föstudagur, desember 29, 2006

Post jól

Oft segi ég; lífið gæti ekki verið betra. En akkúrat núna gæti það reyndar verið aðeins betra. Ef ég væri með góða mynd til þess að horfa á væri það eflaust aðeins betra. Myndin þyrfti ekki einu sinni að vera góð. Bara svona ágæt það væri nóg.

Ég fór í heimsókn í kvöld og drakk óvenju mikið kaffi. Drakk bara og drakk, eins og mér hefði aldrei verið boðið í frítt kaffi áður. Þetta kaffi var reyndar alveg svakalega gott.

Í kvöld var óvissuferð hjá kvennahóp sem ég er í. Þetta er mjög skemmtilegur hópur. Flestum þessara kvenna kynntist ég á fyrsta árinu mínu uppí H.Í.. Það hefur svona verið að bætast í hópinn. Núna erum við allskonar konur sem eigum það eiginlega eitt sameiginlegt að þora að kalla okkur feminista.

Óvissujólaferðin okkar er nú árlegur viðburður. Ferðin endar á að jólatýpan er heimsótt. Enginn veit fyrirfram, nema sú sem allt skipuleggur eða fr. Andrea, hver jólatýpan er. Í fyrra var jólatýpan Ingólfur Guðbrandsson, í ár var það Ármann Reynisson. Skemmtilegur gaur.

En allavega. Ég leigði mynd á leiðinni heim þar sem mig grunaði að ég ætti ekki eftir að geta sofnað. Ég valdi mynd sem ég vissi að væri ekkert spes. Ég vissi hins vegar ekki að hún væri svo óþolandi að það væri ómögulegt að horfa á meira en fyrstu fimm mínúturnar af henni. Even Cowgirls get the Blues var leiðinlegasta mynd sem ég hafði horft á en núna er You, Me and Dupree sú leiðinlegasta, ég reyndar hef ekki horft á hana.

Kannsk ég horfi á músik vídeo.

fimmtudagur, desember 28, 2006

Og aftur guði sé lof

Á mbl í dag

Jólaútsalan hjá Harrods í London hófst í morgun klukkan níu og var það bandaríska leikkonan Eva Longoria sem opnaði útsöluna.

Hvergi kemur fram á mbl hver opnaði Dressmann útsöluna.

Guði sé lof

Dressmann útsalan er núna í fullum gangi

miðvikudagur, desember 27, 2006

Jólin

Um miðnætti í gær lofaði ég sjálfri mér að borða aldrei aftur. Þetta matarboð mitt og frökenar B. fór alveg með mig. Ég reyndi að láta eins og ég væri hress og til í allt og malt þegar ég spilaði samkvæmisleiki við gestina. En það eina sem ég gat hugsað um var hvað ég er orðin rosalega feit. Ég var samt einu sinni alveg næstum því búin að gleyma hörmungum líkama míns þegar talið barst að stólpípu. Hver talar um stólpípu í jólaboði? Þegar talið barst svo að því að guð væri hluti af okkur öllum leið mér enn ver og óskaði þess að ég væri dáin. Nei nei, ég er nú bara að grínast núna. Geng aðeins of langt eins og mér er líkt. Ef ég held það út að fasta í fjóra sólahringa þá verð ég örugglega aftur hamingjusöm. Eða að breyta um viðhorf, það er nú einu sinni betra að vera feit en full. Og ekki er ég full í dag.

mánudagur, desember 25, 2006

363 dagar til jóla

Nei djók.


föstudagur, desember 22, 2006

2 dagar til jóla

Alveg hreint ótrúlega gaman allt. Ég er löngu búin að kaupa allt sem þarf að kaupa en ég hangi samt til skiptist í Smáralindinni og Kringlunni bara til að upplifa stemmninguna.


þriðjudagur, desember 19, 2006

5 dagar til jóla

Ég og Bergþóra vorum að panta okkur miða á Þorláksmessutónleika Baggalútur. Víhíhíhí. Tónleikaferð okkar fr.B fyrir jól í fyrra var alveg hreint yndisleg, alveg einstaklega rómantísk.

