miðvikudagur, maí 31, 2006

Samskipti en ekki hamskipti

Guð kom til mín í nótt. Hann sagði; Margrét þar sem að ég veit ekki um neina manneskju sem að er betri í mannlegum samskiptum en þú vil ég að þú farir að bera út boðskapinn. Ég vil að þú hjálpir fólki sem ekki hefur enn séð ljósið.
Þannig að þá er það komið á hreint, ég þarf að setjast niður og skrifa bók um mannleg samskipti, bók sem mun væntanlega hjálpa milljónir manna. Þessi bók mun fjalla um hvernig á að tala af heiðarleika við annað fólk, hvernig best er að opna sig og segja fólki það sem að maður er að hugsa. Þessi bók mun væntanlega bjarga mörgum hjónaböndum. Ég sé þetta mjög skýrt allt núna, ég er svona kona sem að kann allar þær tjáningar reglur sem að fólk þarf að kunna, þá sérstaklega í samskiptum kynjanna. Samskipti kynjanna virka ef til vill flókin í huga margra en þegar að fólk lærir þær reglur sem að ég hef verið að fara eftir þá mun allt ganga eins og í sögu, eins og í ástarsögu.

Hjúkkan á neðri hæðinni

Það er fátt betra í heimi þessum en góðir nágrannar. Í gærkvöldi varð ég frekar lasin og þurfti á hjúkrun að halda. Í stað þess að keyra uppá slysó og heimta sárabindi á höfuðið bankaði ég uppá hjá konunni á neðri hæðinni og spurði hvort að hún gæti séð sér fært um að gefa mér fimm mínútur af sínum tíma. Og þar sem að hún er svo óstjórnlega ljúf þá bauð hún mér inn þar sem að hún bauð uppá góð ráð og súkkulaði. Ég afþakkaði súkkulaðið en þáði ráðin góðu. Í dag er ég frísk og alveg einstaklega þakklát.

mánudagur, maí 29, 2006

Hið ljúfa líf

Undanfarna daga hef ég setið hér heima og unnið að verkefni sem að tengist geðheilsu. Þessi vinna hefur orðið til þess að ég hef farið að velta fyrir mér minni eigin geðheilsu. Mér er það nokkuð ljóst að ég er þannig kona sem að get ekki tekið góðri geðheilsu sem sjálfsögðum hlut. Það nægir ekki að borða hollan mat og hreyfa sig, maður verður víst líka að huga að toppstykkinu, eins og einhver kallar það. Eins og þegar að ég verð vör við líkamlega kvilla, eins og að hnerra þegar að ég er með kvef, þá eru líka merki um andlega kvilla. Þegar að ég;
1. öðlast þann hæfileika að lesa hugsanir fólks
2. hætti að tala við fólk vegna þess að ég geri ráð fyrir að það geti lesið mínar hugsanir
3. eyði kvöldstund í að finna út góða leið til að hefna mín á fólki fyrir eitthvað sem að ég man samt ekki alveg hvað var
4. furða mig á því af hverju geimverurnar sem að skildu mig eftir á þessari plánetu hafa ekki komið að sækja mig ennþá
5. fæ störu
6. hætti að lesa eftir að hafa lesið eina blaðsíðu af ótta við að lesa yfir mig
7. velti því fyrir mér af hverju þulan í sjónvarpinu sé að horfa á mig
8. trúi því að ég sé eina manneskjan í alheiminum sem að veit hver tilgangur lífsins er
9. loka augunum fast í eina mínútu og furða mig á því að uppvaskið sé ennþá í vaskinum þegar að ég opna augun
10. fer að spá í því hvaða lag ég ætli að syngja næst þegar að ég fer á Ölver

Þetta eru svona þau helstu atriði sem að mér dettur í hug núna, þau atriði sem að benta til þess að ég þurfi að fara að huga að minni andlegu heilsu. Kannski að ég skelli mér í jóga á morgun.

