sunnudagur, ágúst 27, 2006

Ást í draumi

Ég vaknaði rosalega ástfangin í morgun. Ég dreymdi að Jón Sæmundur væri kærastinn minn. Við vorum mjög hamingjusöm í draumnum. Rétt áður en við vöknuðum, eða reyndar áður en ég vaknaði ég veit ekki í alvörunni hvenær hann vaknaði, vorum við einmitt að ræða það hvað það væri gaman hvað við næðum vel saman.

Nú veit ég ekki alveg hvernig draumar virka nákvæmlega. Eru draumar kannski endurspeglun á löngunum undirmeðvitundar? Ég hef samt aldrei verið heit fyrir Nonna, ég kallaði hann Nonna í nótt. Ég þekki Nonna heldur ekki neitt, hef bara verslað af honum jakka sem hann reyndar gaf mér afslátt af. En hann er nú kannski ekki beint mín týpa. Kannski er þessi draumur að segja mér að það er kominn tími á nýjan bol. Í draumnum bað Nonni mig um að vinna af og til í búðinni sinni sem ég hlakkaði mikið til að gera.

Getur eitthver ráðið í þennan draum? Er ég á leiðinni í ferðalag? Á ég að kaupa lottó miða?

laugardagur, ágúst 26, 2006

FF-Frábær föstudagur

Ég er að vinna á líflegum og skemmtilegum vinnustað. Í dag fórum við í körfubolta til þess að styrkja starfsandann. Alveg merkilegt hvernig ljúfasta og rólegasta fólk í bænum breytist þegar það fær bolta í hönd.

Vinkona mín hringdi og bað mig að koma með sér á rokktónleika. Hún er eitthvað að blikka hljómsveitargaur. Brain Police, Deep Jimi & The Zep Creams, Dikta, Telepathetics og Wulfgang voru að spila og því var það bara gaman. Þetta var samt meira eins og að vera á hljómsveitaræfingu með böndunum. Það hefur greinilega enginn nema við og nokkrir unglingar vitað af þessum tónleikum, jú og Pétur pönkari. En Pétur pönkari veit líka allt, eða næstum allt. Hann veit að það er fyrir neðan okkar virðingu að vera grúbbíur, sem við erum einmitt ekki.

Það var föstudagsflipp hjá mér og dóttur minni í kvöld. Þegar við flippum saman á föstudögum förum við stundum á American Style. Á leiðinni á AS sagði dóttir mín mér að hún væri rétt í þessu að muna hvað gerðist rétt áður en hún var sett í magann á mér. Hún sem sagt man að það voru fullt af pörum að fara að búa til barn, einn maður og ein kona, og hún mátti velja sér eitt par sem yrðu hennar foreldrar. Hún sá par sem henni leist rosa vel á og ætlaði að velja en var of sein, annað barn varð á undan henni. Hún lét þess vegna mig og pabba sinn nægja. Hún lagði áherslu á að við vorum ekki hennar fyrsta val. En núna átta árum seinna er hún bara rosa fegin að hitt parið var frátekið.

Fyrir framan mig og dóttir mína, í röðinni á AS, voru nokkrir hressir gaurar(enda föstudagskvöld). Einn sagði við hina að þeir ættu að leyfa einstæðu mömmunni að vera á undan þeim. Vinur hressa gaursins spurði þá hvernig hann vissi að ég væri einstæð móðir (allan tíman töluðu þeir óviðeigandi hátt þannig að ég myndi örugglega heyra). Hressi gaurinn sagði þá; af því að hún er rosa sæt en samt með þetta reiða lúkk. ÉG? Ég fór því fram fyrir þá í röðinni og brosti rosalega blíðlega og sagði „takk fyrir að leyfa okkur að vera undan” bara til þess að leggja áherslu á hvað ég er rosa blíð og ekki reið. Svo reyndar fór ég að hugsa þetta og varð rosa reið og gekk á borðið til þeirra og öskraði „þú getur bara sjálfur verið reiður, fáviti”. Nei ég gerði það reyndar ekki, enda er ég hamingjusöm, glöð og frjáls.

Þegar ég og dóttir mín sátum og borðuðum hamborgarana sagði dóttir mín mér að henni fyndist skárra að ég væri að fá mér nikótín tyggjó heldur en ef að ég væri að reykja af því að það væri minna nikótín í tyggjóinu. Ég spurði hana hvernig hún vissi það og hún svaraði: „af því að ég veit bara svona hluti”. Svolítið spes stelpa.

Endaði daginn á spjalli við uppáhalds nágranna minn fr. B. Við spjölluðum um hluti sem ungar, hressar og einstæðar konur spjalla um á föstudagskvöldum. Hún er sko full af fróðleik og minnti mig á hin gilda gamla sannleika, að karlmenn eru eins og bílastæði. Ég er reyndar ekki sammála. Það eru fullt af lausum stæðum sem eru samt ekki fötluð.

Shit, er þessi færsla kannski aðeins of persónuleg? Ég er að verða nojuð yfir þessu bloggi mínu. Já, minni lesendur á að ég heiti Elísabet og er 22 ára rauðhærður Hafnfirðingur.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Kort í USA

Eins og ef til vill glöggir lesendur síðu vaffarans hafa gert sér grein fyrir er frú Auja flutt til Ameríku. Þar sem að Kort fjölskyldan, eins og hún kallar sig, er farin að blogga er eins og við séum öll þar með henni. Víhíhíhí. Mig hefur einmitt dreymt um að fara Minneapolis.
http://www.kortarinn.blogspot.com/

mánudagur, ágúst 21, 2006

Trigger Happy TV

Þá er ég formlega flutt. Allt komið á sinn stað. Allt nema ein þvottavél. Hver veit nema að ég haldi smá teiti fljótlega. Ég mun þá væntanlega baka nokkrar pönnukökur og segja brandara. Það er nú það sem ég geri best. Já ég er sannkölluð grínstelpa. Alltaf til í smá glens og grín. Fólk sem þekkir mig talar einmitt um það hvað ég er mikil grínstelpa. Fólk sem þekkir mig ekki talar ekki um að ég sé grínstelpa.

