miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Tilkynning.

Sem sjálfskipaður formaður Rokkklúbbsins vil ég koma því á framfæri að klúbburinn er síður en svo dauður, ekki frekar en rokkið sjálft. Ég mun taka fram fyrir hendurnar á henni Auðbjörgu og sjá um skipulag næsta samkvæmis. Það er gert í fullu samráði við hana Auðbjörgu sjálfa, sem hefði samkvæmt tímaplani átt að vera næst í röðinni.

Ekki er komin nákvæm tímastening á næstu skemmtun, en ég geri ráð fyrir að hún verði haldin á bilinu 15.-24. des. Undibúningur skemmtiatriða er núþegar hafinn. Eitt af skylduverkum samkvæmisins verði að velja nýjan meðlim í klúbbinn.

Ég nota þennan vettvang til að koma þessari tilkynningu á framfæri vegna þess að ég veit að margar ykkar skoðið þessa síðu af og til. Sumar ykkar mættu vera duglegri við að koma með skemmtileg komment, en við ræðum það betur síðar.

Með kærri vinakveðju,
Margrét

laugardagur, nóvember 26, 2005

Bloggnafn.

Fór allt í einu að spá í því hvað nafnið á bloggsíðunni minni er sjúklega púkó. Einkamál, en samt ekki! Ég sko setti þetta þarna í upphafi, bara svona þangað til að mér myndi detta eitthvað sniðugt í hug. Ég hef alveg gleymt að láta mér detta eitthvað sniðugt í hug. Shit! Eins og þeir sem þekkja mig vita þá hræðist ég ekkert eins mikið og það að ef til vill þyki einhverjum ég púkó. Núna þykir kannski alveg fullt af fólki ég vera púkó. Djöfull er þetta ömurlegt líf stundum.

Jæja ok, ég reyni að finna eitthvað út úr þessu.

Ég á alveg þó nokkrar ágætis vinkonur sem að ég held að líki bara ágætlega við mig(bara eins og ég er, eða þannig?).

En verst er að ég er ekki gengin út ennþá, og já ekki hægt að gera ráð fyrir að maður hafi séns í einhverja gaura þegar maður er púkó alla daga.

Rosalega fyndin og viðeigandi fyrirsögn.

Já alveg finnst mér þetta stórmerkilegt. Það bregst ekki að þegar mikið liggur við og verkefna búnkarnir bíða eftir mér þá finn ég einhverja óstjórnlega þörf til þess að sitja við tölvuna og lesa einhverjar gagnlausar upplýsingar á netinu, eða horfa á enn einn læknaþáttinn í sjónvarpinu eða velja á milli ólíkra piparköku uppskrifta. Þetta er sá tími árs þegar skólafólk má helst ekki láta neinn tíma fara til spillist, en samt á ég aldrei eins erfitt með það að einbeita mér og ákúrat þá. Og núna er ég ekki bara háskólanemi heldur háskólanemi í tveimur vinnum. Sko, það er ekki bara það að ég finni mér eitthvað mjög svo tilgangslaust að gera, ég festist líka í tilgangslausum hugsunum. Þessi bloggfærsla er ágætis dæmi um hugarástand mitt núna. Ekkert merkilegt að gerast hér.

Ég veit ekki hvort að þetta vandamál er algengt eða hvort að það sé til lyf við þessu, eða einhver önnur lausn, kannski einhver drykkur sem seldur er í heilsuhúsinu. Ég vona að þetta gangi yfir, ég vona að á morgun hafi ég öðlast þann aga sem þarf.

Ég kannski horfi á meira Dallas og ræðst svo í einn búnkann. Já og by the way, ég fékk fyrstu Dallas þættina að láni hjá vinkonu minni og þeir eru svo miklu skemmtilegri en mig minnti. Allir leikararnir eru líka miklu yngri en mig minnti, J.R. er bara venjulegur gaur um þrítugt, en ekki gamall kall með bumbu eins og mér fannst hann vera þegar ég sat heima á mánudagskvöldum og horfði á Dallas í gamla daga. Eða var það á miðvikudögum? Allavega ekki á fimmtudögum, því að þá var séð til þess að allir hefðu fjölskyldukvöld og þar af leiðandi ekkert sjónvarp. Já skemmtilegt hvernig sömu hlutirnir horfa öðruvísi við svona þó nokkrum árum seinna. Ætli unglingum finnist ég vera gömul kona með bumbu? Oj, ég svo sannarlega vona ekki.

mánudagur, nóvember 21, 2005

Já aldeilis fín helgi(æji hálfgerð dagbókarfærsla).