sunnudagur, maí 28, 2006

Fólk (Auja)

Já lífið og fólkið í kringum mann kemur manni stöðugt á óvart. Maður heldur að maður þekki einhvern en svo gerist eitthvað og maður skilur að ekkert er eins og maður heldur að það sé. Ekki að maður sé maður heldur er maður kona. Alltaf finnst manni jafn fyndið að setja alls staðar maður í staðin fyrir ég í texta. Það er eitthvað svo mikið Breiðholt, nei grín. Ég meina það þetta var djók með Breiðholtið. Ég hreinlega elska Breiðholtið og bjó þar í mörg ár, eða alveg þangað til að ég hafði aldur til þess að búa annars staðar.

Sko, ég var rétt í þessu að spjalla við eina ágætis vinkonu mína sem að var að opna sig og segja mér frá sínum dýpstu leyndarmálum. Hún tók nú ekkert fram að ég mætti ekki blogga um þetta. Hún grét og grét og sagði mér að hún væri í tilfinningalegu stjórnleysi, að hún væri gjörsamlega vanmáttug gagnvart sínum tilfinningum og að henni væri um megn að stjórna eigin lífi. Hún hefur þess vegna tekið þá ákvörðun um að ganga í samtök sem að kallast Emotions Anonymous, eða EA. Áður hefur þessi unga kona verið meðlimur í samtökum með skammstafanir á borð við AA, DA, SLAA, GA, NA, CA, OA, ALANON og fleirum sem að ég kann ekki við að nefna. En þetta er ekki nóg, hún þarf einfaldlega meira. Meira af öllu, hún er svona kona sem að fær ekki nóg. Þegar að þessi unga kona missti sig gjörsamlega í 10-11 um daginn og fór að gráta náði hún víst sínum botni í tilfinningarugli og fór á netið til að leita uppi EA. Það verður virkilega spennandi að fylgjast með henni, hvort að NÚNA loksins eigi eitthvað eftir að fara að gerast í hennar lífi. Innst innst innst inni er þessi unga kona mjög svo indæl. Hún hefur bara verið veik. Já ég óska henni svo sannarlega góðs gengis. Ég veit ekki hvort að það er við hæfi að nefna hana á nafn hér.

Þið lesendur sem að kannist við hana Auðbjörgu, eða Auju tár eins og hún er stundum kölluð, ættuð að vanda ykkur betur þegar að þið hittið hana, reynið að sýna smá samúð og skilning. Það eru ekki allir fullkomnir.

Varúð skal höfð í nærveru viðkvæmrar sálar!

Lotto svindl

Aldrei skal ég aftur kaupa Lotto miða. Ég hef ekki tekið þátt í þessum vikulega Lotto leik fyrr en í gær. Ég sá það auglýst að það væri fjórfaldur pottur og í honum væru 170 milljónir. Ég hugsaði með mér að auka peningur kæmi sér afar vel hjá mér núna, og ég tala nú ekki um ef að þessi auka peningur væri margar milljónir. Ég fór þess vegna í búðina og keypti ekki eina röð heldur tíu raðir. Þetta kostaði heilan þúsund kall sem að ég þurfti að fá lánaðan hjá kærastanum mínum þar sem að það er víst ekki hægt að kaupa Lotto með kredit korti. Ég beið svo spennt eftir Lotto tölunum í gær og fór vandlega yfir miðann minn. Ég fékk engan vinning! Ég spyr mig nú bara að því hvað maður þurfi eiginlega að kaupa margar raðir til að fá vinning. Ég ætlaðist ekkert endilega til þess að fá allar þessar milljónir ein en gerði samt ráð fyrir að fá allavega nokkrar. Þetta finnst mér alveg hreint útí hött og í raun og veru bara alls ekki sanngjarnt. Núna samt þegar að ég hugsa betur um það þá var þetta kannski auglýsing frá Víkinga lottoinu, enda svolítið há upphæð í boði. Ég ætla að gefa þessu lottoi einn séns á miðvikudaginn og ef að ég fæ ekki vinning þá þá spila ég aldrei aftur með í þessum leik

föstudagur, maí 26, 2006

Komin heim.

