mánudagur, janúar 31, 2005

Grundarfjörður.

Við Auja ætlum að reyna að komast hjá því að þurfa að fara í byggingarvinnu í sumar. Við erum því að sækja um einhverja styrki til rannsókna. Samstarf okkar síðasta sumar gekk ágætlega, ég þroskaðist mikið andlega á því. Að vera í miklum samskiptum við Auðbjörgu er andlega þroskandi. Við ræddum við einn kennara uppí Háskóla og hann er með frábært verkefni fyrir okkur (að eigin sögn). Hann vill að við gerum field könnun á Grundarfirði. Hann sagði að við þyrftum ekki að eyða öllu sumrinu á Grundarfirði en að við þyrftum að fara þangað og taka nokkur djúp viðtöl, spennandi! Hann tók það einnig fram að við þyrftum að fara á einhverjar skemmtanir á Grundó til að kanna andrúmsloftið, ég get alveg gert það en veit ekki með Auju. Auja er stundum svolítið tæp.
Þekkir einhver einhvern á Grundarfirði sem gæti hýst tvær, eða eina unga og eina miðaldra konu í smá tíma næsta sumar?
Annars er planið að fara til Washington DC í mars og svo fer ég til Barcelona í Júní.
Verð að hætta núna, þarf að fara að gera magaæfingar.

föstudagur, janúar 28, 2005

Amerísk geðveiki.

Það er enn verið að fjalla um strípihneigð Janet Jackson.
http://www.theonion.com/news/index.php?issue=4104 Hérna er grein sem fjallar um afleiðingarnar sem börn í Bandaríkjunum eru enn að berjast við eftir að hafa þurft að horfa uppá annað brjóst söngkonunnar J. Jackson.
"No one who lived through that day is likely to forget the horror," said noted child therapist Dr. Eli Wasserbaum. "But it was especially hard on the children."
Milljónir barna í Bandaríkjunum geta nú farið í mál við poppstjörnuna vegna þeirra hræðilegu reynslu, sem mun án efa marka allt þeirra líf og verða til þess að þau eiga aldrei eftir að geta stundað eðlilegt kynlíf, sem hún lét þau ganga í gegnum. Á síðunni eru einnig birtar myndir sem börn teiknuðu stuttu eftir að ofbeldiskonan beraði brjóstið sitt sem sannar það að þessi atburður hefur haft djúpstæð áhrif á þau. Eftir að hafa lesið þessa grein er erfitt að átta sig á því hvort systkinið er meiri perri, Janet hefur allavega náð að eyðileggja líf fleiri.

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Að láta drauma sína rætast.

Það hefur svo oft verið þannig í gegnum tíðina þegar ég fæ alveg frábæra hugmynd að ég velti henni fyrir mér, og ræði hana við alla sem ég þekki en svo gerist ekkert. En hingað og ekki lengra. Það er framkvæmdin sem skiptir máli. Bergþóra var að hringja, ekki mikil aðstoð í henni svo sem. Hún hefur ekki hugmynd um hvar svona boltaleikir eru haldnir. Við þekkjum enga íþróttamanneskju. Ef einhver veit hvar íþróttaleikir eru haldnir, hvenær þeir eru haldnir, í hverju maður á að fara eða hvar maður pantar miða þá vinsamlegast látið okkur vita.

Áfram Valur

Ég horfði á íþróttafréttir í kvöld. Þar var drengur (íþróttastrákur) að segja frá einhverjum samning, eða ég held að hann hafi verið að tala um það. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið verið að tala um samning við útlönd. Ég var meira að horfa en hlusta. Það sem varð til þess að ég skipti ekki um stöð var að þessi drengur geislaði af heilbrigði sem mér þykir eftirsóknarverð. Núna veit ég hvað ég þarf að gera. Ég ætla að byrja að fara á svona íþróttamót eða leiki, sem ég held að séu oft um helgar. Svona fótbolta- eða handboltaleiki. Þetta verður frábært. Ég tek Bergþóru með, og við setjum upp stút á varirnar, sitjum beinar í baki og klöppum svo þegar það á við. Það mun væntanlega ekki líða á löngu áður en við verðum farnar að versla í Chelsea með Viktoriu Becham. Við að versla og þeir að spila. Ég hlakka til.

föstudagur, janúar 21, 2005

Verðbréfamiðlarinn.

