föstudagur, desember 31, 2004

Ömurlegt sjónvarp.

Leiðinlegasta mynd sem ég hef á ævi minni séð heitir Eyes Wide Shut. Ég skil ekki að tveir ágætis leikarar, eins og Tom Cruise og Nicole Kideman eru, gátu tekið þátt í þessu. Ég er furðu lostin. Kannski eru þau leiðinleg, líklega. En samt ég skil ekki hvernig þau gátu látið sjá sig á almannafæri eftir þessa mynd, og ég er svo viss um að það var þessi mynd sem varð til þess að þau gátu ekki lengur horft í augun á hvor öðru og þurftu þess vegna að skilja. Fáranlegt að vera giftur einhverjum sem minnir á þessi hrikalegu mistök.
Margar myndir eru leiðinlegar, en mig hefur aldrei langað eins mikið að láta framleiðendur neinnar myndar heyra það eins og núna. Stanley Kubrick leikstýrði og skrifaði handritið af myndinni og svo dó hann studdu síðar. Já einmitt! Ég er samt ekkert að gefa í skyn að hann hafi átt það skilið eitthvað sérstaklega útaf þessari ömurlegu mynd, en auðvitað uppsker maður það sem maður sáir.
Ég leigði Dís í fyrradag, hún er fín. Var sérstaklega glöð hversu eðlilegir flestir leikararnir í myndinni eru. Stúlkurnar tvær sem fara með aðalhlutverk í myndinni eru mjög góðar, ofléku ekki eins og flestir íslenskir leikarar í bíómyndum. Íslenskir leikarar virðast oft ekki fatta að það er asnalegt að leika eins í bíómynd og gert er á sviði Þjóðleikhúsins.
Ég hef rosa mikið vit á svona hlutum.

mánudagur, desember 27, 2004

Gleðilega hátíð.

Ég sendi engin jólakort í ár (reyndar ekki síðustu ár heldur) þannig að jólakveðja til ykkar allra er að finna hér og í hjarta mínu auðvitað. Ég er ykkur sem hafið ekki tekið mig útaf jólakortalistanum ykkar þakklát.

Þetta hafa verið alveg hreint aldeilis fín jól. Dóttir mín var hjá pabba sínum á Aðfangadagskvöld og ég fór í mat til mömmu. Við Bergþóra hittumst svo seint um kvöldið hjá henni í náttfötum með sælgæti í skál. Bergþóra er frábær nágranni þrátt fyrir að vera eitthvað treg í ofát, svo fékk hún sér sódavat en ekki bland sem mér finnst vera merki um átröskun. En hún er hress og það er það sem skiptir máli.

Annan í jólum héldum við Bergþóra saman jólaboð. Við elduðum hamborgarahrygg og allt með því og hlustuðum á Nick Cave á meðan. Við erum rosa klárar að elda veislumat. Boðið var æði. Auðvitað var það meira á mínum höndum að skemmta gestunum en Bergþóra var meira bara sæt. Við spiluðum síðan Picturenary/Actionary eða eitthvað svoleiðis sem mér fannst gaman. Ég kynntist nýrri hlið á Bergþóru um jólin. Ég vissi ekki að hún væri svona dugleg að elda og ég vissi ekki að hún væri svona ROSALEGA tapsár.

fimmtudagur, desember 23, 2004

jól jól jól

Það er ekkert smá gaman að vera ég.

þriðjudagur, desember 21, 2004

Neil Young

Fór í Kringluna í gær með Möggu H. Hún er allt öðruvísi núna hún Magga, hefur breyst þrælmikið. Nýja dóttir hennar er rosa sæt, og öruggleg mjög skemmtileg. Hún reyndar sagði ekki mikið þegar ég kom í heimsókn, lét bara eins og ég væri ekki á staðnum.

Ég keypti mér nýju Neil Young plötuna, þetta er safnplata. Ég átti nefnilega ekki neitt með Neil Young. Ég vissi ekki að hann væri svona frábær. Neil er nýji kærasti minn.

mánudagur, desember 20, 2004

5289 hitt.

