Sem hluti af verkefni í skólanum hef ég verið að lesa mér til um og skrifa um klám. Ég er búin að horfa á nokkrar heimildamyndir um klámbransann og lesa greinar sem hafa verið skrifaðar af alls konar fólki, bæði fræðigreinar og aðrar. Ég hef komist að því að skilgreiningar á klámi eru margar og ólíkar. Áður en ég byrjaði á þessu verkefni var klám í mínum huga myndir sem sýndu kynfæri og kynlíf á mjög skýran hátt, annars erfitt að skilgreina það og liggur því helst við að segja eins og hin frægi bandaríski dómari; ég get ekki skilgreint klám en ég þekki það þegar ég sé það. Mér hefur aldrei þótt standa nein sérstök ógn af klámi sem slíku, allavega ekki mikið meiri ógn heldur en af mörgum tískublöðum. Klámmyndir og tískublöð eiga það sameiginlegt að draga upp einhverja mynd sem ekki er raunveruleg( t.d. þá eru ekki allir karlar með risa lim og alltaf tilbúnir, konur í tískublöðum eru photoshopaðar).
Samkvæmt 210. grein almennu hegningarlaganna er klám ólöglegt. Í lagagreininni er ekki skilgreint hvað klám er nákvæmlega en þar kemur skýrt fram að það er hættulegt samfélaginu. Margar af þeim skilgreiningum á klámi sem ég hef verið að lesa eru á þá leið að í klámi felist einhverskonar niðurlæging eða ofbeldi. Ein skilgreining segir (í stuttu máli) að klám sé efni sem hlutgerir konur kynferðislega með niðurlægingu og ofbeldi(hmmm en hvað með karla, er þá ekki til neitt hommaklám?).
Ástæðan fyrir því að ég er að skrifa um þetta hér og nú er að mér er það óskiljanlegt af hverju er alltaf verið að draga ofbeldi og niðurlægingu inní þessa umræðu. Ég veit að margar klámmyndir innihalda ofbeldi og niðurlægingu, en það gera líka hasarmyndir, sápuóperur, grínmyndir, sakamálaþættir og annars konar myndir.
Myndir sem sýna fólk í kynferðislegum stellingum en vísað hefur verið í ofbeldi hef ég ekki litið á sem klám heldur sem
ofbeldi. Myndir sem sýna fólk í kynferðislegum stellingum á niðurlægjandi hátt hefur mér þótt vera blanda af klámi og ofbeldi. Að vísu er ekki hægt að ganga út frá því að það sem mér þyki niðurlægjandi þyki einnig öðrum niðurlægjandi á sama hátt. Mér þætti t.d. frekar niðurlægjandi fyrir mig að vera þátttakandi í Íslenska Bachelornum, en geri mér fulla grein fyrir því að stúlkurnar sem eru hluti af þættinum að keppa um hylli piparsveinsins þykir þetta síður en svo niðurlægjandi. Ég hef ekki talið niðurlægingu í klámmyndum vera neitt annars konar en niðurlæging í öðrum myndum. Er íslenski piparsveinaþátturinn klám?
Stundum er talað um barnaklám. Er til eitthvað barnaklám? Barnaklám hefur mér aldrei þótt vera klám í þeim skilningi sem ég hef lagt í orðið klám heldur einfaldlega
ofbeldi. Ég hef aldrei talið að börn geti á nokkurn hátt talist vera kynverur og hafi aldrei þann þroska sem þarf til til þess að samþykkja nokkurs konar kynlíf. Þar sem að börn eru ekki kynverur og geta ekki samþykkt kynlíf þá hef ég talið að kynlíf með börnum eða kynferðislegar myndir af börnum hljóti alltaf að vera ofbeldi en ekki klám á sama hátt og ég hef verið þeirrar skoðunar að nauðgunaratriði í bíómynd sýni alltaf ofbeldi en ekki klám. Auðvitað á að banna með lögum allt ofbeldi hefur átt sér stað við gerð myndar eða vísað er í barnaofbeldi(barnaklám).
Allavega, mín skoðun er sú að það myndi gagnast betur að aðgreina kynlíf tveggja fullorðinna einstaklinga sem hafa samþykkt að stunda kynlíf saman og einhverju ofbeldi þannig að hægt sé að framfylgja íslenskum lögum.