Jæja, um 600 manns tóku þátt í kosningunni um kynþokkafyllsta mann landsins. Flest atkvæði hlaut Frosti Reyr Rúnarsson, sem er verðbréfamiðlari ég held hjá KB. Hann þykir bera af öllum öðrum mönnum í landinu í kynþokka, hann er víst mjög kurteis og ljúfur svo er líka frábært að vinna með honum segja þeir, og þær.

Kynþokki

Nú stendur valið á kynþokkafyllsta manni ársins yfir á Rás 2. Hægt er að hringja í síma 5687123 eða senda póst á 123@ruv.is. Hvaða eiginleikar finnst ykkur vinkonum mínum og vinum að karlmaður þurfi að bera til að vera kynþokkafullur? Jón Ólafsson tónlistarmaður var valinn kynþokkafyllstur í fyrra, en svona ykkur að segja þá gerir hann lítið fyrir mig.
Mér finnst hugrakkir, klárir og sniðugir karlmenn kynþokkafullir. Mér finnst útlitið ekki beint búa til kynþokka, nema kannski að karlmaður sem er kaffibrúnn með strípur í fötum frá Park á ekki séns í að vera kynþokkafullur hversu hugrakkur sem hann er, það er reyndar visst hugrekki í því að fara í ljós. Þú veist taka sénsin á að fá húðkrabba.
Ég sá kynþokkafullan mann í strætó um daginn, eða hann virkaði það allavega. Ég settist ekkert hjá honum og sagði honum að mér þætti hann hafa mikin kynþokka, kunni ekki við það.

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Ást

Nú líður mér vel.
Ég hef verið að hlusta á Nick Cave alltaf af og til í mörg ár. Ég kynntist fyrst Nick Cave þegar ég varð fyrst ástfangin. Fyrsta ástin mín hlustaði á Cave alla daga. Allir strákar sem ég hef orðið ástfangin af síðan hafa hlustað mikið á Nick Cave. Nema reyndar einn, einn þeirra hlustar á Justin Timberlake. En hann gaf dóttur minni svo góð gen þannig að ég er sátt. Ég er samt ekki hér að tala um einhverja þrjátíu gaura, bara fjóra. Fjórir er ekkert rosa mikið fyrir konu á fertugsaldri.
En allavega þá hef ég undanfarið verið að fylla uppí Nick Cave safnið mitt, og hef verið að hlusta á þessar plötur mér til mikillrar gleði. Mér finnst eins og ég hafi verið að kynnast nýrri manneskju, yndislegri manneskju sem er vinur minn. Í staðin fyrir að fara á netið til að hlusta á einhverja félaga flytja boðskap set ég Nick Cave á fóninn og hlusta á hans boðskap.

föstudagur, janúar 14, 2005

Ripprapprupp

Mér finnst rapp tónlist ágæt. En það sem mér finnst þó gera mér erfitt fyrir við að hlusta á amerískt svart rapp er að ef ég hlusta á textana í lögunum og sé myndböndin geri ég mér grein fyrir því að flestir þessir tónlistarmenn eru þroskaheftir. Ég fíla illa þroskaheft tónlistarfólk.

Faðir vor.

Í gærkvöldi var samkoma hjá Rokkklúbbnum. Byrjað var á því að fara út að borða og svo í leikhús. Við sáum Faðir vor, sem er mjög skemmtilegt. Hjálmar var að spila á Hressó og því fórum við þangað. Reyndar komu Auja og Magga St. ekki með þangað, held að þær séu haldnar félagsfælni sem er allt í lagi svo sem.
Mér finnst Hjálmar mjög skemmtileg hljómsveit, og er að hugsa um að fá mér geisladiskinn þeirra þannig að ég geti hlustað á þá heima. Annars á ég mikið af nýrri tónlist núna þar sem ég er nýfarin að nota nýju tækin mín. Ég keypti mér harðan disk sem ég get ferðast með útum allt. Ég fór einmitt með hann í heimsókn til Bergþóru og er orðin svoltið ríkari eftir þá heimsókn. Ég er samt ekki glæpakvendi.