Ástæðan fyrir því að ég hef ekki bloggað undanfarna 16 daga er að ég hef verið á ferðalagi um Afríku, svona Safarí ferð, og gat hvergi fundið nettengingu fyrir tölvuna mína. Ég eyddi líka mestum tíma inní frumskógi og svaf oftast í tjaldi, þannig að það voru nú ekki beint aðstæður til þess að fara að blogga eitthvað mikið. Þessi ferð var alveg hreint mögnuð. Afríkubúar eru alveg rosa hressir, og líka viðkunnanlegir og góðir. Eitt dæmi, ég var eitt kvöldið útí í skógi að fara að elda mér kvöldmat. Ég var að steikja mér svínakjöt og langaði í baunir með, en fattaði að ég var ekki með dósaupptakara, þannig að ég gekk aðeins um skóginn í nokkrar mínútur til að vita hvort ég myndi ekki hitta einhverja vingjarnlega nágranna og jú, ég hitti einmitt Afríkufjölskyldu sem að opnaði fyrir mig baunadósina. Alveg hreint magnað. Svo buðu þau mér í afríkanskt kaffi til sín daginn eftir, og við hlógum og hlógum saman að því þegar að ég hefði ætlað að fá mér baunir en var ekki verið með dósaupptakara. Ótrúlegt að fólk er einhvern veginn allt bara eins, hvort sem að það býr í frumskógum Afríku eða á stúdentagörðunum

miðvikudagur, maí 10, 2006

Enginn latur í latabæ

Ég er heima að lesa. Þrátt fyrir þetta yndislega veður þá er ég bara hérna inni, sem er í fínu lagi. Hvað ætti ég svo sem að vera gera, standa úti og brosa eins og fáviti, og segja við fólk sem að ég hitti; já það er nú aldeilis fínt veður í dag. Nei nei, reyndar er svona veður í algjöru uppáhaldi hjá mér. Það er hlýtt en samt ekki einhver skýnandi sól. Mér finnst skýnandi sól frekar óþolandi.

Það er leikskóli hér rétt fyrir utan hjá mér og ég er ekki að fá frið til að lesa fyrir tónlist sem að einhver óþolandi starfsmaður hefur ákveðið að spila fyrir börnin. Ég vorkenni þessum börnum. Svo er verið að syngja með, börnin eru ekki að syngja með heldur starfsmaðurinn. Ég ætti kannski að henta í hann tómat. Nei, það væri ekki við hæfi. Nema að tónlistin komi ekki frá leiksskólanum heldur Bergþóru, og kannski er Grímur að syngja með.

sunnudagur, maí 07, 2006

Hvernig ætli standi á því að teljarinn minn hafi færst þarna eitthvað niður? Nú er eins og hann fylgi einni bloggfærslunni. Skrítið.

laugardagur, maí 06, 2006

Það er leikur að læra

Já alltaf finnst mér jafn ótrúlega gaman að finna viðeigandi fyrirsagnir á bloggið mitt.

Ég hef tekið þá ákvörðun að vera sem lengst í námi. Ég ætla helst aldrei að hætta í skóla. Ég er núna að lesa fyrir próf sem ég fer í í næstu viku, og ég var að átta mig á því hvað þetta er ótrúlega skemmtilegt. Ég hreinlega elska að undirbúa mig fyrir próf. Sko af því að ég er núna á lokasprettinum á mínu grunnháskólanámi þá er líka gaman að ég skuli hafa áttað mig á því að ég hef lært ansi mikið síðastliðin þrjú ár. En þetta er samt þannig að eftir því sem að ég læri meira þá geri ég mér betur grein fyrir því hversu lítið ég veit og hversu mikið meira mig langar til að læra, eða bæta við þekkingu mína.