Á milli þess að vera í teiti, á tískusýningu, skrifandi ritgerð og á alveg hreint frábærum tónleikum horfði ég á gamla Dallas þætti um helgina.

Hún Andrea vinkona mín er svo sniðug. Hún mætti með nokkur gömul Áramótaskaup frá '80-'90 í síðasta partý og svo um helgina kom hún með fyrstu fimm Dallas þættina. Það er mælst til þess að við mætum með tilbúið skemmtiatriði í hvert sinn sem við hittumst, sem er gaman.

Ég sem sagt fékk Dallas með mér heim og er búin að vera kíkja á um helgina. Ég var búin að gleyma hvað þetta eru rosalega skemmtilegir þættir, J.R. alltaf jafn vondur, Su Ellen alltaf jafn drykkfelld, Pamela alltaf jafn máluð, Lucy alltaf með jafn stór brjóst(reyndar voru þau stærri í minningunni), Bobby alltaf í jafn þröngum buxum, Cliff alltaf að reyna að vera edrú og Ray alltaf jafn hress.

Já og The White Stripes tónleikarnir voru æði, bestu tónleikar sem ég hef farið á held ég.

Þangað til næst, hafðu það gott.

laugardagur, nóvember 19, 2005

Jæja..

Einn dagur í The White Stripes og spennan orðin alveg hreint mögnuð!

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Áskorun frá www.maggabest.blogspot.com

Fimm atriði sem fara í taugarnar á mér;

fólk sem segir; konur eru svo viðkvæmar
fólk sem segir; karlar hugsa bara um kynlíf og íþróttir
fólk sem segir; hommar hafa svo mikið vit á tísku
fólk sem segir; svertingjar eru svo góðir dansarar
fólk sem segir að allt sé krúttlegt.

Takk fyrir mig.
Few people are capable of expressing with equanimity opinions which differ from the prejudices of their social environment. Most people are even incapable of forming such opinions.
- Albert Einstein

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Rokk og ról.

Skjár 1 er farinn að sýna rokk raunveruleikaþátt, svolítið eins og Idolið. Þátturinn heitir Rock Star INXS og er sá þáttur sem ég missi helst ekki af núna. Rock Star og Sjáumst með Silvíu nótt, þegar þeir eru á dagskrá þá er ég heima.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Bakþankar Jóns.

Ég hef alltaf gaman af honum Jóni Gnarr. Nenni yfirleitt ekki að lesa bakþanka Fréttablaðsins nema að þeir séu hans. Í dag spyr hann af hverju íslenski batsélorinn sé ekki kallaður réttu nafni; Íslenski hórkallinn. Hann er alveg örugglega ekkert að reyna að vera fyndinn í þessari grein sinni en fær mig samt til að brosa.

Afbrotafræðingur semur ljóð í frístundum..

Langar að birta hér fallegt ljóð sem hún fallega og einlæga vinkona mín, hún Auja, samdi. Ég hef reyndar ekki fengið hennar leyfi til þess að birta þetta, en ég er bara svo ósvífin.

Margrét er svo flott og fín
bæði brött og lín.
Best að vera góður við hana
annars gæti það orðið mér að bana.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Ástin sem spyr hvorki um stétt né stöðu.

Í gærkvöldi var ég að vinna á tölvuna mína þegar ég fékk sms skilaboð um að kærastinn minn væri í sjónvarpinu, 10 sekúndum síðar fékk ég sömu skilaboð, frá annarri manneskju, með msn uppá skjáinn minn, þ.a.s. að kærastinn minn væri á RUV. Þrátt fyrir að ég sé nokkuð viss um að ég eigi ekki kærasta þótti mér samt vissara að kveikja á sjónvarpinu og athuga málið. Ég fór að velta fyrir mér hvort að ungur, ekki svo ungur samt, vinur hefði misskilið mig og sagt fólki að ég væri kærastan hans, og hvort að hann væri í sjónvarpinu. En nei þarna var hann, maðurinn sem hvarf úr lífi mínu síðasta vor eins hratt og hann hafði komið inní líf mitt. Hin rauðhærði, yndisfagri, rannsóknalögreglumaður Luke Stone. Breski sakamálaflokkurinn Ódáðaborg (Murder City) hefur sem sagt hafið göngu sína á RUV á ný.
Í þetta sinn ætla ég bara að njóta þess tíma sem við höfum saman en hafa ekki áhyggjur af því hvað framtíðin ber í skauti sér.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Klám...úlala