Bergþóra, sem að hefur aftur unnið titilinn besti nágranninn, er núna með skáp fullan af DVD diskum sem hún neitar að segja mér hvaðan koma. Það er svo sem allt í lagi. Fyrr í kvöld fékk ég lánaða þætti sem heita Trigger Happy TV . Ég hef því setið heima í kvöld og flissað eins og smástrákur.

Já og eitt til viðbótar. Ég skil ekkert af hverju teljarinn minn færist alltaf úr stað. Eins og ég hef svo oft sagt; vegir drottins eru órannsakanlegir.

Dagbók helgarinnar

Föstudagur:
Fór að vinna
Héld áfram að flytja
Hætti á föstu
Keypti ís og hlustaði á Siened O´Connor

Laugardagur:
Fór í spinning
Raðaði í hillur
Var hress í partýi hjá Bergþóru
Fór í miðbæin og sá fólk og flugelda
Hætti að reykja

Sunnudagur
Þreif gömlu íbúðina
Fór í afmæli og söng afmælissöng
Borðaði pitsu
Drakk kaffi með Möggu H.
Byrjaði að reykja
Las bók fyrir dóttir mína
Fór að sofa

Sem sagt himensk helgi eða bara HH eins og svo oft er sagt.

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Faðir vor

Á næsta laugardag er mér boðið í afmælisveislu. Ég er full af tilhlökkun. Þetta verður örugglega skemmtilegasta afmælið í ár. Ég hélt ekki uppá mitt afmæli þannig að í þykjustunni getur þetta verið afmælið mitt, bara svona í hausnum á mér.

Pétur vinur minn hefur lofað að láta dólgslega með mér, segja dónabrandara, hella niður, grípa fram í, hlægja sjúklega hátt og í hvert skipti sem að eitthver reynir að segja skemmtilega sögu ætla ég að segja: „það er nú ekki neitt, ég hef gert miklu verri hluti“. Líklega verður mér hent út.

Nei, þetta myndi ég reyndar aldrei gera í afmæli. Ég ætla bara að mæta í sparifötum með pakka og bros á vör.

Já ég hef verið að velta því fyrir mér að byrja að blogga undir öðru nafni. Mér líður stundum eins og persónulega trúbatornum. Sem er ömurlegt.

Góða nótt. Ég ætla að leggjast á bæn. Ég ætla biðja guð um að láta alla í heimi elska mig ógeðslega mikið.

laugardagur, ágúst 12, 2006

Fyrirsögnin

Vaffarinn (33) gagnkynhneigð og stolt var bara heima í dag!

mánudagur, ágúst 07, 2006

Frú Auja í USA

Frú Auja er flutt til Ameríku. Það var gaman í kveðjupartýinu hennar. Bara með betri partýum. Allir voða fínir og sætir og sorgmættir. Sumir héldu ræðu og rifjuðu upp gamla tíma með Auja . Margir minntust á þeirra fyrstu kynni af Auju. Sjálf man ég ekki hvenær ég sá hana fyrst. En samt svona ca. Ég var ekkert hrædd við hana eða neitt slíkt, eins og einhver minntist á í ræðu sinni. Nei mér líkaði vel við Auju frá fyrsta degi, enda annað ekki hægt. Ég ætlaði að halda ræðu í kveðjupartýinu en hætti við þegar að ég fann að ég myndi án efa bresta í grát. Ekkert er verra en að gráta fyrir framan annað fólki, jú eitt er verra að verða vitni af fullorðnu fólki gráta. Nei takk ekki fyrir mig. Ég er nokkuð viss um að Auja hefur það fínt í Ameríku. Vona að hún sé samt ekki í einhverju Ameríkurugli, maður hefur heyrt af fólki sem að dettur í Ameríkurugl. Það er víst voðalegt. Já ég get ekki sagt annað en að mér þyki vænt um þessa hnátu. Sérstaklega þykir mér vænt um að hún skuli hafa munað eftir afmælisdeginum mínum. Það þykir fáum afmælisdagar annarra eitthvað sérstaklega spes, mér þykir ekki einu sinni minn eigin neitt sérstaklega spes. Það hefur ekki verið neitt sérstakt afrek að lifa þetta ár af. Kannski eftir svona, ja ég veit ekki, ca 30 ár þegar ég er alveg um það bil að deyja þá mun ég fara fram á afmæliskveðjur. Því þá veit maður aldrei, þá verður örugglega rosa erfitt að deyja ekki á milli afmælisdaga. Held ég. Já ég á sem sagt afmæli í dag. Allý er alltaf eitthvað að gefa í skyn að ég segi aldrei satt, þar að segja að ég yngi mig alltaf um nokkur ár þegar að ég er spurð hvað ég sé gömul. Þetta er rétt hjá Allý, og ég viðurkenni að þetta er slæmur ávani. Ég er sem sagt 43 ára í dag, en mér líður samt eins og ég sé yngri.

laugardagur, ágúst 05, 2006

Gleðilega verslunarmannahelgi

Ég hef alls ekki verið dugleg við að setja myndir inná þessa síðu mína. Enda er nú ekki hægt að segja að ég sé fyrirmyndar bloggari. Ég hef hér sett inn nokkrar myndir af því fallega fólki sem að ég eyddi tíma með í Köben núna um daginn, af því að ég kann það. Ótrúlega hresst lið!