fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Whitesnake

Já hvað getur maður sagt. Allý spyr hvort ég hafi verið í rugli á mínum unglingsárum, hvort það sé ástæða þess að ég vilji helst ekki muna eftir þeim. Þrátt fyrir að þessi spurning sé varla svaraverð þá ætla ég samt að svara henni. Auðvitað var ég ekki í rugli á mínum unglingsárum, ekkert frekar en í dag. Ég hef alltaf verið til fyrirmyndar. Alveg frá blautu barnsbeini hef ég kunnað mér hóf í öllu sem einu, ég hef verið kurteis og prúð. Þannig er ég bara. Ástæða þess að ég vil helst ekki muna eftir mínum unglingsárum er einföld. Herðapúðar, Millet úlpa, götóttar gallabuxur og WhiteSnake!

Annars þarf ég að fara að sofa og má ekki vera að því að standa í þessu. Samt hef ég ljótan grun um að ég eigi eftir að eiga erfitt með svefn vegna tilhlökkunar. Það hefur bitnað á mínum nætursvefni alveg frá því í byrjun októbermánaðar hvað ég er mikil jólastúlka. Þessi tilhlökkun á kannski eftir að valda mér magasári. Núna er tilhlökkunin meiri en venjulega þar sem það er einum degi færri til jóla en var í gær, og svo bætist tilhlökkun vegna Rokkklúbbs næstkomandi föstudagskvöld ofaná allt saman. Á næsta föstudag fáum við nýjan meðlim í klúbbinn. Það hefur farið ansi mikill tími undanfarna daga í að undirbúa viðeigandi vígslu fyrir hana Allý. Ég vona bara að hún muni koma til með að meta þetta allt saman. Já ástandið á mér síðustu daga hefur ekki verið uppá marga fiska. Ég hef samt haldið mig frá svefntöflum og drukkið mikið af Sleepytime tei. Teið virkar ágætlega þangað til að ég vakna með fulla þvagblöðru. En nóg um það í bili.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Koddaslag?

Fröken B bauð mér í mat í gær. Hún bauð uppá hollan og góðan fisk. Þegar við sátum saman í sofanum eftir matinn, að horfa á unglingaþátt á Skjá einum, spurði fröken B mig af hverju við færum aldrei í koddaslag. Ég sagði henni að við gætum alveg farið í koddaslag einhverntímann, að mig langaði einmitt í koddaslag. Ég hef séð fólk í auglýsingum, unglingaþáttum og bíómyndum í koddaslag en hef aldrei prófað það sjálf. Þar sem ég er orðin það gömul að ég er um það bil dáin hef ég ákveðið að byrja að lifa lífinu til hins ítrasta. Ég hef því lofað sjálfri mér að fara í koddaslag áður en árið er á enda.

sunnudagur, nóvember 26, 2006

Síðbúin Edda

Síðasta sunnudagskvöld horfði ég á Edduna á Ruv og hafði bara gaman að. Ómar Ragnarsson var valin sjónvarpsmaður ársins. Ástæða þess að ég er að spá í Edduna og sjónvarpsmann ársins viku seinna er að ég er að horfa á Kastljósið með Evu Maríu. Eva María er frábær sjónvarpskona og ætti í raun að hafa fengið þessi verðlaun. Það er mín skoðun að það ætti ekkert að hafa einhverja kosningu á netinu og leyfa öllum að kjósa. Það á bara að hafa samband við eina manneskju sem hefur vit á svona málum og fá þetta útkljáð. Þessi eina manneskja hefði til dæmis getað verið ég. Ég kaus á netinu eins og aðrir borgarar. Ég reyndar kaus ekki Evu Maríu, ég gleymdi henni. Ég kaus Sigmar Guðmundsson, eins og í fyrra. Hann er líka frábær sjónvarpsmaður.

Annars er mér alveg sama.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Jólaboð

Mér þykir mjög vænt um hefðir. Mér finnst nýjungar ágætar, en ef nýjung er góð þá geri ég hana að hefð. Ég er núna farin að huga að hinu árlega jólaboði vinkvennanna á Görðunum. Þessi árlegi viðburður hefur alltaf slegið í gegn. Við fr. B erum farnar að huga að matseðlinum, skreytingunum, sparifötunum, gestalistanum og skemmtiatriðum.

Annars var það nú ekkert meira í bili.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Polo til sölu, kostar eina tölu

Í stað þess að fara út að skafa af bílnum í morgun labbaði ég í vinnuna. Á leiðinni í vinnuna tók ég þá ákvörðun að selja bílinn minn. Það er bara rugl að eiga bíl.

