Hér vil ég ekkert sérstaklega vera að nefna nein nöfn. Ég er samt vongóð um að finna tónleikafélaga.

föstudagur, apríl 08, 2005

Dónaskapur.

Eftir að hafa hugsað málið sé ég að síðasta bloggfærsla mín er mjög dónaleg og alls ekki við hæfi. Ég biðst afsökunnar, og mun sjá til þess að hér verði ekki birt meira af klámfengnu efni. Sjálf er ég mjög lítið fyrir klám, finnst það frekar sjoppulegt eitthvað.

fimmtudagur, apríl 07, 2005


Ég var á rölti um Washingtonborg, bara að reyna að finna góðan stað til að drekka kaffi á, þegar ég leit upp og sá þetta. Mér varð strax hugsað til fyrirverandi kærasta míns og ákvað að taka mynd. Posted by Hello

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Idol.

Mig grunar að Billy Idol hafi gert samning við djöfulinn. Sá hann í þætti hjá Leno. Hann lítur alveg nákvæmlega eins út og hann gerði 1980. Nema hvað að magavöðvarnri á honum(hann er eins og poppsöngkona, haldin einhverri strípihneigð), eða sixpackið eins og sumir segja, eru meira áberandi í dag. Allt eðlilegt fólk eldist á 25 árum, og með aldrinum breytist útlitið. Árið 1980 var Billy Idol 25 ára, þá reyndar leit hann út fyrir að vera 35 ára. Í dag er hann 45 ára og lítur út fyrir að vera 25 ára. Annars þá var að koma út ný plata frá Billy Idol. Ég hef ekki heyrt í þessari plötu en hjó eftir því í einhverju blaði að hún fær ekki nema tvær stjörnur af fimm mögulegum. Tveggja stjörnu plata er yfirleitt ekki góð. Þessi samningur hans hefur ekki verið neitt spes.

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Viðeigandi fyrirsögn.

Yfirleitt finnst mér fínt að vera ég. En það er reyndar eitt atriði sem mér finnst erfitt við að vera ég en ekki einhver önnur/annar. Málið er að ég hef ýmsar skoðanir á flestum málum. Lítið brot af því sem ég hef skoðun á er(ekki í röð eftir mikilvægi); innflutningur á Bobby Fisher, klæðnaður á flestu fólki, sjónvarpsdagskráin, þjónustan í 10-11, af hverju Bush er forseti Bandaríkjanna en ekki John Kerry, hvað má bæta í Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, hvernig var staðið að málum í ráðningu fréttastjóra Ruv, hvort selja eigi Ruv, á raunverulegum mun kynjanna, hvaða fólk er leiðinlegt osfr. Þetta er bara brot af því sem ég hef skoðun á.
Þetta er allt gott og blessað nema hvað að þessar skoðanir mínar skipta engu máli. Þeir sem hafa tök á því að heyra um mínar skoðanir eru ekki margir. Það hefur t.d. aldrei verið hringt í mig og ég spurð af því hver mín skoðun sé á fordómum Íslendinga á innflytjendum. Mér hefur aldrei verið boðið að koma fram í Kastljósinu og beðin að segja hverja ég telji vera besta lausnin í baráttu kynjanna. Þannig að stundum langar mig að vera manneskjan sem er hringt í.
Sem sagt þá finn ég af og til fyrir þörf til að láta skoðun mína í ljós en virðist eiga erfitt með að mynda mér skoðun á því hver sé besti vettvangurinn til þess. Ég geri mér líka grein fyrir því að sumar skoðanir þarf engin að fá sérstaklega að vita um, eins og eitt dæmi hér. Þá er stelpa með mér í skólanum sem er svakalega brún, alltaf. Það er ekkert normal að vera rosa brún í desember á Íslandi. Þannig að ég sagði við hana; mikið rosalega ertu brún. Þá sagði hún takk. Sko, þarna var ég að reyna að koma þeirri skoðun minni á framfæri að mér þætti asnalegt að vera svona brún að vetrarlagi og hún heldur í dag að mér finnist það smart. Þetta er dæmi um skoðun sem ég hefði t.d. alls ekkert þurft að reyna að koma á framfæri til hennar.
Kannski þarf ég bara að fara að stunda sund og borða hollan mat. Er ekki alveg viss.

Dóttir mín sagði við mig í dag að hún vildi að hún væri ég, greinilegt að hún er bara sex ára.