FF-Frábær föstudagur
Ég er að vinna á líflegum og skemmtilegum vinnustað. Í dag fórum við í körfubolta til þess að styrkja starfsandann. Alveg merkilegt hvernig ljúfasta og rólegasta fólk í bænum breytist þegar það fær bolta í hönd.
Vinkona mín hringdi og bað mig að koma með sér á rokktónleika. Hún er eitthvað að blikka hljómsveitargaur. Brain Police, Deep Jimi & The Zep Creams, Dikta, Telepathetics og Wulfgang voru að spila og því var það bara gaman. Þetta var samt meira eins og að vera á hljómsveitaræfingu með böndunum. Það hefur greinilega enginn nema við og nokkrir unglingar vitað af þessum tónleikum, jú og Pétur pönkari. En Pétur pönkari veit líka allt, eða næstum allt. Hann veit að það er fyrir neðan okkar virðingu að vera grúbbíur, sem við erum einmitt ekki.
Það var föstudagsflipp hjá mér og dóttur minni í kvöld. Þegar við flippum saman á föstudögum förum við stundum á American Style. Á leiðinni á AS sagði dóttir mín mér að hún væri rétt í þessu að muna hvað gerðist rétt áður en hún var sett í magann á mér. Hún sem sagt man að það voru fullt af pörum að fara að búa til barn, einn maður og ein kona, og hún mátti velja sér eitt par sem yrðu hennar foreldrar. Hún sá par sem henni leist rosa vel á og ætlaði að velja en var of sein, annað barn varð á undan henni. Hún lét þess vegna mig og pabba sinn nægja. Hún lagði áherslu á að við vorum ekki hennar fyrsta val. En núna átta árum seinna er hún bara rosa fegin að hitt parið var frátekið.
Fyrir framan mig og dóttir mína, í röðinni á AS, voru nokkrir hressir gaurar(enda föstudagskvöld). Einn sagði við hina að þeir ættu að leyfa einstæðu mömmunni að vera á undan þeim. Vinur hressa gaursins spurði þá hvernig hann vissi að ég væri einstæð móðir (allan tíman töluðu þeir óviðeigandi hátt þannig að ég myndi örugglega heyra). Hressi gaurinn sagði þá; af því að hún er rosa sæt en samt með þetta reiða lúkk. ÉG? Ég fór því fram fyrir þá í röðinni og brosti rosalega blíðlega og sagði „takk fyrir að leyfa okkur að vera undan” bara til þess að leggja áherslu á hvað ég er rosa blíð og ekki reið. Svo reyndar fór ég að hugsa þetta og varð rosa reið og gekk á borðið til þeirra og öskraði „þú getur bara sjálfur verið reiður, fáviti”. Nei ég gerði það reyndar ekki, enda er ég hamingjusöm, glöð og frjáls.
Þegar ég og dóttir mín sátum og borðuðum hamborgarana sagði dóttir mín mér að henni fyndist skárra að ég væri að fá mér nikótín tyggjó heldur en ef að ég væri að reykja af því að það væri minna nikótín í tyggjóinu. Ég spurði hana hvernig hún vissi það og hún svaraði: „af því að ég veit bara svona hluti”. Svolítið spes stelpa.
Endaði daginn á spjalli við uppáhalds nágranna minn fr. B. Við spjölluðum um hluti sem ungar, hressar og einstæðar konur spjalla um á föstudagskvöldum. Hún er sko full af fróðleik og minnti mig á hin gilda gamla sannleika, að karlmenn eru eins og bílastæði. Ég er reyndar ekki sammála. Það eru fullt af lausum stæðum sem eru samt ekki fötluð.
Shit, er þessi færsla kannski aðeins of persónuleg? Ég er að verða nojuð yfir þessu bloggi mínu. Já, minni lesendur á að ég heiti Elísabet og er 22 ára rauðhærður Hafnfirðingur.