Annars er búið að vera frekar skrítin stemmning á milli okkar síðan í kvöld, en ég geri ekki ráð fyrir öðru en að við verðum búnar að jafna okkur á Þorláksmessu. Málið er að við fórum í piparkökuátskeppni í dag. Ég borðaði miklu meira af piparkökum en Bergþóra og ætti þess vegna að hafa unnið. Bergþóra segir hins vegar að ég hafi svindlað. Síðan hvenær hefur verið bannað að kasta upp í piparkökuátskeppni?




mánudagur, desember 18, 2006

6 dagar til jóla

Já svei svei. Ég veit að mörg ykkar hafið verið áttavillt og jafnvel ráðavillt síðustu tvo daga. Í dag eru auðvitað aðeins SEX dagar til jóla. Vegna internet bilunar hef ég ekki getað bloggað síðustu daga. En núna er allt gott á ný.

Í dag ættu allir að vera búnir að kaupa þrjár jólagjafir, undirbúa jólahreingerninguna, gera innkaupalista og baka tvær sortir.

Gleðilega hátíð.


föstudagur, desember 15, 2006

9 dagar til jóla

Fyrir langa löngu hannaði ég minn eigin jóladrykk. Þennan drykk drakk ég þó nokkuð af í desember mánuði í nokkur ár. Stundum drakk ég hann líka aðeins fram í janúar, svona sirka fram að þrettándanum. Þann 12. mars 2001 hætti ég svo að drekka kolvetnisríka drykki og hef því ekki drukkið jóladrykkinn minn síðan. Stundum í desember sakna ég jóladrykkjarins en það varir yfirleitt aðeins stutt. Ég hef tekið þá ákvörðun að birta uppskriftina hér því mér finnst mikilvægt að aðrir fái að njóta drykkjarins þrátt fyrir að ég sjálf geti ekki lengur gert það.

Jóladrykkurinn
Slatti af dökku rommi
Slatti af malibu
Dash af heitu kakói
Dash af rjóma

Verði ykkur að góðu

fimmtudagur, desember 14, 2006

10 dagar til jóla

Ég sem hélt að ég gæti ekki komist í meira jólaskap er í meiri jólaskapi. Er það furða að ég spyrji; hvar endar þetta allt saman?

Þessa dagana fer ég ekki út úr húsi án þess að vera með fallegu rauðu húfuna mína og Mariuh Carey jóladiskinn í ipodinum mínum.

Ég læt hér eitt klassíkst fylgja með í tilefni dagsins.

Bráðum koma blessuð jólin
börnin fara að hlakka til.
Allir fá þá eitthvað fallegt
í það minnsta kerti og spil.
Kerti og spil, kerti og spil,
í það minnsta kerti og spil.

Hvað það verður veit nú enginn,
vandi er um slíkt að spá.
En eitt er víst að alltaf verður
ákaflega gaman þá.
Gaman þá, gaman þá,
ákaflega gaman þá.

Guð blessi ykkur öll!

miðvikudagur, desember 13, 2006

11 dagar til jóla

Laufabrauð

900 g hveiti
100 g rúgmjöl
1 tsk Royal ger
5 dl mjólk
1 dl rjómi
0.5 dl sykur
25-30 g smjör
1 tsk. salt
1 tsk. hjartasalt

Rúgmjöli, hveiti og geri er blandað saman í skál. Mjólkin er sett í pott ásamt smjöri, sykri og salti. Þetta er hitað að suðu og þá er rjóminn settur út í, potturinn tekinn af og hjartasaltið sett í. Vætt í þurrefnunum með mjólkinni sem freyðir og deigið síðan hnoðað.

þriðjudagur, desember 12, 2006

12 dagar til jóla

Munið að baka piparkökkurnar ekki lengur en í 10 mín. í miðjum ofni við 200° hita. Ég klikkaði á þessu jólin ´98 og það var alveg hreint hræðilegt. Þeim jólum mun ég seint gleyma.

Góða nótt


mánudagur, desember 11, 2006

13 dagar til jóla

Ég mun eiga erfitt með að festa svefn í nótt. Stekkjastaur kemur til byggða. Ef ég þekki hann rétt mun hann ekki láta sér nægja að setja í skó dóttur minnar. Ó nei. Í fyrra sagði ég bara við hann: hingað og ekki lengra, ég er vinnandi kona og þarf að sofa á nóttinni.

Nei nei, ég ætti kannski að hætta þessu rugli með jólasveinana þar sem dóttir mín hefur séð í gegnum þetta plott. Þrátt fyrir að hafa haft ánægju af jólasveinunum í fyrra finnst henni gott að vita sannleikann. Núna þykist hún nákvæmlega vita hvernig hún eigi að koma óskum sínum á framfæri, þetta var allt svolítið óljóst áður. Hún spurði mig t.d. um helgina hvort hún ætti ekki bara strax að skrifa upp óskalista. Skrifa niður 13 hluti sem hana bráðvantar þannig að við þyrftum ekki að spá í þetta meira. Ég sagðist vera þakklát fyrir hugulsemina en þess mynd samt ekki gerast þörf.