Var að spá í að núna eru komin 5289 hitt á þessa síða sem mér finnst rosalega mikið. Ég sjálf hef örugglega farið á síðuna ca 4500 en þá hafa einhverjir aðrir farið á hana 789 sinnum. Það er svakalegt. Ég verð eiginlega þess vegna að fara vanda mig meira, og jafnvel að reyna að læra hvernig ég geri hana svoltið meira smart. Stafirnir á síðunni eru eins og auðlesið efni á mbl.is, svona fyrir seinþroska. Svo er ég ekki með neina tengla á eitthvað hresst lið, engar sniðugar myndir af mér, dóttir minni eða vinkonum. Væri kannski ráð að setja myndir af eitthvað af þessum stelpum, og skrifa eitthvað svona smart undir myndirnar eins og t.d. "Begga sæta í góðum gír á fundi uppá Vogi" eða "Sonja flipp með nýja gæjanum" eða "Bergþóra hot babe á nærjunum" eða "Gunna klikk að ná sér uppúr þunglyndi" eða "Ég að æla piparkökuhúsinu".
Ég veit samt ekki, einn drengur sagði við mig um daginn að hann kunni ekki við að koma með komment á síðuna vegna þess að honum liði eins og þá væri hann að riðjast inní saumaklúbbinn minn. Það er auðvitað bara rugl, ég er ekki í saumaklúbb og hef aldrei verið. Öllum er velkomið að kommentera, lengi sem að það er ekki eitthvað dónalegt, ég fíla ekki dónalegheit.
Annars fór ég áðan og verslaði allar jólagjafirnar, og er eitthvað svo fáranlega hamingjusöm. Það er gott að vera komin í jólafrí frá skólanum, ég er auðvitað að vinna eitthvað. Fæ að vinna auka á RUV á Þorláksmessu sem er gott því þá gat ég borgað fyrir jólagjafirnar án þess að svitna eitthvað verulega.

laugardagur, desember 18, 2004

Baggalútur

Æji já, mér finnst þeir æði. Jólalagið í ár er Kósýheit par exelans. Ég er búin að vera lesa Baggalút svo lengi og hef eiginlega aldrei spáð í hverjir þetta eru, þeir hafa bara verið strákarnir á Baggalút. Mér fannst mjög merkilegt þegar þeir birtust í Kastljósi um daginn.

föstudagur, desember 17, 2004

Prófum lokið í bili.

Síðasta prófið á haustönn 2004 lokið. Síðasta prófið var Stjórnmálafræði, ég á ekki vona á að fá minna en 9. Mér líður núna eins og ég viti meira en flestir um allt sem viðkemur stjórnmálum. Ef þið viljið spyrja mig af einhverju þá gjörið þið svo vel.
Rokk í kvöld. Ef ég þekki mig rétt á ég eftir að sletta úr klaufunum.

þriðjudagur, desember 14, 2004

Hannes Hólmsteinn.

Hannes Hólmsteinn er foli.

mánudagur, desember 13, 2004

Bann Bann Bann Bann..

Samfylkingin leggur til að það verði sett bann á auglýsingar sem auglýsa óhollar matvörur, sælgæti og annan eins neysluvarning djöfulsins. Reyndar vilja þau að bannið taki bara gildi eftir klukkan 21:00, því þá eru óvitar sem eru að verða offitunni að bráð farnir að sofa. Krakkar sjá kók auglýsingu og biðja mömmu og pabba um kók, mamma og pabbi kaupa kók og allir verða feitir og deyja ungir. Frábært, ég þarf ekki lengur þá sem foreldri að taka ábyrgð á minni dóttur, Samfylkingin ætlar að gera það fyrir mig. Gott ég hef hvort sem er ekkert tíma í það.
Ef þetta gengur í geng allt saman, ætla ég að sækja um í nefndina sem sér um að flokka bannvörur. Ég mun þá ekki bara banna kók í auglýsingum, ég mun líka banna allt sem hefur verið nefnd sælgæti, jógúrt, feitan ost, brauð með hvítum sykri, pasta, tígjó með gerfi sætu, nýmjólk, súkkulaði jóladagatal, popp með salti, allt með geri, allan dósamat, hangikjöt, beikon og svo kartöflur því þær innihalda of mikið kolvetni. Ég mun reyndar ekki hætta við matvælin, mun fara fram á að bannaðar verði auglýsingar þar sem börn eru ekki á hreyfingu, þar sem börn eru húfulaus í roki, þar sem að börn eru ekki jafningjar í leik og sérstakleg mun ég leggja hart bann við að börn sjáist vera að horfa á sjónvarp.