Sem hluti af verkefni í skólanum hef ég verið að lesa mér til um og skrifa um klám. Ég er búin að horfa á nokkrar heimildamyndir um klámbransann og lesa greinar sem hafa verið skrifaðar af alls konar fólki, bæði fræðigreinar og aðrar. Ég hef komist að því að skilgreiningar á klámi eru margar og ólíkar. Áður en ég byrjaði á þessu verkefni var klám í mínum huga myndir sem sýndu kynfæri og kynlíf á mjög skýran hátt, annars erfitt að skilgreina það og liggur því helst við að segja eins og hin frægi bandaríski dómari; ég get ekki skilgreint klám en ég þekki það þegar ég sé það. Mér hefur aldrei þótt standa nein sérstök ógn af klámi sem slíku, allavega ekki mikið meiri ógn heldur en af mörgum tískublöðum. Klámmyndir og tískublöð eiga það sameiginlegt að draga upp einhverja mynd sem ekki er raunveruleg( t.d. þá eru ekki allir karlar með risa lim og alltaf tilbúnir, konur í tískublöðum eru photoshopaðar).

Samkvæmt 210. grein almennu hegningarlaganna er klám ólöglegt. Í lagagreininni er ekki skilgreint hvað klám er nákvæmlega en þar kemur skýrt fram að það er hættulegt samfélaginu. Margar af þeim skilgreiningum á klámi sem ég hef verið að lesa eru á þá leið að í klámi felist einhverskonar niðurlæging eða ofbeldi. Ein skilgreining segir (í stuttu máli) að klám sé efni sem hlutgerir konur kynferðislega með niðurlægingu og ofbeldi(hmmm en hvað með karla, er þá ekki til neitt hommaklám?).
Ástæðan fyrir því að ég er að skrifa um þetta hér og nú er að mér er það óskiljanlegt af hverju er alltaf verið að draga ofbeldi og niðurlægingu inní þessa umræðu. Ég veit að margar klámmyndir innihalda ofbeldi og niðurlægingu, en það gera líka hasarmyndir, sápuóperur, grínmyndir, sakamálaþættir og annars konar myndir.

Myndir sem sýna fólk í kynferðislegum stellingum en vísað hefur verið í ofbeldi hef ég ekki litið á sem klám heldur sem ofbeldi. Myndir sem sýna fólk í kynferðislegum stellingum á niðurlægjandi hátt hefur mér þótt vera blanda af klámi og ofbeldi. Að vísu er ekki hægt að ganga út frá því að það sem mér þyki niðurlægjandi þyki einnig öðrum niðurlægjandi á sama hátt. Mér þætti t.d. frekar niðurlægjandi fyrir mig að vera þátttakandi í Íslenska Bachelornum, en geri mér fulla grein fyrir því að stúlkurnar sem eru hluti af þættinum að keppa um hylli piparsveinsins þykir þetta síður en svo niðurlægjandi. Ég hef ekki talið niðurlægingu í klámmyndum vera neitt annars konar en niðurlæging í öðrum myndum. Er íslenski piparsveinaþátturinn klám?

Stundum er talað um barnaklám. Er til eitthvað barnaklám? Barnaklám hefur mér aldrei þótt vera klám í þeim skilningi sem ég hef lagt í orðið klám heldur einfaldlega ofbeldi. Ég hef aldrei talið að börn geti á nokkurn hátt talist vera kynverur og hafi aldrei þann þroska sem þarf til til þess að samþykkja nokkurs konar kynlíf. Þar sem að börn eru ekki kynverur og geta ekki samþykkt kynlíf þá hef ég talið að kynlíf með börnum eða kynferðislegar myndir af börnum hljóti alltaf að vera ofbeldi en ekki klám á sama hátt og ég hef verið þeirrar skoðunar að nauðgunaratriði í bíómynd sýni alltaf ofbeldi en ekki klám. Auðvitað á að banna með lögum allt ofbeldi hefur átt sér stað við gerð myndar eða vísað er í barnaofbeldi(barnaklám).

Allavega, mín skoðun er sú að það myndi gagnast betur að aðgreina kynlíf tveggja fullorðinna einstaklinga sem hafa samþykkt að stunda kynlíf saman og einhverju ofbeldi þannig að hægt sé að framfylgja íslenskum lögum.

mánudagur, nóvember 07, 2005

Fjölmiðlavaktin.

Talandi um að fara í sleik.
Á sama tíma og ég er að krúsa um internetið er ég að horfa á þáttinn Strákarnir á Stöð 2. Miklir grín strákar. Þeir fóru í fjölbrautarskóla og borguðu stúlku 20.000 þús. fyrir að fara í sleik við Pétur. Já svona eru þeir miklir flipparar. Hvað ætli þeir hefði þurft að borga stúlkunni fyrir að koma við brjóstin á henni. Pétur sagði að þarna hefði hann náð botni á sínum ferli. Okay.