Góða nótt

13 dagar til jóla

http://www.kortarinn.blogspot.com// > þetta er sú síða sem ég les nú orðið á hverjum degi. Ævintýri Kortfjölskyldunnar eru bæði falleg og spennandi. Frú Auðbjörg er landi og þjóð til sóma og hvetur okkur hin til dáða. Hún hvetur mig til þess að fara að undirbúa mitt umsóknarferli þannig að ég geti orðið nágranni Kort fjölskyldunnar. Einnig hvetur hún okkur öll einfaldlega til þess að verða að betri manneskjum. Ég er loksins búin að finna þá skóla sem ég er mest spennt fyrir;
http://www.harvard.edu/
http://www.uchicago.edu/
http://www.albany.edu/sociology/
http://www.princeton.edu/main/
http://www.uiowa.edu/

sunnudagur, desember 10, 2006

14 dagar til jóla

Í dag fór ég í afmæli. Á meðan ég sat og drakk kaffi og borðaði súkkulaðiköku brosti ég jólalega og sagði við alla sem áttu leið framhjá borðinu sem ég sat við: jæja, búin að öllu fyrir jólin?

laugardagur, desember 09, 2006

15 dagar til jóla

Núna veit dóttir mín sannleikann um jólasveinana. Hún mun samt sem áður setja skóinn útí glugga í ár. Hún er fyndin, hún virðist gleyma að ég veit að hún veit þannig að þessa dagana er hún alltaf að minnast á hvað væri frábært að fá í skóinn frá jólasveinunum. Í dag sagði hún: Stekkjastaur er uppáhalds jólasveininn minn, það væri frábært að fá Litlle pet shop frá honum.

Annars var ég að koma úr gæsapartýi. Gömul skólavinkona mín er að fara að gifta sig um áramótin. Þarna var hópur af hressum konum, sumar hef ég þekkt í 25 ár. Núna eru þær allar giftar. Giftar og hamingjusamar. Gift fólk er víst rosa hamingjusamt.

Jæja verð að fara, er að undirbúa blint stefnumót fyrir Bergþóru. Ef það gengur vel verð ég kannski að skipuleggja brúðkaupið hennar eftir nokkra daga.

föstudagur, desember 08, 2006

16 dagar til jóla

Mér er boðið í jólaboð í kvöld þar sem þemað er Gull. Skrítið þema. Myndi skilja þetta þema ef þetta væri boð fyrir Bónus- og Björgólfsfeðga. Ég veit ekki til þess að þessum feðgum sé boðið. Ætli ég mæti nú ekki samt.

fimmtudagur, desember 07, 2006

17 dagar til jóla

hóhóhó

miðvikudagur, desember 06, 2006

18 dagar til jóla

Eins og allir sem þekkja mig vita þá er ég rosa massi. Ég hef einmitt stundum verið kölluð Magga massi. Ég mæti í reglulega í ræktina þannig að ég þarf ekkert að taka mig á á nýju ári eins og svo margir aðrir sem ég þekki. Ég hitti einmitt tvær konur í gær. Þessar tvær konur fara ekki í reglulega í ræktina. Önnur þeirra mætir í íþróttaskóla barnanna einu sinni í viku, labbar stundum úti Melabúð og gerir örsjaldan jógaæfingar. Hin gerir ekkert held ég. Hún reyndar vinnur uppá Geðdeild og hlýtur því að taka pínu á þegar hún tæklar sjúklingana sem eru víst stundum með geðveik læti. Ég ætla að mæla með því að þessar tvær geri það að sínu áramótaheiti að mæta með mér í ræktina. Ég byrjaði aðeins í gær á að fara yfir mjög mikilvæg atriði sem maður þarf að hafa á hreinu. Til dæmis er mikilvægt að vera með ræktarlínkóið svolítið á hreinu. Þetta er eitthvað sem ég hef lært á þeim fjöldamörgu árum sem ég hef stundað ræktina. Fyrst um sinn hafði ég ekki hugmynd um hvað væri viðeigandi að gera eða segja í ræktinni. Ég til dæmis vissi ekkert hvort það mætti yfirleitt tala við hitt ræktarfólkið. Ég ætla að láta nokkrar setningar sem þykja við hæfi að segja við fólk sem maður hittir í ræktinni:

  1. Ef þú heldur þessu svona áfram verð ég bara að skrá þig í fitness keppnina
  2. Má ég fá sopa af próteinshakenum þínum?
  3. Koma svo!
  4. Hvað tekurðu í bekk?
  5. Hvað, bara í þrusu formi?
  6. Hey, gleymdirðu ekki að setja eitthvað á stöngina?
  7. Flottur búningur
  8. Á að taka á því í dag?
  9. Shit hvað þú ert orðin/n hrikaleg/ur
  10. Alltaf í ræktinni?