fimmtudagur, desember 09, 2004

Löng pása.

Max Weber lét loka sig inni á hæli eftir að hann las yfir sig. Ég er að hugsa um að láta hann verða mér víti til varnaðar og slaka aðeins á.

miðvikudagur, desember 08, 2004

Kæra dagbók.

Ég vaknaði klukkan hálf átta í morgun. Var bara nokkuð hress, en hefði samt viljað vakna aðeins fyrr. Ég fékk mér ristað brauð með smjöri og osti í morgunmat, og drakk kaffi með. Á meðan ég borðaði morgunmatinn minn las ég fréttablaðið, og hafði það virkilega notalegt. En þá var komin tími til að fara að klæða sig og koma sér af stað. Ég fór í gegnum fataskápinn minn og reyndi að velja eitthvað svona casual miðvikudagsdress. Gallabuxur og hettupeysa urðu fyrir valinu. Á meðan ég rótaði í gegnum skápinn minn flaug sú hugsun í gegnum höfuðið að ekki væri nú verra að eiga einar gallabuxur tilviðbótar, bara þannig að þriðju- og miðvikudagsdressið mitt væri ekki svona keimlíkt. En svo sagði ég við sjálfa mig, nei Margrét nýjar buxur myndu ekki veita þér neina hamingju, og ég hló pínulítið með sjálfri mér. Það er víst fjölskyldan og vinirnir sem skipta mestu máli í lífinu, ójá. Því næst gekk ég ég inná bað, burstaði í mér tennurnar, skvetti smá vatni framan í mig og setti svo á mig pínu búður, en passaði þó uppá að það væri ekki of mikið. Þegar ég klæddi mig svo í úlpuna og opnaði útidyra hurðina hugsaði ég með mér hvað ég gæti verið þakklát fyrir að eiga úlpu.
Takk fyrir mig.

laugardagur, desember 04, 2004

The Doors

Þið sem hafið gaman af lögum The Doors ættuð að leggja hlustir við útvarpsþáttinn Næturgalin(n) í kvöld á Rás 2. Þátturinn byrjar eftir tíu fréttir og er á dagskrá til tvö í nótt. Vert er að benda á hér að þessi útvarpsþáttur er talin af mörgum sá besti í alheiminum.

Lífið gæti verið verra.

Já vá miklu. Ég er að horfa á Elvis, That´s the way it is. Special Edition. Elvis er æði, Elvis gerir mig hamingjusama. Svo var Magga vinkona mín að eignast litla heilbrigða stúlku. Stelpan var 50 cm og tæpir 16 merkur, það er heldur betur fullkomið.
Klukkan er að verða hálf tíu á laugardagsmorgni, og ég er að bíða eftir stelpum úr skólanum. Við ætlum að fara í spurningarsúpu, reyna að verða rosa fróðar um stjórnmál. Ég er búin með fyrsta prófið mitt, sem var tveggja sólarhringa heimapróf í Fjölmiðlafræði. Maður hefði kannski haldið að maður væri að sleppa rosa vel með því að fara í heimapróf, en ég veit ekki með það. Þá skrifar maður bara svo miklu miklu meira og textin er aldrei alveg nógu góður.

föstudagur, desember 03, 2004

Jólaóskalistinn.

Mig langar að láta ykkur, sem ætlið að gefa mér jólagjöf, vita í tæka tíð að ég vil ekki nýja geisladiskinn með Kristjáni Jóhannssyni.