Þegar að ég var unglingur í fjölbrautarskóla þá lærði ég aldrei, aldrei, meira en ég þurfti til að geta fengið ágætis einkunn, en núna er ég að lesa vegna þess að mig langar til að vita meira. Ég er farin að skilja að með því að vita meira mun ég skilja meira og því meira sem að ég skil því skemmtilegra er að vera til.

Bara smá motivation pælingar í prófalestri.

föstudagur, maí 05, 2006

Kommúnísmi

Karl Marx á afmæli í dag. Eða hefði átt afmæli ef að hann væri ekki löngu dauður. Hann væri samt væntanlega ekki heima með veislu, hann væri örugglega bara á bókasafninu að reyna að klára síðasta bindið af Das Capital.

Bíómynda textabrot

Hún; Do you want me to make your life a living hell?
Hann; Uhh, no I´m not ready for a steady relationship with you yet.

Stundum poppa bara upp einhverjar línur úr bíómyndum. Ég fæ þær þá á heilan, eins og svo oft er sagt, eins og þetta sé lag sem að ég get bara ekki hætt að syngja.

miðvikudagur, maí 03, 2006

Hjónabandið

Ég hitti Beggu, Gunný og Maríu P. í mat í dag. Það er alltaf hressandi að hitta hressar konur, og þær voru jú hressar eins og venjulega. Mér fannst þær hressar alveg þangað til að þær komu með mjög svo harðann pólitískan áróður. Þá þurfti ég líka að fara að sinna öðru þannig að þetta var allt í fína lagi. Þrátt fyrir að mér finnist þær stundum vera frekar þröngsýnar þá þykir mér alveg jafn vænt um þær. Það er líka af því að ég er svo andlega þroskuð.

Begga var að segja okkur frá Dr. Phil þætti sem að hún sá um daginn þar sem að ungar amerískar konur sögðu frá því að þær vildu ekkert meira en að gifta sig, að þær upplifðu sig aðeins sem hálfar manneskjur ef að þær væru ógiftar komnar á þrítugsaldurinn. Já svona getur viðhorf fólks verið skrítið. Ætli íslenskar konur séu mjög ólíkar þeim amerísku að þessu leyti, kannski ekki eins ýktar. Þetta viðhorf kemur mér svo sem ekkert á óvart þar sem að allar þessar rómantísku amerísku bíómyndir ganga út á brúðkaup. Oftar en ekki er sú mynd dregin upp að konur, sem vilja einmitt ekkert heitara en að giftast, séu að reyna að draga einhvern gaur upp altarinu. Karlarnir, sem vilja vera piparsveinar sem lengst, láta stundum til leiðast eftir mikinn þrýsting frá kærustunni. Um daginn heyrði ég ungann mann segja frá því hvað hann var góður við unnustu sína þegar að hann settist niður með henni til að skoða tímarit sem að fjallar um brúðkaup.

Er þetta kannski bara svona einfald; konur hafa áhuga á brúðkaupum en karlar á klámi?

En svona í alvörunni hver græðir meira á því að ganga í hjónaband? Það er nú bara þannig að rannsóknir sem að hafa verið gerðar á streitu fólks leiða í ljós, bæði í Bandaríkjunum og hér á Íslandi, að þeir hópar sem að upplifa mesta streitu í sínu lífi eru giftar konur og ógiftir karlar. Það er meðal annars fjallað um þetta í skemmtilegri bók eftir Jessie Bernand sem að heitir The Future of Marriage og í mastersritgerð eftir Gyðu Margréti.

Jæja ég þarf nú að fara að snúa mér að alvöru lífsins, sem eru vísindaheimspekilegar forsendur kenninga í félagsfræði.

Ég var í raun bara að blogga svo að Allý myndi hætta við að henda mér út af tengla listanum sínum.