Þetta eru allt setningar sem ég hef margoft heyrt og segji sjálf reglulega. Gangi ykkur vel.

Já og jólapapírinn er víst ódýrastur í Rúmfatalagernu.


þriðjudagur, desember 05, 2006

19 dagar til jóla

Fyrir þónokkru síðan fékk ég styrk frá Nýsköpunarsjóði og Vinnumiðlun ungs fólks til þess að þarfagreina og setja upp heimasíðuna sjalfbodalidi.is. Í kvöld var síðan opnuð við hátíðlega athöfn í Hinu húsinu.

Hlutverk sjálfboðamiðstöðvarinnar, sjalfbodalidi.is, er í fyrsta lagi að vera miðlun á milli þeirra sem hafa áhuga á að vinna sjálfboðavinnu og þeirra félaga og félagasamtaka sem þurfa á sjálfboðaliðum að halda. Eins verður hægt að finna á vefnum allar upplýsingar um sjálfboðið starf, allt sem fólk sem hefur áhuga á sjálfboðastarfi þarf að vita.

Að mínu mati ættu allir að vinna sjálfboðastarf af og til. Að láta gott af sér leiða með því að vinna ólaunað starf í þágu góðs málefnis gerir fólk að betra fólki. Sjálf hef ég unnið sjálfboðastörf og ég er mjög góð, jafnvel betri en flestir.

Maðurinn sem átti hugmyndina af þessu og varð til þess að þessi vinna hófst heitir Gaukur og er Úlfarsson. Gaukur er án efa mjög góður maður.

Ég er enn í jólaskapi.

www.sjalfbodalidi.is


mánudagur, desember 04, 2006

20 dagar til jóla

Og ég í jólaskapi eins og undanfarnar vikur. Í dag tók ég geisladisk með uppáhalds jólalögunum mínum með mér í spinning. Þegar ég bað spinningkennaran um að vera svo vinsamlega að leyfa okkur að hjóla við jóla tóna í dag hló hún bara og setti sína Ibiza tónlist í tækið. Þessi uppákoma náði þó ekki að koma mér úr jólastuði. Ég drakk þrjá bolla af heitu kakói í dag.
Það hlýtur að vera eitthvað að klukkunni á bloggsíðunni minni. Ég sver það er ekki kominn mánudagur. Eða það myndi þýða að það væru bara 20 dagar til jóla.

Sorry

21 dagur til jóla.

Sorry, ég gleymdi mér í gær. Í fyrradag skrifaði ég 24 dagar til jóla en það voru bara 23.

Ég keypti samt aðventukrans í dag. Fyrsti sunnudagurinn í aðventunni. Ég vil minna öll jólabörn þarna úti á að aðventan er heldur stutt þetta árið þar sem fjórði sunnudagurinn í desember er aðfangadagur. Ég mæli því með að allir noti hverja mínútu af því sem eftir er að þessari aðventu.

Á föstudaginn fagnaði ég fyrsta degi jólamánaðar með góðum vinkonum. Við buðum nýja konu velkomna í rokkklúbbinn með því að bjóða henni uppá rauðan jóladrykk úr álfabikar. Hún þáði ekki drykkinn. Þar sem hún er læknisfrú og næstum því læknir urðu engin áflog þegar hún afþakkaði boðið, við hinar létum bara eins og allt væri í himna lagi. Ég læt mynd fylgja af nýliðanum okkar sem við erum allar farnar að elska svo mikið.


föstudagur, desember 01, 2006

24 dagar til jóla (nr.2)

Þetta er merkilegur dagur. Alnæmisdagurinn, dagur rauða nefnsins, dagurinn sem ég tók ákvörðun um að kaupa mér ekki miða á Toto, fullveldisdagurinn og dagurinn sem ég áttaði mig á því að Þorsteinn Guðmundsson er fyndnasti maður landsins.

24 dagar til jóla

Formleg niðurtalning hafin