Jæja þá.

Ég er búin að horfa mikið á sjónvarp undanfarið. Ég verð að segja að sumar auglýsingar gera mig óhamingjusama. Verð að nefna í þessu samhengi auglýsingu BESTA. En þar sem ég er að vanda mig við að vera jákvæð ætla ég ekki að skrifa meira. Ég mun ekki skrifa neitt þangað til að ég hef eitthvað jákvætt að skrifa um.

þriðjudagur, janúar 11, 2005

...

Ef einhverjum fannst síðasta bloggfærsla mín frekar tilgangslaust þá er það vegna þess að hún var það. Það sem er verra þá var hún líka frekar leiðinleg. Ég er full af eftirsjá og skömm.

Þjónusta SVR.

Þurfti að eyða þó nokkrum tíma í að ferðast með strætó í dag. Þurfti í morgun að taka strætó til tannlæknis, svo þaðan uppí Efstaleiti. Eftir að erindi mínu var lokið þar tók ég annan vagn niðrí miðbæ, ákvað að ganga þaðan heim. Um kvöldmataleyti átti ég erindi uppí Borgartún. Ekki löng vegalengd en samt tveir vagnar. Þegar ég kom í vagn númer tvö spurði ég bílstjóran hversu nálægt hann færi mínum áfangastað. Þá sagði hann mér að nú væri að eiga sér stað vagnstóraskipti og þar að leiðandi gæti hann bara keyrt mig alla leið, sem hann gerði. Þetta fannst mér mjög góð þjónusta, en veit ekki hvort að hún sé alltaf í boði.
Allavega, þrátt fyrir mjög góða þjónustu SVR og tækifæri til að kynnast nýju fólki, þá er ég komin með leið á að bíða eftir ókeypis bíl og er að fara að skoða bílasölur.

laugardagur, janúar 08, 2005

Sagan af vinkonum á Eggertsgötu 6.

Þetta er saga um það þegar farið er mannavillt og um mátt vináttunnar. Magga prinsessa og Bergþóra fátæka þorpsstúlkan eru tvær stúlkur sem eru ótrúlega líkar. Leiðir stúlknanna hljóta að liggja saman þegar Magga prinsessa er gripin til fanga og Bergþóra, tvífari hennar, verður að reyna að bjarga henni. Getur Bergþóra þóst vera prinsessan og spillt áformum fangara síns, Þorgríms illa? Og hvað um hinn myndalega Sigurð konung sem verður ástfanginn af Bergþóru og heldur að hún sé Magga? Í þessari töfrandi sögu, verða tvær fallegar og ævintýraþyrstar stelpur að þora að láta drauma sína rætast og uppgötva að örlögin eru greypt á mjög sérstakum stað: í hjarta manns.

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Gott samfélag.

Í gær fór ég í 10 ára afmæli eins félaga okkar. Þar var fullt af mjög skemmtilegu fólki, frábær súpa og góð súkkulaðikaka. í afmælisveislunni fór ég eitthvað að spá í þetta allt saman. Þetta var hús fullt af yndislegu fólki, fólki sem hefur kannski ekki alltaf verið svona yndislegt. Mér finnst magnað að vera hluti af þessu þessu samfélagi.

sunnudagur, janúar 02, 2005

2005

Gleðilegt nýtt ár.
Nú loksins er það komið, þetta er árið sem allar framtíðarmyndirnar í gamla daga gerðust í. Þetta er árið sem við förum öll að klæðast silfurlituðum búningum, öll eins. Loksins.
Ég horfði á Áramótaskaupið og mér fannst það leiðinlegt. Kannski fannst mér það leiðinlegt af því að ég skildi ekki grínið, kannski er ég illa gefin.
Ég er að vanda mig við að vera jákvæð, það var samt ekki áramótaheitið. Áramótaheitið mitt var að hugleiða einhverntíman að fara kannski að spá í hvort ekki sé ráð að hætta að reykja, ég sé samt til með það.