miðvikudagur, október 20, 2004

Vetur

Ég get ekki sagt að mér finnist þessi tími árs eitthvað frábær. Eiginlega er þetta frekar súrt allt. En kapallinn gekk upp áðan þannig að þetta er í lagi.


mánudagur, október 18, 2004

Vantar einhvern far?

Það hefur yfirleitt verið frekar gaman að lifa mína lífi undanfarið og oft mjög gaman. Nema þegar ég hef þurft að bíða lengi útá stoppustöð, mér finnst ágætt að ferðast um í strætó en ég hata að bíða á stoppustöðunni. Nema hvað! Núna bara mjög fljótlega mun ég ekki þurfa að bíða meira, því ég er að eignast bíl. Hvað er betra en að eiga bíl? Ég skal segja þér það. Það er að fá bíl gefins, sem ég fæ.
Bergþóra sæta, nú skutla ég þér í Bónus hvenær sem þú vilt, og Magga St. ef þú þarft far eitthvað hringdu þá í mig.

föstudagur, október 15, 2004

Ástin spyr hvorki um stétt né stöðu.

Margar bækur hafa verið skrifaðar um ástarsambönd, sem einskonar leiðbeiningarbæklingar um það hvernig má fá ástarsamband til þess að ganga upp. Ég hef lesið einhverjar svona bækur. Ég verð að segja að þær hafa allar verið frekar súrar og hafa ekki virkað fyrir mig. Ef til vill virka þær fyrir venjulegt fólk, en eins og flestir vita er ég ekki venjulegt fólk. Það gleður mig að tilkynna ykkur að ég hef fundið ástar formúluna, ég veit það sem flestir þrá að vita. Ég er svona að spá í að birta hana ekki hér. Ég þarf nefnilega að hugleiða hvort að ég geti ekki grædd helling að peningum á þessu, og ekki vil ég gefa upp formúluna sem mun gera mig ríka. Ég mun samt leyfa ykkur að fylgjast með, úr fjarlægð, hver áætlun mín verður í þessum málum.

P.s. ég mun ekki hætta að blogga þó að ég verði rosalega rík. Eða kannski fæ ég einhvern til þess að gera það fyrir mig, er ekki alveg búin að ákveða hvernig það verður.

miðvikudagur, október 13, 2004

Grænmetisætur.

Ekki eru allar grænmetisætur góðar og ekki er allt gott fólk grænmetisætur. Hitler var grænmetisæta. Þar hafið þið það!

þriðjudagur, október 12, 2004

Asnalegur titill sem passar ekki.

Ég fór í nudd núna um daginn til nuddara sem ég hef aldrei farið til áður. Þetta var mjög einkennilegt. Hún spjallaði eins og hún væri hárgreiðslukona, bara spurði og spurði. Svo sagði hún já það er greinilega allt of mikið álag á þér. Þetta er agalegt, og þú svona ein með lítið barn. Ég bendi henni á að dóttir mín væri nú ekki svo lítil, væri 6 ára, og að til mikillrar lukku þá ætti hún líka pabba þannig að ég væri ekkert ein með hana. Ég sagði henni líka að mér fyndist bara gaman í skólanum og vinnunni að þetta væri ekkert rosa álag, og að ástæðan fyrir því að ég væri með vöðvabólgu er líklega að ég sit of mikið. En nei, þessi nuddari hætti ekki fyrr en hún hafði náð sínu fram. Allt í einu var ég komin með kökkin í hálsin og farin að taka undir þetta allt með henni, bætti líka við að verkfallið væri mjög erfitt fyrir mig, svo ætti ég ekki bíl og þyrfti því að versla oft í 10-11, að ég hefði týnt húfunni minni um daginn og að ég þyrfti líklega að taka strætó til tannlæknis með eitt af börnunum mínum(ég varð allt í einu margra barna einstæð móðir) og að kærasti minn vanrækti mig vegna þess að hann þarf endilega að vera í námi útí sveit.
Vá þetta var skrítið, ef ég myndi vera týpa sem grætur þá hefði ég hjólað grátandi heim(því ég ólst náttúrulega upp við mikla fátækt í Breiðholti). Ég á pantaðan annan tíma hjá henni á morgun, ég er að hugsa um að afpanta.

Kjánablogg.

Stundum finnst mér bara mjög kjánalegt að blogga. Ég var búin að skrifa einhvern heilan helling en fékk svo kjánahroll og ákvað að birta það ekki hér.

mánudagur, október 11, 2004

Titill.

Einhver umræða hefur verið í gangi um það að leggja fólk í einelti, sem er ljótt! Ég spurði Guð hver rétta leiðin væri í þeim málum og einmitt eins og ég bjóst við þá er einelti í sumum tilfellum guðs vilji. Fólk þroskast í gegnum sársauka og til þess að stuðla að andlegum þorska einhvers verður maður stundum að hjálpa fólki að finna fyrir sársauka.


fimmtudagur, október 07, 2004

Félagsfræðinemar í Ráðhúsinu.