Ok, ef þig vantar góðan lítinn bíl hafðu þá samband(það er kannski ekkert rugl fyrir þig að eiga bíl).

laugardagur, nóvember 18, 2006

Flippaði Vaffarinn

Ég heyrði talað um það að það væri ómögulegt að fá boðsmiða á Sykurmolana. Ekki einu sinni mamma hennar Bjarkar fékk miða, sagði mér ung kona. Ekki það að ég hafi eitthvað verið að reyna að fá boðsmiða. Mér þykir bara alls ekkert sjálfsagðra en að borga uppsett verð fyrir það sem mér þykir spennandi. Mér þótti það hins vegar mjög svo skemmtilegt þegar vinkona mín hringdi og sagðist eiga tvo auka miða, fyrir mig og einhvern hressan með. Hún sagði mér að hún hefði hringd í mig vegna þess af öllum sínu fjölmörgu vinkonum þá er ég sú flippaðasta. Ég hef einmitt haft það á tilfinningunni í mörg ár að það ætti einhvern tímann eftir að koma sér vel að vera svona flippuð, eins og ég er.

Ég man ennþá daginn sem ég steig mín fyrstu flipp skref. Ég var aðeins 11 og hálfs þá. Ég var ein í strætó og byrjaði bara uppúr þurru að syngja. Eins og við mátti búast litu allir mjög undrandi á mig. Einn maður spurði meira að segja, bíddu við, hvað er hér í gangi? Ég mjög róleg ýtti á bjölluna, enda var ég komin á minn áfangastað, stóð upp og sagði: þið verðið að fyrirgefa, ég er bara svo flippuð.

Tónleikarnir í gær voru æði, og ég dansaði (eða öllu heldur flippaði) við Luftgitar.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Johnny Dangerously

Mér varð hugsað til myndarinnar Duplica..eitthvað með leikaranum þarna Micheal eitthvað. Ég man bara ekki akkúrat núna hvorki hvað myndin heitir né leikarinn. Hann lék Johnny Dangerously, sem er mjög fyndin mynd, að mig minnir. Allavega í Dupli..eitthvað þá hafð Michael rosalega mörgum hnöppum að hneppa, hann var alltaf að. Til þess að eignast einhvern frítíma fjölfaldaði hann sig. Hann lét afritin sín vinna fyrir sig allskonar verkefni sem hann þurfti að gera þannig að hann gæti eytt meiri tíma með fjölskyldunni sinni.

Ég var bara eitthvað að spá í þetta. Það er svolítið þannig hjá mér núna að þegar ég er spurð hvað ég sé að gera og ég segi satt þá setur fólk upp svip og spyr hvernig ég nái að samræma þetta allt. Ég hef alltaf sama tilbúna svarið: ég er sjúklega vel skipulögð.

Ég veit samt ekki hvort það myndi hjálpa að fá mér samt svona afrit eins og Michael gerði. Eftir smá vangaveltur um Michael og afritin þá hef ég komst að því að ég myndi ekki vilja láta afritin sjá um neitt af mínum verkefnum. Hvað ef þau myndu svo klúðra einhverju, segja eitthvað vitlaust eða gleyma einhverja mikilvægu. Ég treysti engum nema sjálfum mér. Jú nema hvað varðar bloggið mitt. Afritin mín mættu skiptast á að blogga fyrir mig. Þau myndu varla standa sig neitt mikið verr þar en ég.

mánudagur, nóvember 13, 2006

Sex and the City








föstudagur, nóvember 10, 2006

Varúð!

Fólk undir 50 kg verið heima í kvöld. Nema þið ferðist í hóp. Sem ég ætla að gera í kvöld.

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Jólin

Ef ég myndi segja ykkur hvað ég er komin í mikið jólaskap þá mynduð þið ekki trúa mér.

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Helgarsportið

Í gærkvöldi eftir að hafa borðað yfir mig og daðrar hóflega í villibráðarveislu skellti ég mér á dansiball. Ég reyndar daðraði fyrst og borðaði síðan yfir mig, datt úr daðurstuði á fjórða disk. Tilefnið af þessari veislu var nýja, eða nýlega, húsið hennar Beggu G. sem er risa stórt og sjúklega flott, en samt uppí Breiðholti. Á dansiballinu lék hljómsveitin Rhondda & The Runestone cowboys fyrir dansi. Þetta band er það besta sem ég hef heyrt í í mjög langan tíma. Allir hljómsveitarmeðlimir stóðu sig eins og hetjur en ég verð samt að segja að bassaleikarinn stal senunni. Virkilega flottur bassaleikari, og ég hef vit á svona.

föstudagur, nóvember 03, 2006

Hvaða hvaða..

hafa ekki allir látið pissa á sig?