Á morgun kl:13:10 munu ég og Auja kynna niðurstöður rannsóknarinnar sem við höfum verið að vinna að í sumar. Við munum kynna þetta í Ráðhúsinu, við komum á svið(held að það sé svið, vona það allavega) strax á eftir Borgarstjóranum. Það má eiginlega segja að Borgarstjórinn í Reykjavík sé að hita upp fyrir okkur. Ég vona bara að Auja fari ekki að fá sér í haus áður en við byrjum. Hún á víst erfitt með það að tala fyrir framan fólk. Ef hún fer að fá sér í haus fæ ég mér bara í glas, það verður pottþétt léttvín í boði. Núna þegar ég hugsa um það þá var ég alltaf mjög skemmtileg með víni. Svo er spurning um að draga fram gamlan magabol sem stendur á "Enjoy cock" , bara svona til að vekja smá athygli.
Það var Rokkklúbbur í kvöld, mjög skemmtilegt. Begga Gísla er í USA þannig að hún mætti ekki(það var skrítið að hafa hana ekki, hlakka til að hitta hana aftur), María lasin og Gunný á frumsýningu(Bubba myndin). Inga Lára verður tekin ný inn næst, gaman að hafa hana með því hún er svo mikil skvísa

miðvikudagur, október 06, 2004

Kvennaráðstefna

Munið! Kvennaráðstefna alla næstu helgi. Þrjár hressar kellur frá USA koma og segja okkur hvernig á að fara að þessu.
Dagskrá:
Föstudagur: Húsið opnar kl: 20:00 Speaker 20:30 USA og ísl.
Laugardagur: Húsið opnar kl: 08:30 Dagskrá frá 09:00-17:30 + 21:00?Ball
Sunnudagur: Húsið opnar kl: 10:00 Dagskrá frá 11:00-13:00 Hugleiðsla, speaker ofl.
Miðaverð: 1000kr.
Munið að kaupa miða af mér, því ég er núþegar búin að borga þá.

þriðjudagur, október 05, 2004

Ja hérna hér.

Samstarfskona mín hún Auja hefur nú staðið fyrir því að breiða út þeirri sögu að ég sé að fara að gifta mig. Sko það eitt og sér er svo sem ekkert fáranlegt, kannski gifti ég mig einhvern tíman. Það er ekkert fáranlegt að einhver vilji einhvern tíman giftast mér. En það væri samt svoltið skrítið ef ég væri að fara giftast kærastanum mínum sem ég hef aðeins þekkt í tvo mánuði. En það sem mér finnst skemmtilegast við þetta allt saman er að nokkrar af mínum vinkonum trúðu þessu. Magga Hugrún hringdi í mig til þess að fá þetta allt á hreint og Sonja kom með komment að þetta væri nú kannski aðeins of snemmt. Segir það eitthvað um mig að vinkonur mínar skuli trúa þessu uppá mig? Eða segir þetta okkur kannski að Auja er talin vera heiðarleg kona(sem hún er greinilega ekki)? Eða segir þetta okkur kannski bara að vinkonur mínar eru klikkaðar?

mánudagur, október 04, 2004

3.samkoman.

Þriðja samkoma Rokkklúbbsins fer fram næstkomandi fimmtudagskvöld á heimili Sonju V. Mæting er kl:19:30, meðlimir vinsamlegast beðnir um að mæta tímanlega. Mælt er með því að þær veitingar sem meðlimir koma með séu bragðgóðar og hitaeiningasnauðar. Dagskrá er enn óákveðin.
Meðlimir klúbbsins eru jafnmargir og sporin sem við stígum.
Meðlimir eru; Auja B., Begga G., Bergþóra, Ellen, Eva Ó., Gunný, Kristín L., Magga S., Magga V., María P., Rósa og Sonja V.

laugardagur, október 02, 2004

Q.T.

Í kvöld er ég með þema í þættinum mínum; ég mun taka fyrir tónlist úr myndum Quentin Tarantino. Þátturinn heitir Næturgalin(n) og er á dagskrá Rásar 2 milli 22:00 og 02:00.

föstudagur, október 01, 2004

Flöskudagur.

Jæja loksins, loksins kominn föstudagur. Eða eins og ég hef gjarnan viljað segja; loksins kominn flöskudagur. Ég veit ekki með ykkur en ég er hrikalega flippuð á föstudögum. Alltaf eitthvað að sprella. Með fiðring í maganum því að maður veit aldrei hvað gerist á föstudagskvöldum. Svo er líka öll helgin framundan og það gerir þetta enn skemmtilegra. Sko í kvöld ætla ég að skella mér á lífið og jafnvel dansa smá, á laugardaginn ætla ég að grilla og fara svo aftur á djammið. Ætli ég horfi ekki bara á boltan eða formúluna í þynnkunni á sunnudaginn, alveg búin eftir helgina. Og þá er það bara að hlakka til næstu.
Magga Hnakki.